05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Eggerz:

20. brtill. háttv. nefndar fer fram á að lækka styrkinn til bátsferða á Breiðafirði um 2000 kr. H. frsm. sagði, að nefndin hefði ekki sjeð ástæðu til þess að hækka styrkinn frá því sem nú er. En ástæðan til þess, að farið hefur verið fram á hækkun, er sú, að hingað til hefur reynzt örðugt að fá aðra en kaupmenn til þess að taka að sjer ferðirnar. Þetta eru menn óánægðir með, því að kaupmennirnir hafa mjög hagað ferðum eftir þörfum verzlana sinna. Menn búast við, að geta kipt þessu í betra horf, ef styrkurinn verður hækkaður, og skal. jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, því að öllum má vera kunnugt, hvílík þörf er á bátsferðum um Breiðafjörð, þar sem millilandaskipin ekki fara þangað inn.Þá hefur nefndin lagt til, að styrkurinn til mótorbáts upp í Hvalfjörð falli niður, og skildist mjer, að það væri af þeirri ástæðu, að nefndin vildi ekki skapa gufubátnum „Ingólfi“ keppinaut. Jeg skal því taka það fram, að herra málaflutningsmaður Oddur Gíslason, sem má vera fullkunnugt um þetta mál, lýsti því yfir í gær, að það gæti ekki komið til tals, að þessi mótorbátur yrði að neinu leyti keppinautur „Ingólfs“. „Ingólfur“ er einmitt ófús á að fara þær ferðir, sem þessi bátur á að fara, en hins vegar mundu margar sveitir hafa gagn af þeim, Jeg vil því vona, að háttv. deild samþyki þessa styrkveitingu. — 5. brtill. nefndarinnar gengur í þá átt, að færa styrkinn til heilsuhælisins á Vífilsstöðum niður. Jeg er hræddur um, að nefndin fái óvíða þakklæti fyrir þessa br.till., enda ber hún vott um helzt til mikið skilningsleysi á þörfum og kröfum tímans. Það eru einmitt fátæklingarnir í landinu, sem þurfa einna mest á hælinu að halda, og því er það skylda þingsins, að hafahann sem ríflegastan.

Þá vil jeg minnast á brtill. mína um 18 þús kr. fjárveitingu til brúargerðar á Jökulsá á Sólheimasandi. Jeg hafði satt að segja ekki búizt við að þurfa að verja þá brtill., því að jeg hjelt, að nefndin mundi taka öðruvísi í málið, en hún hefur gert, enda er jeg viss um, að hún hefði lítið öðrum augum á þessa fjárveitingu, hefði henni verið kunnugt um alla málavexti.

Jeg þykist hafa gilda ástæðu til að vona, að deildin muni taka vel í þetta mál, vegna þess að á þinginu 1911 voru samþykt lög um að þessa á skyldi brúa, þegar fje yrði veitt til hennar á fjárlögunum, og því fremur þykist jeg mega vona þetta, þar sem nú eiga ýmsir hinir sömu menn sæti í fjárlaganefndinni, sem tóku þátt í að samþykkja þessi lög árið 1911. Það má að vísu segja, að þótt lögin kveði svo á að þessa á skuli brúa, þegar fje verði veitt til hennar á fjárlögunum, þá þarfi það ekki að þýða sama og að leggja skuli fje til hennar á næsta fjárhagstímabili eftir að lögin koma í gildi, en að sumir hafi þó skilið það á þann veg, það sýna ummæli h. formanns fjárlaganefndarinnar, sem sjá má í þingtíðindunum 1911, og vil jeg leyfa mjer að lesa þau upp með leyfi forseta. „Það er reynsla með þessar brýr, að þegar búið er að sam þykkja lög um þær, þá er það skoðað sem loforð frá landssjóðs hálfu um, að hún skuli koma upp á næsta fjárhags tímabili“. Hjer er ekki með öllu víst, að lögin hljóti að þýða það, að brú þessi skuli bygð fyrst allra stórbrúa á landinu. Ef lögin ekki þýddu þetta, þá væru þau með öllu þýðingarlaus, og engum manni mun detta í hug, að alþingi sje að gefa lög, sem ekkert eigi að þýða.

Þar sem h. frsm. fjárlaganefndarinnar sagði, að ef veitt yrði fje til þessarar brúar, þá yrði líka að taka aðra brú upp á fjárlögin, nefnilega brú á Eyjafjarðará, þá skal jeg ekki dæma um hve mikil þörf sje á þeirri brú, en jeg hygg, að allir sjeu sammála um, að meiri þörf sje á að brúa Jökulsá á Sólheimasandi, og við það bætist sá sjálfsagði skilningur á brúarlögunum, sem jeg benti á áðan. Og þetta vona jeg að allir fallist á, jafnvel þeir, sem eru allra viðkvæmastir fyrir brú á Eyjafjarðará.

Jeg þykist ekki þurfa að eyða mörgum orðum til þess að lýsa þessari á. Hún kemur undan Mýrdalsjökli, eins og mönnum er kunnugt, er afarstraumhörð og ill í botninn, og því ill yfirferðar. Það er áætlað að brúin muni kosta um 78 þús. kr., og jeg þykist vita, að sú áætlun sje full há, því að landsverkfræðingurinn er mjög gætinn í áætlunum sínum, og get jeg hugsað, að hann hafi varla athugað nægilega, hve ódýrt er að flytja efni að brúnni. Það er sem sje hægt að lenda við Jökulsárós, og þaðan er örstutt leið að brúarstæðinu. Jeg ætla ekki að fara að lýsa brúnni; hjer liggur frammi teikning yfir hana, sem jeg býst við að þingmenn hafi athugað. En þá kem jeg að mótbárum þeim, sem færðar hafa verið fram á móti brúnni, og er aðalmótbáran sú, að henni muni hætta búin af vaxtavöxtum og geti skemzt eða jafnvel farið alveg forgörðum, þegar minst vonum varir. Þar til er því að svara, að verkfræðingurinn segir, að brúnni muni ekki hætta búin af þeim vöxtum, sem vanalega koma í ána. Þau hlaup, sem koma í hana eru ekki samskonar og þau, sem koma í Skeiðará, heldur er það smávöxtur í ánni með dálitlum jakaburði. Þessi hlaup stafa af því, að í jöklinum er dálítil skál, og þegar hún fyllist af vatni, koma hlaupin.

Hinsvegar hefur verkfræðingurinn tekið það fram, að hann vilji ekki ábyrgjast, að brúin standi, ef samskonar hlaup kæmi í ána eins og einu sinni, þegar Katla gaus og mundi brúin þó eigi hafa farið í því hlaupi, þótt hún hefði þá verið komin. En sú hætta, sem brúnni stafar af þesskonar hlaupum, er ekki meiri en t. d. sú hætta, sem brúnum á Þjórsá og Ölfusá stafar af jarðskjálftum, því að svo miklir jarðskjálftar gætu komið, að þær hryndu. Eldgos og jarðskjálftar eru náttúruviðburðir, sem aldrei er hægt að sjá við. Jafnvel þetta pólitíska hús, sem vjer nú stöndum í, gæti hrunið, ef jörðin færi að hrista sig.

Ástæður þær, sem mæla með brúnni, eru svo margar, að jeg veit ekki, hvar jeg á að byrja Þegar jeg lít til forsetastólsins, minnist jeg þess, sem h. forseti sagði, meðan hann var á þingbekkjunum, að hvergi sæi hann landið í allri sinni dýrð eins og í Skaftafellssýslum, og jeg get tekið undir þetta með honum, því að hvergi hef jeg sjeð fegurri sveitir en í þeim sýslum. Ferðamannastraumurinn mundi því að líkindum aukast mjög mikið til þessara sveita, ef þröskuldi þessum yrði burtrýmt, en það tel jeg mikilsvirði fyrir oss, að útlendingar sjái landið þar sem það er mikilfenglegt og fegurst, og í þessum hjeruðum hygg jeg margt megi sjá, sem örðugt sje að gleyma. En ef þetta væri eina ástæðan, mundi mjer þó ekki detta í hug að biðja um fje til brúarinnar. Nei, ástæðurnar eru margar og miklar, og er ein þeirra sú, að áin rennur um mitt læknishjerað, svo að oft er ekki hægt að ná í lækni í marga daga samfleytt. Þegar jeg var á leið til þings, kom jeg að bæ, þar sem kona lá í barnsnauð. Sent var eftir lækni. Það náðist í hann, en 1/2 tíma eftir að hann var kominn yfir ána, varð áin ófær í 2 daga. Hefði verið farið dálítið seinna eftir lækninum, þá hefði ekki náðst í hann, og konan hefði þá dáið.

Jeg er viss um, að h. 6. kgk., sem hugsar svo mikið um öll læknamál landsins, hlýtur að sjá, hve mikill óhappagestur þessi á er í miðju læknishjeraði, því að hún veldur dauða miklu fleiri manna en sem í henni drukna. Þá má og geta þess, að 2 hreppar í Rangárvallasýslu sækja verzlun sína til Víkur, og þótt eigi sje tekið tillit til hættunnar. sem af þeim ferðum stafar, þá sjest, hve gott það er að fá vörur sínar blautar og skemdar, þegar heim er komið. Það hefur verið sagt, að Skaftfellingar fari ekki mikið yfir ána, en þetta er rangt, því að ferðir til Reykjavíkur eru mjög að aukast. Á haustin eru jafnan reknir miklir fjárrekstrar suður til Reykjavíkur. Síðasta haust biðu menn í marga daga við ána með stóra fjárrekstra. Má geta nærri, hvílíkt ógnartjón hefur stafað af þessu, ekki aðeins kostnaður við dvöl margra manna og kostnaður við að kaupa haga handa fjenu, heldur aðallega sá mikli kostnaður, sem stafar af rýrnun fjárins. Þá sækja og Mýrdælingar fiskiróðra yfir ána, og ber oft svo við, að þeir komast ekki yfir hana þótt gott sje veður, og verða svo af róðrum og góðum afla. Ef brúin væri gerð, mundu samgöngur í þessu hjeraði batna mjög mikið; þá mundi og koma akvegur, svo menn gætu komið afurðum sínum hingað til Reykjavikur; og mundi þá smjörbúum og hverskonar framförum í búnaði verða markað stærra svið. Í þessum sveitum, er eins og menn vita, hafnleysi mikið, og það er hart. þar sem svo miklir örðugleikar eru á því, að fá bættar samgöngur á sjó, að þessi mikla, þessi stórþýðingarmikla samgöngubót skuli ekki fást alveg orðalaust.

Það munu nú ef til vill einhverjir segja, að þeir, sem búa austan árinnar, sjeu ekki þess verðir, að svo mikið fje, eins og hjer er um að ræða, sje lagt þeim.

Þeir standi svo aftarlega í öllum framförum, að ekki tjái að skamta þeim svo ríflega úr landssjóði. En hvað segja þeir, sem um hjeraðið fara? Háttv. sessunautur minn, sem ferðast hefur þar austur, sem landbúnaðarráðunautur, segir að framfarir sjeu þar mjög miklar í búnaði og hvergi meiri áhugi á þeim málum en þar. Háttv. landlæknir segir, að alt sje þar í framför, og fræðslumálastjórinn dáist að áhuga manna þar á fræðslumálum, og það er undarlegt, ef alþingi daufheyrist lengi við rjettmætum kröfum manna, sem þar búa, sem standa í ótal efnum framar flestum sveitum landsins, þrátt fyrir örðugleika þá, sem standa í kringum þá á alla vegu.

Jeg þykist nú hafa talið svo margar og mikilvægar ástæður fyrir brúargerð þessari, að nægar mættu þykja til þess, að Iöggjafarvaldið dragi ekki lengur að framkvæma loforð sín í þessu efni, og þó er ótalin stærsta ástæðan. Sú ástæða, að þetta vatn er mesta manndrápsvatn á öllu Íslandi, og er talið, að í því hafi druknað 40 manns. Þarf nú fleiri lík til þess að rökstyðja þetta mál.

Skilja menn ekki enn, hvílík nauðsyn er á því að brúa þetta vatnsfall ? Skilja menn ekki þann beig, sem öllum stendur af vætti þessum ? Skilja menn ekki hræðsluna á bæjunum, þegar mennirnir leggja út í ófæru þessa. Oft hef jeg sjeð bregða fölum blæ yfir margt ódeigt konuandlit, þegar mennirnir hafa haldið út í ána til þess að fylgja mjer eða öðrum. Og þó menn skilji ekki alt þetta, skilja menn þá ekki, að hvert mannslif er mikils virði. Háttv. landlæknir segir, að það sje 20 þús, kr. virði: Er það þá hagspeki að spara 78 þús., þegar svo margar 20 þúsundir eru í veði? Hvað lengi ætla löggjafarnir að daufheyrast við rjettmætum kröfum manna, þeirra er eiga að búa við óvætt þennan, hvað lengi á þessi gröf að standa opin?

Jeg fullvissa yður um það, að hver sem greiðir atkvæði gegn brúargerð þessari, hann getur fyr en varir átt mannslif á samvizkunni. Og enginn veit hver fer næstur í ána.