29.08.1913
Efri deild: 42. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

68. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Hákon Kristoffersson:

Jeg get ekki verið sammála því, sem hv. þm. N.- Múl. (E. J.) sagði um kúgildin, og mjer þótti ástæður hans einkennilegar. Hann taldi og vafasamt, hvort bændakirkjujarðir heyrðu. undir ábúðarlögin. Jeg verð að álita, að þetta sje nokkuð einkennileg skoðun, og satt að segja ólík því, að koma frá jafn greindum manni og þessum hv. þm. Mjer er spurn. Undir hvaða lög heyra bændakirkjujarðir, ef ekki undir lögin frá 12. júní 1884?

Hv. frsm. (J. J.) sagði, að jeg hefði talið ákvæði frv. um kúgildin hættuleg; en þar hefur hann annaðhvort ekki heyrt,. hvað jeg sagði, eða misskilið mig. Hann sagði og, að jeg hefði sagt, að ábúðarlögin væru góð, en hefði þó líkt þeim við sundurslitið fat. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. Jeg sagði, að það væri eins og verið væri að setja nýja bót á sundurslitið fat, ef þetta frv. yrði samþykt Þetta var hinn mesti útúrsnúningur hjá hv. þm., sem jeg tel með öllu óhæfilegan, en það er vel farið fyrir hann, ef hann er hróðugur af slíku afreki. Jeg þykist ekki vanur að snúa út úr orðum annara manna, og tek því ekki með þökkum, ef snúa á útúr mínum orðum. Þeim, sem færa orð mín til betri vegar, ef þau eru ekki svo skýr, að vel sjeu skiljanleg, þeim er jeg aftur á móti þakklátur.