05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Eiríkur Briem:

Það er eitt atriði í tillögum háttv. fjárlaganefndar, sem jeg vildi minnast á, það er 22. brtill. á þgskj. á65 viðvíkjandi mótorbátsferðum á Hvalfirði. Hjer er að eins að ræða um 400 kr., svo að þetta er ekki stór upphæð, og mjer skilst, að engin önnur mótbára muni hafa komið fram á móti þessum styrk, en sú, að þetta kæmi í bága við hagsmuni Ingólfs, bátsins, sem gengur hjer um Faxaflóa. En þetta er misskilningur, því að þessi bátur, sem hjer er um að ræða, fer á alt aðrar stöðvar en Ingólfur. Þessi bátur á eingöngu að ganga til Hvalfjarðar, en þangað fer Ingólfur sjaldan, nema þá helzt til skemtiferða. En þetta mundi helzt hafa þýðingu fyrir Kjósina og Leirársveit, en þær sveitir munu hafa nær engin not af Ingólfi.

Jeg vil taka það fram, að þjóðvegir í kring um Hvalfjörð eru mjög illir yfirferðar, og fara menn því eigi landveg suður til aðdrátta, heldur flytja það, sem þeir sækja suður nær því alt sjóveg. Þegar þessu er nú svo háttað, að þessir vegir eru svo illir yfirferðar, og þar við bætist, að ilt er að bæta þá, þá sýnist ástæða til þess að ljetta undir með þessum mónnum og gera þeim hægra að ná í vörur sínar sjóveg, því að viðgerð á þjóðvegunum verður miklu kostnaðarsamari, en þótt þessi litli styrkur, sem hjer er farið fram á, sje veittur.