05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Steingr. Jónsson, framsögumaður:

Þegar gera á grein fyrir starfi fjárlaganefndarinnar, get jeg ekki látið hjá líða að byrja með að minnast á, hve naumur tími nefndinni hefur verið leifður. Þegar litið er á frv. sjálft og allan þann grúa af skjölum, sem nefndin hefur haft með höndum í sambandi við það, þá hljóta allir að sjá, að það er ofverk hverri nefnd, að kynna sjer það alt og ganga vel í gegnum það á einni viku, en það er allur sá tími, sem nefndin hefur haft, eða frá þriðjudegi til þriðjudags. Jeg hygg þó, að nefndin hafi leyst þetta verk svo vel af hendi, sem kostur var á, á þessum skamma tíma. Hún hjelt 12 fundi, og jeg get sagt það, að innan nefndarinnar var gott samkomulag um aðalstefnuna, þótt ekki gætu allir verið alveg sammála um allar brtill. á þgskj. 665, sem eru 73 að tölu. En annars var samkomulagið gott, og vil jeg geta þess, að þótt hv. 5. kgk. hafi skrifað undir með fyrirvara, þá er það eiginlega ekki sökum ósamkomulags, heldur vegna þess, að honum þótti nefndin fara of stutt í sparnaðartal. sínum. Einstakar brtill. mun jeg minnast á sjerstaklega. Það sem fjell bæði nefndinni og öðrum fyrst í augu, voru hinar afarháu tölur, sem bæði koma fram í 1. og 7. gr. Þessar tölur segja ekki mikið um það, hvernig fjárhagurinn er. Hann getur verið góður fyrir því. En eigi er hægt að verjast þeirri hugsun, að við sjeum að nálgast þá upphæð, að takmarka beri útgjöldin dálítið. Það lætur nærri, að umsetningin nemi 4 milj., en fyrir tæpum 10 árum var hún 2 milj., og þá var æpt um alt land, og þingið nefnt „miljónaþing“. Til samanburðar má geta þess, að 1910–11 voru tekjurnar áætlaðar 2,930,530 kr. en gjöldin 2,994,440 á næsta þingi, eða fyrir fjárlagatímabilið 1912–13, er áfengistollurinn úr sögunni, og vörutollurinn ókominn, og eru þá tekjurnar áætlaðar 2,887,400 kr. en gjöldin 3,333,667 Nú eru í frv. stjórnarinnar tekjur áætlaðar 3,706,470 kr. en gjöldin 3,630,833 En hv. Nd. hækkar þau um 352,830 kr., svo útgjaldaliðurinn verður 3,983,713 kr. og áætlar tekjuliðinn 3,718,470 svo tekjuhallinn á fjárl., eins og þau koma frá hv. Nd. nemur meiru en 265 þús. kr. Það er auðsjeð, að stjórnin hefur verið mjög varkár, er hún samdi fjárlaga frv., og að hækkun Nd. á tekjunum er aðeins formbreyting. Nd. hefur verið svo óvarkár að hækka gjöldin um 352 þús. kr. þrátt fyrir það, að hún hefur felt úr frv. fjárframlag til stórbrúar, er nemur 70 þús. kr., svo hækkunin verður í raun og veru meiri. Það má segja, að það sje að nokkru leyti eðlilegt, að gjöldin hafi verið hækkuð, og flestar hækkanirnar sjeu til fyrirtækja, sem vert sje að styðja, og skal jeg játa, að svo er, en slíkt má gera um of, og fara út í öfgar, og takmarkið er þó alt af að halda jafnvægi á tekjum og gjöldum, eftir því sem unt er. Og þegar gjöldin eru komin alt að 4 milj., þá virðist mjer komið að hámarkinu. Þetta er mjög athugavert, og nefndin hefur öll verið á einu máli um það, að nauðsynlegt sje að lækka tekjuhallann, eða að minsta kosti hamla því, að hann aukist úr þeim 265 þús., sem hann nam, er fjárlögin komu frá Nd. Nefndin hefur því komið fram með 73 brtill., sem að vísu eigi miða allar að því að lækka, en tilgangurinn er sá yfirleitt. Nema þessar lækkunartillögur samtals kr. 81,100. Nefndin gat ekki komizt hjá að taka til greina nokkrar tillögur um gjaldhækkun, sjerstaklega frá stjórninni, og nema þær brtill. 47150 kr., og verður þá niðurfærslan um 34 þús. eða nákvæmlega 33950 kr.

Eftir þessi inngangsorð vil jeg minnast á brtill. nefndarinnar og aðrar brtill. við 1.–13. gr. Viðvíkjandi tekjukaflanum vil jeg geta þess, að nefndin hefur engar brtill. gert, og lítur svo á breytingar h. Nd. á áætluninni, að þær sjeu ekki hættulegar. En hitt vill hún benda á, að nú má eigi búast við, að tekjurnar á næsta fjárhagstímabili fari eins mikið fram úr áætlun, eins og við höfum átt að venjast undanfarið.

Að því er 8. gr. snertir, þá eru ætlaðar 250 þús. kr. til afborgunar á lánum landssjóðs og 200 þús. til vaxtagreiðslu,, eða alls 450 þús. kr., og er gott, að þau færast ofurlítið niður.

Þá leggur nefndin til í 1. brtill. sinni, að orðin „alt að“ í 9. gr. 5 falli burtu, Nefndin álitur, að stjórnin verði að hafa nægilegt fje til skrifstofu- og aðstoðarkostnaðar, svo ekki sje hætta á, að hún verði að hætta útborgunum, og þegar gætt er að vörutollinum, virðast þessar 18 þús. kr. ekki of há upphæð.

Brtill. 2. e er við 11. grein B. 6 og fer fram á, að tillagið til eftirlits með veiðum útlendinga á landi sje fært niður í kr. 4500 úr kr. 10,000 hvort árið. Samkvæmt gildandi fjárlögum er veitt til þessa 1500 kr. á ári. Þessi upphæð reyndist of lág, og var þá tekin upp á fjáraukaIög 500 kr. viðbót. Þó nú nefndinni þyki ástæða til að hækka þennan lið að nokkru, þá þykir henni ekki ástæða til að hækka hann svo mikið, sem háttv. Nd. fer fram á. Það er engin áætlun til um, hvernig þessu eftirliti eigi að verða hagað, og því síður um kostnað við það. Virðist nefndinni því varhugavert að veita til þessa stórfje. Leggur hún því til, að veittar verði 4500 kr. hvort árið, og hyggur, að með því fje megi styrkja 3 mótorbáta til móts við jafnmikinn styrk annarsstaðar að.

Að því er snertir ferðalag augnlæknis, þá getur nefndin ekki sjeð, að mikið sje unnið við ákvæðið um, að hann dvelji á sama stað hálfan mánuð. Það getur verið ókleyft fyrir marga að vitja hans þangað, sem hefðu getað það, ef hann hefði viðdvöl á tveim stöðum, viku í stað, og leggur því til, að athugasemdin orðist eins. og tekið er fram í 3. brtill. við 12. 4 b.

Athugasemdinni um ókeypis lækningar sjerfræðinganna hjer í Reykjavík var breytt í Nd. á þann hátt, að það getur valdið misskilningi. Nefndinni hefur virzt rjett að bæta úr þessu á þá leið, að skylda þá til að veita fátæklingum ókeypis læknishjálp á tilteknum stað.

Þá kem jeg að þeirri brtill., er jeg veit, að mælast muni misjafnlega fyrir. Hún er um Vífilsstaðahælið og styrkinn til þess. Styrkurinn til hælisins var stórum hækkaður í stjórnarfrv., um 7000 kr., úr 18 þús. kr. upp í 25000 kr. hvort árið. Nd. breytti þessu á þá leið, að hún veitti hælinu í viðbót 5000 kr. fyrra árið til að kaupa Röntgensáhöld fyrir. Nefndin leit svo á, sem hjer væri of ört farið í styrkhækkunina. Heilsuhælið er prívatstofnun, og það stendur ekki á nokkurn hátt undir umsjón landstjórnarinnar, og hún getur engin áhrif haft á fjárhagsstjórn þess. Nefndin lítur svo á, að það sje æskilegt, að þeirri stefnu verði haldið áfram, að þessari stofnun verði haldið uppi af prívatfjelagi með styrk og stuðningi landssjóðs, en að þessu megi ekki snúa við þannig, að landssjóður standi straum af hælinu, með stuðningi prívatfjelags. Og þetta vill nefndin undirstrika með brtill. sinni. Hún vill segja með þessu: Hingað og ekki lengra. Það verður að stöðva þessa hækkun. Við það verður nú að sitja, sem komið er.

Jeg játa auðvitað, að eigi megi koma til þess, að hælið visi sjúklingum á burt, En nefndin getur ekki sjeð, að hætta sje á því; það þarf að leita fyrir sjer um það, eins og líka er drepið á í nefndarálitinu, hvort ekki sje hægt að fá meira fje til hælisins með frjálsum samskotum, áheitum, tillögum og dánarminningargjöfum. Það hefur dregið mjög úr áhuganum og viðleitninni í þessu efni síðan 1906. Nefndin lítur svo á, að meiri tekna væri hægt að afla hælinu, ef gengið væri rösklega fram í að safna dánarminningargjöfum til þess, og ef minningjarspjöldin væru höfð víðar til sölu, en nú er. Þetta er önnur leiðin, er fara má til þess að láta hælið bera sig sæmilega, án þess að framlagið úr landssjóði sje hækkað ótakmarkað. Hin leiðin er sú, að hækka dálítið gjald það, er sjúklingarnir greiða nú. Þetta gjald er lægra en á sumum spítölum og sjúkrahúsum út um land. Það var víða áður kr. 1,10 á dag, nú er það sumstaðar kr. 1,50, eftir því sem jeg bezt veit, ef til vill hærra. Á Vífilsstöðum er það kr. 1,40. Það virðist því vel geta komið til mála að hækka gjald sjúklinganna nokkuð. Aðstandendur sjúklinga og sveitarsjóðir standa eins nærri því að styrkja hælið með gjaldi til þess og landssjóður.

Þá kemur brtill. við lið 10 a, og fer fram á lítilsháttar hækkun á styrk til sjúkrahúsa og sjúkraskýla. Tilefnið en ekki beinlinis ástæðan til þessarar tillögu, er að nefndinni hefur borizt erindi frá hjeraðslækninum í Keflavík, þar sem hann sækir um styrk til að leigja herbergi eða part úr húsi handa sjúklingum. Nefndin lítur svo á, að oft sje heppilegra að leigja húsnæði handa sjúklingum en byggja sjúkraskýli, sem oft vilja verða dýr. Hins vegar verður því ekki neitað, að þörfin á þesskonar húsrúmi er mikil. Hún telur og vist, að þessi styrkur verði veittur eftir sömu reglum og styrkurinn til sjúkrahúsa.

Þá er 7. brtill. nefndarinnar, við 12. gr. 10 b. Hún fer fram á, að styrkurinn til að koma upp sjúkraskýlum á föstum læknissetrum hækki fyrir hverja 1000 menn í læknishjeraðinu. Landlæknir kvartaði um það, fyrir fjárlaganefndinni, hve lágur hann væri, og hjelt því fram við hana, að hann næmi enganveginn nálægt því 1/3 af byggingarkostnaðinum. Nefndin athugaði málið og komst að því, að þetta væri rjett athugað, og kemur því fram með brtill. um að hækka þennan lið úr 2000 kr. upp í 3000.

Þá er 8. brtill. við 10. f. í sömu grein. Hún fer fram á hækkun á utanfararstyrk til lækna. Nefndin lítur svo á, sem mikið gagn hafi orðið að þessum styrk, og að þessar utanferðið lækna sjeu nauðsynlegar. En styrkurinn er heldur lágur. Því vill hún hækka þennan lið um 300 kr. úr 600 upp í 900 kr., þannig að veita megi alt að 150 kr. fyrir hvern mánuð ferðarinnar.

Styrkurinn til sjúkrasamlaga sýnist lágur. Eftir því sem jeg veit bezt, er nú meðlimatala þeirra hátt á 5. hundrað. Og það má búast við því, að þau fjölgi mikið. Þessi áætlaða upphæð er því of lág. því er lagt til að hækka hana úr 200 kr. upp í 600 kr.

Þá er ein brtill. eftir við 12. gr. Þar er lagt til, að Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara verði veittur 1200 kr. styrkur til utanfarar. Ástæðan til þessa er sú, að það er með öllu óhjákvæmilegt að stækka geðveikrahælið á Kleppi. Það var í fyrstu ætlað 40–50 sjúklingum, en nú eru þar miklu fleiri. Og út um landið eru margir sjúklingar, sem komast ekki þangað vegna rúmleysis. Og það verður að telja það rjett, sem landlæknir heldur fram, að það sje ekki gerlegt, að ráðast í þetta fyrirtæki, nema oss sjeu áður kunnar nýjustu samskonar byggingar ytra, og nýjustu framfarir í þessari grein húsagarðar, svo að hælið geti sem mest samsvarað kröfum tímans. Nefndin vill taka vel í þessar málaleitanir landlæknis, og hún gerir sjer von um, að þessi styrkveiting komi að miklu gagni. Rögnvaldur er mætur maður, sem unnið hefur gott verk og þarft verk sem ráðunautur landsstjórnarinnar í því, er að húsagerð lýtur. Nefndin væntir þess og, að ferðin komi honum að gagni, í fleiru en kynningu á geðveikrahælum. Meiri hluti nefndarinnar áleit, að 1200 krónur mundu nægja til þessarar farar.

Þá kemur 13. gr. frv. Þetta er stærsta grein þess. Samkv. frv., eins og Nd. hefur gengið frá því, hækka gjöldin til samgöngumála um 172,800 kr. frá því, sem þau eru í gildandi fjárlögum. Og þó var felt úr frv. stjórnarinnar stórbrú, sem átti að kosta 70 þús. kr.

Þess skal getið, að nefndin er samþykk stefnu stjórnarinnar í, að bæta kjör póstafgreiðslumanna. Hjer eru gerðar meiri umbætur en nokkru sinni áður á fjárlögunum, að því, er þetta snertir. Auk þess eru 8 nýjar póstafgreiðslur teknar upp. Alls nemur gjaldaukningin 8 þús. og 600 kr. En nefndin vonar, að póststjórnin láti nú staðar numið um sinn með þessar hækkanir, því ella stefnir hjer til ógengdar.

Þá koma akbrautirnar. Í fjárlögunum 1912–13 voru veittar 135,500 kr. til þeirra, og þá er Rangárbrúin ekki talin með, en eftir frv. Nd. eru nú ætlaðar 147 þús kr. En þá verður líka lokið við 3 brautir: Borgarfjarðar-, Eyjafjarðar-, og Reykjadalsbraut.

Þá eru eftir 3 brautir: SkagfirðingaHúnvetninga og Grímsnesbraut. Þá er þessu er öllu lokið, er mikilli kvöð Ijett af landssjóði, eftir því, sem ákveðið var í vegalögunum 1894 og lögunum 1907,þar sem ákvæði laganna frá 1894 voru skerpt og endurtekin.

Þá koma þjóðvegirnir. Þar fer nefndin fram á nokkrar lækkanir. Í stjórnarfrv. var ein stórbrú, en í þessu er engin, en þar á móti nokkrar smábrýr. Þó er þessi kafli hærri, en hann er í gildandi fjárlögum, og þótti hann þó allhár þar. Tillögur nefndarinnar um þennan bálk spretta af sparnaðarástæðum.

Landsverkfræðingur fer fram á, að brýr á Ljá og Fáskrúð verði bygðar sama árið. því kemur nefndin fram með brtill. um það. Eftir frv., eins og það er nú, átti aðeins að byggja brúna á Fáskrúð fyrra árið.

Þá leggur nefndin til, að Bleikdalsárbrúin falli burt. Til þess gengur henni sparnaðarhugsun. Nefndin gat ekki sjeð, að bráða nauðsyn bæri til þessa, svo að það þyrfti að ganga á undan öðru. Það verða ekki allar ár landsins brúaður í einu. Til þess brestur fje og til þess brestur vinnukraft. Sama má segja um ástæður nefndarinnar til brtill. um þjóðveginn í Austur-Skaftafellssýslu, að sá liður falli burtu.

Sjálfur er jeg að vísu ekki kunnugur veginum þar eystra, en mjer er sagt af kunnugum mönnum, að þeir sjeu með betri vegum landsins. Það vantar og vitneskju um, hvort þetta eigi að vera akfserir vegir. Ef til vill mætti leggja eitthvað af því, sem ætlað er alment til vegagerða, til vega í Austur-Skaftafellssýslu.

Á 15. breyttill. nefndarinnar minnist jeg ekki í þessu sambandi, en geri það seinna.

Þá er 16. brtill. Hún fer fram á, að Eskifjarðarvegurinn falli burt. Nefndin hefur átt tal við landsverkfræðinginn um hann, og komizt að þeirri niðurstöðu, að ekkert vit væri í að byrja á þeirri vegagerð nú. Hann á að vera milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, og kostar sá vegur allur milli 40–50 þús. kr. um það, er honum er lokið. Vegalengdin verður 15 kílóm. Þess er að gæta, að þar er ágæt sjávarleið. Vegurinn liggur fyrir ofan fjöruna, ef farið er á landi, en fyrir utan hana, ef farið er sjóleiðis. Þar eru og nógir mótorbátar til mannflutninga. Vegurinn yrði mest skemtivegur og fyrir gangandi fólk. Nefndin telur þessa vegagerð með öllu ófæra, ekki sízt þar sem henni hefur verið bent á, að þörf væri á góðum vegi á Völlunum, er tengdi veginn þar við Fagradalsbrautina.

Brtill. um dragferjuna á Blöndu stafar af því, að hún er á sýsluvegi, en ekki þjóðvegi, og því á hún að færast aftur í þennan lið greinarinnar.

Loks vill nefndin fella burt brúna á Þverá í Eyjafirði. Styrkurinn er raunar ekki nema 700 kr., og fjárhæðin ekki athugaverð frá því sjórnarmiði. Hitt er ísjárverðara, að hún er á hreppavegi. Þar vill nefndin fara varlega. Landssjóður hefur styrkt sýsluvegi, þar sem engir þjóðvegir eru, og er það eðlilegt, en það hefur þó dregið mikinn dilk á eftir sjer. Það væri þó enn þá hættulegra, að fara að styrkja hreppavegi. Það var að vísu gert við akveg í Svarfaðardal, en til þess voru alveg sjerstakar ástæður. Hreppurinn tók afarþunga byrði sjer á herðar. Hver verkfær maður skuldbatt sig til að vinna 3 dagsverk árl. í nokkur ár, svo að styrkurinn var veittur sem verðlaun fyrir dugnað.

Þá er e-liðurinn. Eftir frv. Nd. nemur hann 261,800 kr. Hækkunin frá því, sem hann er á gildandi fjárlögum, nemur um 50,000 kr. Aðalhækkunin er vitanlega fólgin í styrknum til Eimskipafjelags Íslands.

Nefndin fer fram á dálitla lækkun á þessum lið. Nefndin hefur ekki sjeð neina gilda ástæðu til, að hækka styrkinn til Breiðafjarðarbátsins frá því, sem var á síðustu fjárlögum. Það er kunnugt, að útlendur kaupmaður var fenginn til að láta gufubát ganga um fjörðinn, og hefur fengið til þess 7000 kr. styrk. Lengra eru Breiðfirðingar ekki á veg komnir í þessu efni. Stjórnin leit svo á, sem eigi væri ástæða til að veita nema 4000 kr. Nefndinni þótti rjett að halda sjer við þessar 7000 kr., sem eru á þessum núgildandi fjárlögum. Jeg skal taka það fram, að nefndinni þætti málið horfa nokkuð öðruvísi við, ef Breiðfirðingar keyptu sjálfir laglegan bát, og hjeldu honum út á sinn kostnað. Ef þeir gerðu það, væri aðstaða þeirra öll önnur en nú, og þá væri sjálfsagt, að sjá það við þá á þinginu 1915. Það mætti jafnvel veita þeim styrk til þess á fjáraukalögum.

Þá er brtill. um Hvítárbátinn, að færa styrkinn úr 800 kr. niður í 600 kr. Nefndin hefur ekki sjeð neina ástæðu til að hækka þennan styrk frá því, sem var í frv. stjórnarinnar.

Þá vill nefndin fella burt styrkinn til mótorbátsferða til Hvalfjarðar. Hún er á þeirri skoðun, að þessi bátur sje aðallega til að keppa við Ingólf, og slíkt telur nefndin rangt og þykir það óheppileg aðferð, að styrkja þennan bát til að keppa við bát, er mikill styrkur er veittur úr landssjóði. Nefndin hefur heyrt utan að sjer, að mikið umtal hafi orðið um þessa tillögu. Ef það kemur í ljós, að hlutverk bátsins er annað en það, sem jeg sagði, þá má lagfæra þetta við 3. umr., ef till. nefndarinnar yrði samþykt nú.

Þá hefur nefndinni borizt beiðni frá 53 alþingiskjósendum í Rauðasandshreppi um styrk til mótorbátsferða frá Patreksfirði til Rauðasands. Sveit þessi er mjög afskekt, og samgöngur stirðar og erfiðar og þótti nefndinni því sanngjarnt, að verða við þessari beiðni og veita 300 kr. styrk hvort árið. — Þá er brtill. nr. 10 á þgskj. 665, viðvíkjandi athugasemdinni, sem tengd er við styrkinn til Eimskipafjelags Íslands. Nefndin,— eða að minsta kosti 4 okkar –er sammála um, að rjett sje að binda styrkinn því skilyrði, að fjelagið tæki að sjer strandferðirnar frá 1916. Það er mín skoðun og jeg hugsa flestra annara, að erfitt verði í fyrir alþingi, að verja svo stóra fjárveitingu, nema eitthvað sje hugsað fyrir strandferðunum um leið. Nefndin hefur þá föstu trú, að strandferðirnar muni ekki stofna fjelaginu í voða, og þess ættu menn einnig að gæta, að fjelagið mundi verða miklu vinsælla, ef það tækist þessa skuldbindingu á hendur. Fátæklingarnir, bæði til sjávar og sveita, hafa verið miklu örari til framlaga við þetta fjelag, heldur en kaupmennirnir, þótt ótrúlegt megi virðast, og margir þeirra hafa áreiðanlega lagt fram sinn skerf í þeirri von, að fjelagið mundi fyr eða síðar taka strandferðirnar í sína hönd. Þetta hlýtur líka að verða hlutverk fjelagsins, og ef því tekst að leysa það vel af hendi, er jeg ekkert hræddur um, að það fái ekki yfirhönd yfir keppinautum sínum. Því má ennfremur bæta við, að litlar líkur eru til, að við munum framvegis komast að samningum við Sameinaða fjelagið um strandferðirnar. Nefndin vill því mæla fastlega fram með, að athugasemdin verði samþykt, eins og hún er orðuð í 19. brtill. nefndarinnar.

Þá er að minnast á símamálin. Á gildandi fjárlögum eru tilfærðar fjárveitingar til símalagninga, en samkv. símalögunum frá 1912 eru þau fjárframlög nú eigi talin í fjárlagafrv. Nefndin hefur hjer gert þá brtill., að fella burt launahækkunina til símaverkfræðings P. Smith og Gísla Ólafssonar stöðvarstjóra, því að þeir virðast nú hafa sæmilega há laun, þar sem annar hefur 2600 kr., en hinn 2400. Það þarf ekki annað en benda á launakjör póstafgreiðslumanna í Reykjavík — 1 póstafgreiðslumaður hefur 2440 kr., 2 þeir næstu fyrir neðan hann 1800 kr. hvor — til þess að sjá, að þessi launahækkun er ekki á rökum bygð. — Þá hefur nefndin skotið lítilsháttar athugasemd inn í þennan kafla um, að símasendlarnir á Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði beri símskeyti um allan kaupstaðinn, Yfir því hefur sem sje verið kvartað, að símasendlarnir utan Reykjavíkur beri ekki símskeyti út um alla bæina, og þótti því nefndinni rjett, að bæta þessari athugasemd inn í fjárlögin. — Ein brtill. nefndarinnar símamálunum viðkomandi fer fram á útgjaldahækkun, en það er brtill. um að heimila stjórninni alt að 14,000 kr. fyrra árið til þess að kaupa húsið, sem símastöðin á Akureyri nú er í. Um þetta atriði vil jeg leyfa mjer að Vísa til nefndarálitsins. Landsímastjórinn vill helzt flytja stöðina og byggja nýtt stöðvarhús fyrir fje landsjóðs. En stjórnarráðið álítur ekki ástæðu til þess, og nefndin getur ekki sjeð, að brýn ástæða sje fyrir hendi, að ráðast í hinn kostnaðarsama flutning stöðvarinnar. Ennfremur verður nefndin að álíta, að það sje eftir málavöxtum sanngjarnt, að landstjórnin kaupi húsið af eigenda þess, ef ekki ber brýna nauðsyn til flutningsins. Landsímastjórnin gerði samning við húseigandann 1910 um kaup á húsinu, ef alþingi vildi veita fje til þess. En af einhverjum ástæðum bar stjórnin þetta mál ekki upp fyrir alþingi 1911 og hefur því síðan ekki verið hreyft fyr en nú, að eigandinn hefur snúið sjer til stjórn ar og þings. Stjórnin hefur ekki sint málaleitun hans, en nefndin álítur, að sanngirni mæli með því, að taka hana til greina.

Þá vil jeg minnast á þær brtill. við þessa kafla, sem komið hafa fram frá einstökum mönnum. Fyrst vil jeg þá geta um brtill. frá h. þm. Strand. á þgskj. 686, sem fer fram á, að styrkur verði veittur hreppsbúum í Bæjar- og Árnesshreppum í Strandasýslu til þess að vitja læknis, 300 kr. til hvors. Nefndin áIítur þessa fjárbeiðni á nokkrum rökum bygða og er henni hlynt. Samskonar styrk fer brtill. á þgskj. 729 frá háttv. þm. N.- M fram á að veittur veri Hróarstunguhjeraði, aðeins er þar beðin um nokkru meiri styrk. Nefndin mun verða fús á að leggja til, að Borgarfjarðarhreppi verði veittur sami styrkur sem Árneshreppi, og vonar því að h. þm. taki brtill. aftur. — Þá er brtill. á þgskj. 710 frá h. þm. Barð., um að feld sje burt hin persónulega launaviðbót til landsverkfræðingsins.. Þessi launahækkun var samþykt andmælalaust í Nd., og nefndin lítur svo á, að þessi maður hafi svo vandasamt starf á höndum, að ekki tjái að skera laun hans við neglur sjer. — Nefndin er meðmælt brtill. á þgskj. 712 frá h. 2. þm. Árn. — Þá er brtill. á þgskj. 707 frá h. þm, V.- Skf. um, að veittar verði 78 þús. kr. til að brúa Jökulsá á Sólheimasandi. Jeg hef áður tekið fram, af hverjum ástæðum nefndin er þessari brtill. mótfallin. Það væri mjög óviðurkvæmilegt að fara nú að auka útgjöldin um 80,000 kr., eins og fjárhagur landssjóðs er. Og ef þessi fjárveiting er tekin inn á fjárlögim þá get jeg ekki betur sjeð, en að örðugt verði að neita um brúna á Eyjafjarðará. Vitaskuld eru þan vatnsföll, sem hjer er um að ræða, ekki sambærileg, en þess er að gæta, að Eyjafjarðará er á einni hinni fjölförnustu þjóðbraut á landinu. Nefndin hlýtur því að vera þessari brtill. mótfallin. – Brtill. á þgskj. 687 frá h. þm. Strand. stendur í nánu sambandi við 15. brtill. nefndarinnar á þgskj. 665. Nefndin vill lýsa því yfir, að hún er fús á að taka brtill. sína aftur, ef hinn h. þm. vill gera sömu skil, og halda svo þeirri fjárhæð, sem er í frv. En ef h. þm. ekki vill taka brtill. sína aftur, þá mun nefndin verða henni mótfallin.

Þá hygg jeg, að jeg þurfi ekki fleiri athugasemdir að gera við þenna kafla fjár laganna.