29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Jón Jónatansson, framsögumaður:

Jeg skal ekki lengi eyða tímanum fyrir hv. deild. Jeg get verið flestum, er talað hafa, þakklátur, og jeg vona, að þau verði úrslitin, að frumv. fái að fara áfram og breytingartillögur nefndarinnar verði samþyktar.

Gegn athugasemdum háttv. þm. Ísf. (S. St.) get jeg vísað til þess, er hv. þm. N: Múl. (E. J.) svaraði þeim. Jeg sje nú reyndar ekki þessi vandkvæði, sem hv. þm. Ísf, hreyfði og óttaðist, að stafa mundi af frv. En hinsvegar þykir mjer sjálfsagt, að nefndin taki athugasemdir hv. þm. Ísaf. (S. St.) til íhugunar, og segi álit sitt á þeim við 3, umr.

Þá er hv. þm. Barð. (H. K.). Honum þótti ákvæði frv. um kúgildin varhugaverð. Honum þótti hættulegt að ákveða mætti um kúgildin með frjálsum samningi. Hann óttaðist, að það yrði ef til vill til þess, að jarðirnar bygðust ekki. Það er nú ekki gott að segja, hvað verður, ef leiguliða og landsdrotni kemur ekki saman. Það er ekki hægt að synda fyrir þau sker í löggjöfinni.

Hv. sama þm. (H. K.) þótti og umbæturnar á frv. lítilvægar. Þar er jeg á sama máli og hv. þm. Hjer er aðeins verið að bæta úr bráðustu nauðsyn. Jeg held, að þetta frumvarp sje betra en ekki, þó lítið sje.

En eitt þótti mjer skrítið hjá hv. þm. Barð. (H. K.). Hann taldi ábúðarlögin góð, en líkti þeim þó við nauðaslitið fat. Hann vildi helzt ekki láta hrófla við lögunum, af því að honum virtist þau góð, en kom svo með þessa líking! Jeg kom þessu ekki saman hjá hv. þm. Ástæður og mótbárur hins hv. þm. gegn frv, voru því heldur lítils virði.