05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Björn Þorláksson:

Menn vita, að jeg hef skrifað undir álit nefndarinnar með fyrirvara nm nokkra liði, sem fara fram á útgjaldahækkun. Í því felst, að jeg get ekki bundið mig algerlega við tillögur nefndarinnar, þótt jeg að vísu muni fylgja henni að málum í flestum greinum, og jeg hefði kosið, að fleiri útgjaldaliðir hefðu verið feldir burtu en rann hefur á orðið, og að færri nýir liðir hefðu verið teknir upp, og skal jeg nú gera grein fyrir ástæðunum fyrir þessari skoðun minni með nokkrum orðum.

Það er þá fyrst, að þegar um það er að ræða, að veita fje úr landssjóði, virðist mjer sjálfsagt að gæta að því, hvort nokkurt fje er fyrir hendi, sem hægt sje að veita. Það hefur nú sýnt sig, að tekjuhallinn á fjárlögunum verður að líkindum um 309 þús. kr., þegar fjárlögin fara frá þinginu, og virðist mjer svo mikill tekjuhalli vera mjög ísjárverður, því þótt svo hafi reynzt oft fyr, að tekjurnar hafi farið talsvert fram úr áætlun, þá er ekki hægt að treysta því, að svo verði ávalt. Og í þetta skifti hefur nú Nd. áætlað tekjurnar 128 þús. kr. hærri, en stjórnin hefur gert, og eru því fremur litlar líkur til, að þær muni fara mikið fram úr áætlun. Mjer finst þessi aðferð, að veita fje úr landssjóði, þótt maður viti ekki, hvort nokkurt fje verði þar til, bæði óhyggileg og varla samboðin fulltrúum þjóðarinnar. Mjer virðist það líkt því, að ef maður, sem oft hefur strandað á sama skerinu nærri landi, og ávalt hefði skolað á land, gerði það að gamni sínu að sigla .enn einusinni á skerið, en þá gæti vel farið svo, að hann druknaði, enda þótt honum hefði ávalt fleytt á land áður. Og eins getur farið hjer. Það getur vel farið svo, að tekjurnar verði tæplega það, sem þær hafa verið áætlaðar. En jeg lít á fleira en tekjuhallann á fjárlögunum. Hjer á þingi er nú á ferðinni frumvarp, sem að líkindum verður að lögum og sem fer fram á að kaupa hluti fyrir 400 þús. kr. í Eimskipafjelagi Íslands. Annað frumv. er einnig á ferðinni, sem meiri hluti nefndarinnar í því máli leggur til að verði samþykt, og sem fer fram á, að veita 200 þús. kr. á fjárhagstímabilinu til landsbankans. Þá eru komnar 600 þús. kr. Enn er frumvarp til hafnarlaga fyrir Vestmannaeyjar, sem líka getur orðið að lögum, og fer það fram á um 70 þús. kr. tillag úr landssjóði. Enn eru ýms frv. önnur en þessi, sem hafa aukin útgjöld fyrir landssjóðinn í för með sjer, ef þau ná fram að ganga, og eru líkur til, að þetta alt muni nema um 3/4 miljón kr. Jeg lít því svo á, að ný lántaka verði óumflýjanleg, og þótt, gott sje að geta fengið lán, ef það fæst með góðum kjörum, þá þarf þó einhverntíma að borga það aftur. Jeg vil því, að við förum skamt í fjárveitingum í þetta skifti, og ef jeg hefði verið utan við nefndina, mundi jeg hafa greitt atkvæði á móti miklu fleiri útgjaldahækkunum og farið fram á að færa niður miklu fleiri liði, en af því að jeg á sæti í nefndinni, mun jeg fylgja henni í flestu, en mun þó greiða atkvæði á móti henni um nokkur atriði. Jeg býst nú við, að það muni ef til vill verða sagt, að þetta komi til af því, að jeg sje svo íhaldssamur að náttúrufari. En ástæðan er alls ekki sú, því ef nóg fje væri til, skyldi jeg vera manna fúsastur til þess, að veita fje til allra framkvæmda. Jeg mundi þá vilja leggja til, að gerð væri brú 3 Jökulsá, enda þótt jeg vissi, að hún mundi fara daginn eftir. Þó skyldi jeg leggja til, að Eyjafjarðará væri brúuð og akvegir lagðir um alt Iandið, járnbraut lögð austur og jafnvel norður um land og yfirleitt veitt fje til allra nauðsynjamála. En þegar fjeð er ekki til, þá verður maður að sníða sjer stakk eftir vexti, og af þeim ástæðum verður að fresta mörgum framkvæmdum, sem annars væru sjálfsagðar.

Af því að jeg stóð upp, ætla jeg að minnast með örfáum orðum á Vífilsstaðahælið. Jeg skal játa, að það var jeg, sem átti frumkvæðið að því að færa styrkinn til þess niður, og það, sem vakti fyrir mjer með því, var það, að jeg vildi gefa stjórn hælisins hvöt og aðhald til þess að reyna að safna meiru fje með frjálsum samskotum, en gert hefur verið hingað til, og þótt jeg skuli játa það, að stjórnin hefur sýnt mikinn dugnað, þá efast jeg ekki um, að hún hefði getað sýnt meiri dugnað í þessum efnum. Það er vikið að því í nefndarálitinu, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að prestar landsins verði látnir hafa minningarskildi hælisins til sölu. Jeg hef sjálfur dálitla reynslu fyrir mjer í þessu efni. Mjer var fyrir nokkru síðan sendur einn minningarskjöldur til þess að hafa til sýnis og 5 eyðublöð. Þetta auglýsti jeg, en menn leituðu lítið til mín, og það safnaðist lítið fje, og jafnvel ekkert. Þegar jeg var hjer í fyrra, óskaði jeg eftir að fá að hafa talsvert af minningarskjöldum með mjer austur, vegna þess, að jeg vissi, að það sem gerði, hve lítið menn sintu þessu, var, að menn vildu ekki bíða eftir því, að skildirnir væru sendir þeim að sunnan. Þetta hafði þær afleiðingar, að á einu ári safnaðist á 6. hundrað krónur, sem jeg gat sent suður til heilsuhælisins. Það er erfitt að uppræta þann ósið hjá mönnum, að vera að kaupa kransa, og það er ekki til neins, þótt prestar hafi einn minningarskjöld til sýnis, þeir verða að hafa þá til sölu.

Annað atriði er það, hvort ekki mætti hafa dýrari vistina á hælinu fyrir þá, sem efnaðri eru, enda þótt gjaldið væri ekki hækkað fyrir fátæklinga. Jeg heyri svo sagt, að heilsuhælið hjer sje fult eins vel úr garði gert, eins og heilsuhæli gerast ytra. Þar kostar vistin 5–7 krónur á dag, en hjer kostar hún ekki nema kr. 2–50 daglega á einmenningsstofum. Mjer finst, að vel megi heimta eins hátt gjald af efnaðri mönnum hjer, eins og gerist á heilsuhælum ytra, og mundi það muna allmiklu fyrir heilsuhælið. Mig minnir, að þegar verið var að stofna heilsuhælið, væri það viðkvæðið, að það ætti ekki að þurfa að vera komið upp á landssjóð, en nú er þetta orðið svo breytt, að mikið af útgjöldum þess lendir nú á landssjóði. Jeg hygg, að þingið eigi að vinna á móti þessu, og beri því eigi að veita eins mikið fje til hælisins eins og á vantar, til þess að tekjur þess hrökkvi fyrir útgjöldunum, til þess að stjórn hælisins hafi sem mest aðhald við að safna fje með frjálsum samskotum. Af þessum ástæðum hef jeg lagt það til, að tillag landssjóðs til hælisins verði fært niður, eins og farið er fram á í nefndarálitinu.