29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Sigurður Stefánsson:

Jeg tek undir með háttv. þm. Barðstr. (H. K.), að jeg álít þetta lítilfjörlega bót á ábúðarlöggjöfinni, og það er margt fleira, sem þarf rækilegrar athugunar við, og hjer er alls eigi vikið að. Eitt atriði er það þó, sem. jeg vil sjerstaklega minnast á.

Eins og kunnugt er, er heill flokkur landsdrottna hjer á landi, sem háður er sjerstökum kvöðum, er liggja á jörðum þeirra; eru það bændakirkju eignirnar, sem þurfa að svara hálfum smjörleigum af kirkjujörðunum. Mjer er það nú eigi ljóst, hver áhrif það gæti haft í framkvæmdinni, ef þau ákvæði frv. gengju fram að leiguliðar á þessum jörðum gætu skorazt undan að taka á móti kúgildum þeim, er þeim fylgja, þar sem landsdrottinn yrði þó eftir sem áður að svara hálfum leigunum til prestsins. Það er að vísu auðsætt, að landsdrottinn verður að hækka eftirgjald jarðarinnar svo, að hann sje skaðlaus, en það getur samt sem áður valdið honum töluverðum baga og óþægindum. Jeg vil því biðja háttv. nefnd að skýra frá, hvernig hún hugsar sjer afstöðu bændakirkjueigenda og leiguliða þeirra í þessu efni. Það getur verið hart fyrir landsdrottinn að verða að taka við kúgildunum til þess að geta fengið jörðina bygða, enda þótt hann telji sjer skaða eða að minsta kosti óþægindi að því. Annars er jeg samþykkur háttv. þm. Barðstr. (H. Kr.) um, að gera þurfi gagngerða endurskoðun á ábúðarlöggjöfinni, og að þetta sje svo litil bót, að betra sje hún bíði betri endurskoðunar. Fái jeg ekki fullar upplýsingar hjá háttv. nefnd, langar mig til að bera fram brtill. við 3. umr. um, að þetta ákvæði nái ekki til eigenda bændakirkna.