29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

64. mál, friðun æðarfugla

Sigurður Stefánsson, framsögumaður; Þetta frumv. er nú komið aftur frá hv. Nd. sem vængbrotinn æður. Nú er það á valdi hv. deildar, hvort hún vill láta það halda áfram að vera vængjalaust, eða lappa svo upp á það, að æðurin verði aftur fleyg. Nefndin hjer í deild hefur að sínu leyti viljað laga frumv., og í því skyni bætt inn í það tveim greinum í stað greina þeirra, er úr voru feldar í h. Nd.

Nefndinni er það kunnugt, að breytingin á frv. í hv. Nd. stafaði af óheppilegri atkvgr., en ekki af því, að deildin væri svo móthverf efni þess; leggur hún því til, að ákvæðin í 2., 3. og 4. gr. frv., eins og það var, þegar það fór hjeðan úr deildinni, sjeu að nýju tekin upp; en hún hefur dregið þau saman í eina grein, sem hún ætlast til að verði 2. gr. frv. Þessi gr. verður samhljóða greinunum, sem feldar voru úr í h. Nd. að öðru en því, að eftir atvikum hefnr hún látið sjer lynda að sleppa ákvæðinu, sem er í viðaukalögum frá 22, marz 1890 við tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849 um, að ekki megi hirða dauðan æðarfugl. Nefndinni er kunnugt um, að þetta ákvæði hefur verið óvinsælt, þótt hún telji það ástæðulítið, að svo sje. Eigi að síður hefur hún til miðlunar slept því, með því líka hún álítur, að það muni ekki valda mjög miklu tjóni, þótt það sje gert, en heldur hefði hún þó viljað halda því.

Þá feldi og hv. Nd. burt úr frv. greinina um það, hvaða lög skyldu úr gildi feld með lögum þessum. Nefndin hefur tekið hana upp að nýju. Þó að þessar breytingar hafi verið gerðar á frv. h. Nd., þá eru töluverðar vonir um, að hún muni ekki vængbrjóta frv. aftur.

Rjett í þessu berst mjer í hendur brtill. á þgskj. 619 frá h. 2. þm. N.-Múl. (E. J.). Þessi brtill. fæ fram á það, að varpeiganda sje leyft að greiða þeim mönnum, er varp hirða, borgun fyrir starf sitt með eggjum, ef þeir óska. Jeg hef ekki haft tækifæri til að bera mig saman við samnefndarmenn mína um þessa brtill. En jeg hygg, að hún sje sprottin af alveg sjerstökum varpháttum á Austurlandi, og þá sjer í lagi hjá h. þm. (E. J.). Jeg er alls óhræddur um að h. flutnm. brtill. (E. J.) mundi ekki vanbrúka leyfi þetta, og að því leyti sje óhætt að veita það. En ekki má gera ráð fyrir, að allir sjeu eins og hann eða þeim jafn vel trúandi. Eigi að síður finst mjer við fljótlega yfirvegun, að jeg muni geta greitt atkvæði með brtill., því að jeg hygg, að óvíða muni til þess koma, að varpeigendur þurfi að taka utanheimilisfólk til að hirða varp sitt. Jeg veit, að varpland h. þm. (F. J.) er stórt og í fjarlægð frá heimili hans, og að hann muni þurfa að fá verkafólk sjer til hjálpar við hirðing varpsins; eftir því sem hann hefur skýrt mjer frá, er það einkum fátækt þurrabúðarfólk úr Vopnafjarðarkaupstað. Það er skiljanlegt, að þessu fólki komi vel að fá egg í kaup sitt, en hins vegar hagræði fyrir varpeigendur að mega greiða þessu fólki kaupið í eggjum. Þegar á þetta er litið og þess gætt, að varla geta orðið mikil brögð að eggjatöku í þessu skyni, þá sýnist vel fært að samþ. brtill.