05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Jónatansson:

Jeg á dálitla brtill. á þgskj. 712, en þarf ekki að eyða mörgum orðum um hana, sökum þess, hve fjárlaganefndin hefur tekið henni vel, og er jeg henni þakklátur fyrir. Hún er ekki stórvægileg, og það sem í henni felst, er það, að í aths. 5 í fjárlögunum við 13. gr. B. I. 2, orðist á þann hátt, sem segir í till., en hún er samkvæm því, sem fram kom á Búnaðarþinginu. Þar var farið fram á, að vatnsveitufróður maður væri fenginn, þó að ekki væri búizt við, að það væri unt í bili; því að það kostar mikið fje að fá slíkan mann, og var þá ætlazt til, að verkfræðingur landsins eða aðstoðarmaður hans hefði þetta starf á hendi. Það vakti fyrir Búnaðarþinginu, að mikil nauðsyn væri á, að maður með sjerþekkingu hefði starf þetta á hendi. í framtíðinni verður vonandi meira um áveitur en hingað til, og til þess að þær sjeu vel af hendi leystar, er ómögulegt að komast hjá, að hafa sem bezt hæfan mann, til þess að þessu mikla framtíðarmáli sje sem bezt borgið. Nú sem stendur er enginn, sem hefur lagt fyrir sig þetta starf. Það er bæði dýrt og langt nám, og slikir menn þurfa bæði að sjá mikið og fá sem mestaverklega reynslu. Vona jeg að háttv. deild taki þessa brtill. til greina. Aðrar brtill. hef jeg ekki, en það eru tvær brtill. sem jeg vildi minnast á. Það er brtill. á þgskj. 706 um hækkun á styrk til bátaferða milli Vestmannaeyja. Víkur, Stokkseyrar og Eyrarbakka. Samgöngumálanefndin lagði til, að veittar væru 6000 kr. til þessa, en Nd. lækkaði það niður í 4800 kr., og er nú farið fram á, að þetta sje hækkað aftur í hina fyrnefndu upphæð. Ástæðurnar fyrir lækkuninni taldi frmsm. þær, að engar áætlanir væri til um, hvað ferðir þessar kostuðu, og væri því eigi ástæða til að hækka þennan lið að sinni. Nú eru þessi hjeruð þar eystra olnbogabörn að því er samgöngur snertir, og eiga þessar bátaferðir einmitt að vera til að bæta upp strandferðirnar, með því að taka upp vöruflutninga milli lands og Eyja, þar eð strandferðaskipin geta oft eigi afgreitt sig, þótt þau komi.

Á þingi í fyrra kom fram uppástunga um sjerstakan bát. Hvora leiðina er heppilegast að fara, er erfitt að segja, en vel má segja, að sú fjárveiting, sem hjer er farið fram á, sje í því skyni að gera tilraun í þessa átt. Og það er vitanlegt, að ferðir milli þeirra hafna, sem hjer ræðir um, eru þeim erfiðleikum bundnar, að enginn mundi fást til að gera tilraunina fyrir minna fje en þetta. Þar að auki er enn ósjeð, hvernig fer með strandferðir á þessum höfnum næsta ár, og ætli það útaf fyrir sig að vera nægileg ástæða fyrir þessari fjárveitingu. Eins og jeg gat um áðan, eru þessi hjeruð olnbogabörn, að því er samgöngur snertir, samanborið við ýmsa aðra staði á landinu og er fróðlegt að líta á nefndarálit samgöngumálanefndarinnar í sambandi við þetta. Þar kemur í Ijós, að Eyrarbakka og Stokkseyri, sem höfðu yfir 2000 smálesta vörumagn, voru ætlaðar aðeins 3 ferðir á síðustu strandferðaáætlun, en ýmsum öðrum stöðum, sem aðeins höfðu um 500 smálestir, ætlaðar 26 viðkomur.

Til þess að gera þessa umræddu tilraun er víst eigi unt að komast af með minna fje, og ekki hægt að fara fram á minna, og vona jeg, að háttv. d. fallist á till. samgöngumálanefndarinnar, þótt ekki liggi fyrir ákveðin áætlun.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á brtill. á þgskj. 707. Það er brtill., sem nemur allmikilli fjárhæð, og er því eðlilegt, að skiftar verði skoðanir um hana, einkum þar sem svo horfir, að tekjuhalli allmikill verði á fjárlögunum. Það hefur verið talað um hina brýnu nauðsyn á að brúa þessa á, Jökulsá, og þar allir á einu máli, að hún sje bæði mikil og brýn. Jeg hef átt kost á að sjá, hvílíkur óhappaþröskuldur hún er, ekki einungis hve hættuleg hún er lífi ferðamanna, heldur líka hver tímaþjófur hún er. Jeg get ekki gert mikið úr þeirri hættu, að áin geti brotið brúna, og met því að engu þær mótbárur gegn þessu fyrirtæki, sem þar á eru bygðar. Því síðan sögur fara af, hefur einungis komið eitt hlaup svo mikið í ána, að skemt hefði getað brúna, og geta slíkir viðburðir allsstaðar fyrirkomið. Eina alvarlegasta ástæðan, sem færð er gegn þessari brú, er tekjuhallinn. En það getur oft farið svo, að setja verði nauðsynjafyrirtæki á hakann á síðustu stundu vegna tekjuhalla, og það sje hending ein, sem ræður, að þau komast ekki inn fyr en hann er orðinn svo mikill, sem nú er útlit á; en svo kann aftur á móti ýmislegt að komast inn á fjárlögin, sem minna er nauðsynlegt, og einmitt af því jeg býst við, að svo kynni aftur að fara sem nú var um þetta, mun jeg greiða atkvæði með þessari fjárveitingu þrátt fyrir tekjuhallann. Játa að vísu, að jeg hefði jafnframt viljað geta lagt til einhverjar lækkanir í staðinn, en sje engin tök á því eins og nú er áliðið fjárlögunum.

Jeg sje enga ástæðu til að tala um aðrar brtill., hvorki einstakra manna eða fjárlaganefndarinnar, en mun greiða um þær atkvæði eftir því, sem mjer sýnist, sannsýni mæla með. Þó vil jeg minnast á heilsuhælið. Álit jeg, að eigi sje mögulegt að hækka dvalarpeninga sjúklinga þar og hygg, að vonir almennings stefni heldur í þá átt, að þeir verði lækkaðir. Þessi litla fjárhæð til hælisins, sem nefndin vill draga af því, munar landið lítið, en miklu meira fyrir hælið, og mun jeg greiða atkvæði móti þeirri brtill, háttv. fjárlaganefndar, að lækkað verði tillagið til hælisins.

Þá get jeg ekki fallizt á þá tillögu háttv. fjárl.n. að brúin á Bleikdalsá sje feld burtu. Á þessi er ill yfirferðar á vetrum, og því talsverð nauðsyn á, að hún verði brúuð, og þar að auki er oft búið að biðja um þessa brú á undanfarandi þingum. Mjer er kunnugt um, hvílík nauðsyn er á brú þessari, og veit þess mörg dæmi. að menn hafa orðið að snúa frá ánni í læknisvitjun og er þó slíkt eigi gert fyr en í fulla hnefana, er svo stendur á.