29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

64. mál, friðun æðarfugla

Einar Jónsson:

Jeg ætla að tala fá ein orð um brtill. mína á þgskj. 619. Jeg játa það, að jeg er ekki kunnugur æðarvörpum víða hjer á landi, en þó þekki jeg til tveggja varplanda á Austurlandi; annað er það, sem jeg hef umráð yfir. Það er svo langt frá heimili mínu, að jeg verð að láta hirða það annarstaðar frá. Þeir, sem að því vinna fyrir mig, vilja helzt fá hirðinguna borgaða í eggjum, og nægja oft hin svokölluðu kaldegg til að greiða borgunina með, og ekki spillir það varpinu, þótt þau sjeu tekin.

Þá skal jeg minnast á Sauðanessvarpið. Í það þurfa að ganga 8 menn annan hvern dag, og verður að taka verkamenn að einhverju leyti til þess; er það hagkvæmt fyrir báða málsaðila, að borgunin sje greidd í eggjum, og mun mega gera það að skaðlausu fyrir varpið.

Það vill oft koma fyrir, að mikið verði af kaldeggjum. Þannig voru t. d. í byrjun hretsins síðastl. vor borin heim 7600 kaldegg. Það er hart fyrir varpeigandann að þurfa að láta verða ónýt þau egg, sem hann getur ekki hagnýtt sjer á heimilinu, þegar svona stendur á; en mega ekki borga í vinnu við hirðing varpsins með þeim. Jeg býst við, að óvíða muni varp vera svo langt í burtu, að eigandinn geti ekki látið hirða það að heiman, eða svo stórt, að. hann komist ekki yfir að hirða það með heimilisfólki sínu, og getur það því varla orðið. æðarvarpsræktinni til mikillar hindrunar,. þótt brtill. sje samþykt. Jeg veit að vísu, að hugsanlegt er, að þessi heimild verði vanbrúkuð, en varla geta orðið mikil brögð að því, þar sem sjálf greinin, sem brtill.. á að bætast inn í, bannar öllum að láta. af hendi æðaregg til utanheimilismanna,. og þá mættu þeir, sem fá þau fyrir hirðingu á varpi ekki heldur gera það. Jeg vona því, að viðaukatillaga mín geti ekki á neinn hátt orðið til hindrunar æðarvarpsræktinni, sem þetta frv. vill styðja.