28.08.1913
Efri deild: 41. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka háttv. forseta, að hann hefur leyft mjer að gera ofturlitla athugasemd. Mjer þótti ræða háttv. 6, kgk. (G. B.) harla einkennileg. Hann sagði, að það væri sýnilegt, að hvorki jeg nje háttv. ! kgk. (J. H.) hefðum hugsað um málið. Jeg skil ekki í, hversvegna hann segir það, því að engin rðk færði hann fyrir því, eins og ekki var heldur við að búast Ræða háttv. 6. kgk. (G. B.) bar vott um, að hann hefur kastað fram hugsunarlaust máli sínu. Háttv. 6. kgk. þm. (G. B.) verður að gæta þess, hvað miklu betur við stöndum að vígi, en hann. Við höfum á bak við okkur reynsluna, og sú reynsla sýnir sorglega, hvernig einokunin dró merginn úr þjóðinni og steypti henni í volæði; en reynslan sýnir líka, hvernig frjálsa verzlunin hefur lyft þjóðinni upp og orðið lyftistöng framfara og velmegunar. Þessi er nú reynslan, og það hvílir á háttv. 6. kgk. (G. B.) skyldan að sanna það, að nú sje fylling tímans komin til að hverfa frá frjálsri verzlun og innleiða aftur einokun. hjer í landi.

Jeg sje það, að 6. kgk. (G. B.) getur samið álnarlöng nefndarálit um hallærisvarnir og alt mögulegt milli himins og jarðar.

Forseti slítur umræðum.