01.09.1913
Efri deild: 43. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Steingrímur Jónsson:

Mig langar til að segja örfá orð um þetta frv., áður en það fer út úr deildinni, og tel viðeigandi, að koma fram með þær athugasemdir, er jeg vil gera, nú við 3. umr.

Jeg skal þá byrja mál mitt á, að jeg tel rjettarbót að þessu frumvarpi. Kostur þess er sá, að menn geti trygt sig gegn kornvöruskorti, ef ís og hallæri ber að höndum. Þetta tel jeg rjettmæta stefnu. Og jeg ætla, að það komi sjerstaklega að gagni í sveitum, er afskektar eru, þar sem erfitt er til vöruaðdrátta og alls afla. Í sambandi við þetta liggur beint við að vísa til þess, að kaupmannastjett landsins hefur ekki reynzt fær til að tryggja landinu nægar kornbirgðir. Síðan verzlunin varð frjáls 1854 hafa litlar eða engar umbætur orðið í þessu efni, er tryggi þjóðinni það, að nægilegur kornforði sje ætíð fyrir höndum, hvernig sem árar. Mjer þykir því vænt um hverja ráðstöfun, er miðar að því, að tryggja okkur þetta. Og þetta frv. er spor í þá átt.

Það fælir mig ekki að neinu leyti frá frv., þó að sagt sje, að frv. stefni í einokunaráttina, sje að nokkru leyti spor í þá átt, að löggjafarvaldið taki að sjer að tryggja landinu alt af næga kornvöru og um leið að taka á hönd sjer öll kornvörnkaup. Jafnvel þó að jeg vissi, að þetta yrði afleiðingin af frv., mundi jeg ekki snúast gegn frv. fyrir því. Jeg tel slíkt ekki tap, heldur þvert á móti. Með því móti tel jeg fengna miklu meiri trygging fyrir því en nú, að kornvöru skorti ekki í landinu, og að kornverzlun öll batni.

Sú stefna og skoðun hefur um alllangan tíma drotnað meðal margra menningarþjóða heimsins, að rjett væri að láta verzlunina sem mest fara ferða sinna, láta hana vera sem frjálsasta, svo að hún geti sem mest farið eftir lögunum um tilboð og eftirspurn. Þessi stefna er fyrst runnin frá þjóðmegunarfræðingnum Adam Smith. Og mjög margir ætla, að þessi meginstefna hans í verzlun og viðskiftum hafi gert Englendinga að voldugri og auðugri þjóð, og það er víst rjett. En hinu má heldur ekki gleyma, að hún hefur gert meira. Hún hefur skapað þann hinn mikla sæg hungraðra og volaðra þurfamanna, sem hið volduga brezka ríki skelfur nú fyrir. Það þarf ekki að lesa mikið í enskum tímaritum og blöðum til að sjá, að það er ekkert, sem stjórnmálamenn Breta og hugsandi menn óttast eins mikið og þetta ástand, eins og þessar miljónir hungraðra manna. Árangur þessarar stefnu frjálsu verzlunarinnar hefur því orðið sá, að hún hefur ekki komið á meiri jöfnuði á kjörum manna, heldur þvert á móti. Hún hefur einmitt orðið til þess að stækka muninn á ytri kjörum auðmanna og fátæklinga. Margt bendir og á, að stefna þessi sje smátt og smátt að hverfa, en ný að rísa í hennar stað; bezt menntuðu ríkin og þau sem bezt er stjórnað eru smámsaman að hefta atvinnufrelsi manna.

Um þetta atriði þarf ekki að fjölyrða, einkum þar sem háttv. 6. kgk. þm. mintist á það við 2. umr.

Það er altaf hrópað á einokunina gömlu, er eitthvað líkt og þetta frumvarp ber á góma. „Þetta er einokunin gamla“, segja menn, og við höfum reynsluna fyrir okkur, hvernig hún hefur gefizt. En hjer er um annarskonar einokun að ræða. Sú einokunarstefna, sem fylgt var hjer fyrrum, var almenn um þær mundir, og ríkti alllengi í Evrópu. Hún reyndist hjer illa. Og af hverju ? Af því að hún var fyrirskipuð af útlendum konungi, er enga hugmynd hafði um, hvernig tilhagaði hjer á landi. Og hún var fengin útlendum fjelögum í hendur, er öll höfðu það eitt fyrir markmið, að græða sem mest á henni. En slíkt er ekki í samræmi við einokunarstefnu nútímans nje anda hennar. Tilgangur hennar, mark og mið er að tryggja sem bezt öll verzlunarviðskifti og tryggja með því móti hag landsmanna.