05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Stefánsson:

Jeg hef að þessu sinni verið dálítið óheppinn í fárlaganefnd. Það er ekki af því, að þeir, er skipuðu nefndina með mjer, væru ekki góðir og samvinnuþýðir menn, heldur af því, að jeg bar ekki gæfu til samþykk is við þá um 84. lið á atkvæðaskrá, brim brjótinn í Bolungarvík. Það er eina von in, að hann var samþyktur með 19 samhlj. atkv. í Nd. Þó að þessum styrk verði breytt hjer, eru litlar líkur til, að sú breyting standi lengi.

Um 30 ár hef jeg nú verið búsettur þar ekki langt frá og lengst af haft útgerð í Bolungarvík. Dagleg dæmi hafa fært mjer heim sanninn um nauðsyn á lendingarumbótum þar. Frá því á land námstíð hefur Bolungarvik verið ein aða veiðistöð landsins. Jeg vona, að menn muni frásögnina í Landnámu af göfugri konu frá Hálogalandi, er nam land í Bolungarvík, Þuríði Sundafylli. Í hallæri á Hálogalandi seiddi hún hvert sund fult af fiski í harðæri. Hún setti Kvíarmið í Ísafjarðardjúpi og skyldi hver bóndi á Ísafirði gjalda fyrir á grákollótta; er það upphaf vertollanna í Bolungarvik. Síðan hefur Bolungarvik verið fiskisælasta veiðistöð landsins. En hún hefur ekki verið það vegna lendingar góðrar. Öðru nær. Þótt hún sje hin versta, sem jeg mun bráðum sýna, er meira framleitt þar af fiski en nokkursstaðar annarsstaðar af jafnmörgum mönnum, enda er hún miðstöð alls bátaútvegsins í Þorskafjarðarþingi. Þangað sækja menn til fiskifanga úr Barðastrandar-Dala-, Stranda-, og Snæfellsnesssýslum. Þangað koma menn, ekki einungis úr öllum fjórðungum landsins, heldur úr öllum sýslum landsins. Á vetrar- og vorvertíðinni ganga þar að meðaltali 75–80 skip; 5 menn eru til uppjafnaðar á hverju skipi. Þar stunda því 375–400 manns sjó hvern dag, er á sjó gefur. En auk þess koma þangað margir, er atvinnu hafa af fiskverkun og öðrum störfum, sem standa í sambandi við fiskiveiðarnar, svo að þaðan fara á hverju ári mörg hundruð manns, jeg vil ekki segja með fullar hendur fjár, en með fje, sem er þeim ærið til góðs stuðnings fyrir heimili þeirra.

Mjer er nú spurn: Hvar á Íslandi getur slíka veiðistöð? Jeg skal geta þess, að svo hefur tjáð mjer glöggur maður, sem verið hefur formaður og útvegsbóndi í Bolungarvik, og nú er þar kaupmaður, að telja mætti meðal-aflaupphæð í Bolungarvík með meðal-fiskverði í peningum nærri 6500 kr. virði. Það er auðvitað öll upphæðin, en kostnaður ekki dreginn frá. 80 skip afla þar þá að meðaltali fisk, sem nemur 1/2 milj. kr. Í beztu árum má fullyrða, að aflinn sje þar heila miljón kr. virði: Jeg efast um, að í nokkurri veiðistöð á landinu sje svo mikið aflað af ekki fleiri mönnum, að undantekinni hinni nýju botnvörpuútgerð. En eins örðugt og það er, að benda á nokkra veiðistöð landsins, þar sem eins mikið er aflað, eins erfitt er að benda á stöð. þar sem sjór er sóttur með jafn súrum sveita og jafn miklum sí yfirvofandi lífsháska og atvinnu- og eignatjóni eins og í Bolungarvík, og stafar það eingöngu af lendingarleysinu. Lendingin liggur nær því fyrir opnu Norðurishafinu. Fjaran er sem stórgrýtisurð, með sjóbörðu, brimsorfnu stórgrýti. Og svo afskaplegt er brimið og öldugangurinn, að það veltir fram, eins og ægisandur væri, heljarbjörgum. Eftir hvert slíkt brim, þá er hverju skipi ófæra að komast á flot eða lenda, nema með mikilli hættu fyrir eignir og líf manna, en Bolvíkingar hafa frá öndverðu gert alt, er í þeirra valdi stendur, til að bæta lendinguna, en bæturnar hafa verið næsta ófullkomnar, og sifelt strit og stríð við þetta heljarafl náttúrunnar.

Eftir hvert stórbrim ganga allir sjómennirnir að því afar erfiða verki, að ryðja varir í gegnum stórgrýtið; er þá stórgrýtinu varpað í háa hryggi milli varanna; eru varir þessar til mikilla bóta, en ekkert má þó út af bera í lendingunni, til þess að skipin svifi í briminu upp á vararveggina og þá eru þau óðar en varir brotin í spón og stór hætta á lífi skipshafnanna. En hvað kostar nú þessi lendingarbót, er menn frá alda öðli hafa glimt við að gera, kynslóð eftir kynslóð, þessi eina litla, ljelega lendingarbót, er kostur hefur verið á að gera? Það er óhætt að segja, að eftir hvert stórbrim fara 300 dagsverk í að ryðja þessar varir, og jafnan ganga til þess beztu sjóveðursdagarnir næst eftir hvern sjógarð, og auk þess eru þessir dagar hinir aflavænlegustu, því eftir hvern sjógarð er aflavon talin mest við Ísafjarðardjúp. En hjer er meira blóð í kúnni. Þótt að aumingja sjómennirnir leggist þreyttir til hvíldar eftir þetta strit frá dögun til dagseturs, og glaðir að því leyti, að þeir vonast eftir að geta farið á sjóinn næsta dag, þá vakna þeir oft næsta morgun við þann vonda draum, að komið er stórbrim, sem á lítilli stundu hefur farið svo með lendinguna, að ekki sjer örmöl eftir af vararuðningunni, og svona getur það gengið dag frá degi og enda mánuð eftir mánuð. Þessi greindi maður, sem jeg vitnaði til áðan, kvaðst ekki geta gert ábyggilega áætlun um þann kostnað og það aflatjón, er af þessu stafi, en sjálfsagt megi telja, að 3000 dagsverk gangi í þessar vararuðningar yfir vetrar- og vorvertíðina og aflatjónið skifti oft tugum þúsunda króna. Og þá má heldur ekki gleyma eignatjóninu, því að fleiri og færri bátar brotna oft í brimganginum, og það tjón, sem þannig hlýzt má reikna í þúsundum króna í vetrar- og vorvertiðinni, og síðan vjelabátarnir voru teknir, verður þetta tjón en átakanlegra, þar sem þeir eru svo miklu dýrari en segæringar voru áður.

En þessi breyting á bátaútvegnum í Bolungarvík getur ekki orðið nema hálfverk og kák, meðan svo búið stendur. Bátarnir mega ekki vera stærri en svo, að menn geti sett þá upp og ofan og þessvegna geta mann ekki sótt sjóinn svo vel, sem skyldi. Mest munu tíðkast þar bátar með vjelum, sem hafa 4–6 hesta kraft; aðrir bátar eru of stórir, meðan engin bót fæst á lendingunni. Jeg gat þess áðan, að slysin væru tíðust við ofansetning bátanna. Í síðustu 5 ár hefur farið mannslíf næstum því á hverju ári; jeg má segja, að það eru 4 menn, sem bana hafa beðið á þeim tíma. Sumir af þessum mönnum dóu þegar í stað, aðrir lifðu nokkurn tíma við hinar mestu þjáningar og harmkvæli. Og svo eru ótaldir allir þeir, sem á sama tíma hafa orðið fyrir stórmeiðslum og limlestingum. Hvað lítið, sem út af ber, þegar verið er að setja bátana, þá er líf og limir í veði. Ef báturinn t. d. fer á hliðina í stórgrýtinu, þá þarf mikið snarræði og vaskleik til þess að verða ekki undir honum. Skip tapar í lendingu hafa ekki orðið stórkostlegir í Bolungarvík síðan 1905. En það ár fórust 2 bátar með allri áhöfn í lendingu, og þau 30 ár, sem jeg hef dvalið þar vestra, hafa margir tugir manna farið þar í sjóinn. Það var sagt hjer í dag, að hvert mannslíf mundi vera um 20 þús. kr. virði, ef það væri metið til peninga. Samkvæmt því hefur þá um 80 þús. kr. verið kastað í fjörugrjótið í Bolungarvík á síðustu 5 árum (Sig. Egg.: Í Jökulsá á Sólheimasandi hafa farið 800 þús. kr!). Jeg ætla mjer ekki að fara að gera áætlun um, hvað margir menn hafa farizt í þessari veiðistöð frá því í land námstíð, en jeg hygg, að þeir skifti þúsundum. Verri torfæra, en lendingin í Boluugarvík, er ekki til á öllu Íslandi. Þótt alt gangi vel á sjónum, geta sjómennirnir í Bolungarvík átt von á bæði lífs- og eignatjóni, er að landi kemur. Það mun ekki vera neitt það manndrápsvatn á Íslandi, sem hefur verið eins mannskætt eins og þessi lending, og það fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að yfir ekkert vatnsfall fara 3–400 manns einusinni og tvisvar á dag um mestan tíma ársins, en svo er umferðin yfir þessa torfæru. Þessi torfæra er að vísu ekki á flutningabraut eða þjóðvegi, en samt sem áður má kalla, að hún sje á þjóðleið, meira að segja á einni hinni fjölförnustu þjóðleið landsins. Jeg hugsa, að það verði ekki hrakið, að landssjóður hafi oft hlaupið undir bagga, þar sem síður skyldi. Landssjóður hefur látið gera bryggjur, en ekki ein einasta hefur bætt úr eins brýnni þörf, og hjer er fyrir hendi. Landssjóður hefur látið brúa vatnsföll, sem ekki meira en einn maður fer yfir móts við hverja hundrað, sem þurfa að sækja yfir torfæruna í Bolungarvík! — Jeg þykist ekki hafa verið sóunsamur á fje landssjóðs; mjer hefur altaf verið óljúft, að kasta út landsfje til óþarfa eða óvissra fyrirtækja. En hitt tjáir ekki heldur að stara sig blindan á einhver princip, sem maður hefur sett sjer. Það getur stundum verið heilög skylda að fara lengra en ströngustu meginreglur leyfa. Jeg hef hingað til aðallega talað um þann háska fyrir líf manna og limu, sem stafar af þessari torfæru. En ekki er atvinnutjónið, sem hún bakar mönnum, síður átakanlegt, eins og jeg hef bent á, en svo er eitt enn: Þótt menn fari á sjó í ládeyðu að morgni, þá er oft ekki lendandi að kvöldi, og er þá ekki annað fyrir hendi, en að hleypa frá lendingunni. Afleiðingin verður svo sú. að þótt bezta veður sje daginn eftir, þá geta sjómenn ekki notað það, vegna þess að þeir hafa ekki getað beitt lóðir sínar, af því að þeir komust ekki heim til sín daginn áður. Það mundi verða alltorvelt að meta það tjón til fjár, sem sjómenn í Bolungarvík hafa orðið fyrir á þennan hátt.

Jeg vil nú með fáeinum orðum víkja að sögu málsins. Bolvíkingar hafa lengi fundið til þess, að svo búið mætti ekki standa, en þó fólk sje þar duglegt og ósjerhlífið til sjósóknar, þá hefur mannrænan og framtakssemin til almennra fyrirtækja verið minni en skyldi. Sigurður Thoroddsen verkfræðingur var fenginu fyrir nokkrum árum til þess að skoða lendinguna. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að kostnaðurinn við að gera höfn þar, mundi verða um 250 þús. kr. Þá fjell Bolvíkingum allur ketill í eld og þorðu þeir ekki einu sinni að snúa sjer til þingsins með neina málaleitun í þá átt, að fá fje til þess fyrirtækis. Seinna hefur Þorvaldur Krabbe tvisvar sinnum athugað lendinguna. í fyrra skiftið kom hann fram með uppástungu, sem sjómönnum leizt ekki á. En í seinna skiftið komst hann að annari niðurstöðu, sem mönnum hefur getizt betur að. Hann lýsir í brjefi til stjórnarráðsins, dags. 7. jan. 1911, skoðun sinni á því, hvað gera þurfi, á þessa leið:

„Áður hefur komið til tals að gera reglulega höfn þar, og væri það auðvitað hið æskilegasta, en því miður verður slík höfn svo kostnaðarsöm, að engin ráð eru til þess að koma henni í framkvæmd sem stendur, Hitt er það, hvort ekki er hægt að útbúa lendinguna þannig, að varirnar eyðileggist ekki í brimi, og það er aðallega það, sem jeg hef athugað.“ Leiðin mun að minni hyggju vera sú, að reyna að hefta það, að brimið nái lendingunni, og er sú tilætlun með garði þessum, eða brimbrjót, sem þegar var byrjað á 1911 í samráði við verkfræðing Krabbe. 30 metrar eru nú bygðir af þessum brimbrjót, og þótt hann nái ekki algerlega fram að stórstraumsfjörumáli gerir hann mikið gagn.— Krabbe hefur ekki gert ákveðna áætlun um, hvað bygging brimbrjótsins mundi kosta, ef hún einhverntíma yrði fullgerð, en aðeins látið það álit í ljósi, að hún mundi að líkindum komast upp í 80 þús. kr. En hann bætir því við, að hver viðbót við garðinn sje mikilsverð, og komi að miklu haldi. Í brjefi til alþm. Skúla Thoroddsens, dags. 16. júlí s. á. farast honum svo orð: „Viðvíkjandi hinni fyrirhuguðu hafnargerð í Bolungarvík, skal þess getið, að eftir mínu áliti er það með þeim beztu fyrirtækjum, sem unnið er að hjer á landi sem stendur, og vildi jeg mæla með að það fái sem mestan styrk úr landssjóði“. Hjer má því ekki við svo búið standa. Ef fult gagn á að verða að fyrirtækinu, verður að framlengja garðinn. Um sama leyti, sem byrjað var á garðinum, lögðu sjómenn í Bolungarvik einnar krónu skatt á hvern hlut, til þess að styrkja fyrirtækið, og nam sá skattur um 1000 kr. yfir vertíðina, og er lögfull samþykt Um það ger. Í fyrra var þetta tillag hækkað upp í 2 kr. á hlut, svo að nú leggja þeir til 2000 kr. á hverju ári. Fyrir þessa peninga og dálítinn styrk úr landssjóði, hafa þeir gert þennan 30 metra garð, sem þegar er hlaðinn.

Ágreiningsefnið milli mín og hv. meðnefndarmanna minna í þessu máli er það, að jeg vil láta fjárveitingu hv. Nd. til þessa fyrirtækis standa óbreytta, og þykist þar ekki mælast til mikils, heldur helzt til lítils, en þeir vilja færa hana niður um 9500 hvort árið og binda hana því skilyrði, að tveir þriðju hlutar kostnaðarins verði lagðir fram annarsstaðar að. Þetta skilyrði er auðvitað sett til þess að brjóta ekki bág við mikilsverða meginreglu, en jeg þykist nokkuð hafa sýnt fram á, hvílík nauðsyn er hjer fyrir hendi, og nauðsyn brýtur oft bæði Iög og reglur. Þótt fjárveitingin fái að standa, eins og Nd. hefur gengið frá henni, þá verður alt af tími til þess að breyta skilyrðum seinna meir, ef mönnum svo sýnist. Mjer finst, að menn verði að taka nokkurt tillit til þess, að sjómenn í Bolungarvík hafa sýnt óvenjulegan áhuga á þessu máli. Jeg man ekki til, að nein viðlíka framlög hafi átt sjer stað til brúagerða þeirra, sem landssjóður hefur lagt fje til. Og þó þessar brýr hafi verið nauðsynlegar, þá mun það þó einmælt af öllum, sem til þekkja, að enn þá ríkari nauðsyn kalli hjer að. Jeg hygg því, að Ed. geti í þetta skifti forsvarað þessa litlu frávikningu frá þessari meginreglu.

Jeg skal játa, að það getur vel verið, að ódugnaði mínum sje um að kenna, að jeg hef ekki getað sannfært h. meðnefndar menn mína í þessu máli. En tíminn, sem nefndin hafði til starfa, var mjög af skornum skamti, og því vildi jeg, sem formaður hennar, ekki tefja fyrir henni með miklum málalengingum um þetta fyrirtæki. Og þar að auki var jeg ekki heill heilsu þá dagana, En nú vona jeg, að jeg hafi lýst öllum málavöxtum svo greinilega, að h. deild hiki ekki við að greiða atkvæði með fjárveitingunni eins og hún kom frá Nd. — Ef til vill kunna sumir að halda, að jeg hafi notað alt of svarta liti, að jeg hafi hjer verið að mála fjandann á veginn. En jeg vil þá taka það fram, að Bolungarvík er ekki í mínu kjördæmi. Mjer er það áhugamál, að þessu fyrirtæki verði hrundið nokkuð áleiðis, eingöngu vegna þess, að jeg hef árum saman orðið að horfa á alt það tjón og allar þær hörmungar, sem þessi lending hefur valdið. Og það vill svo vel til, að jeg get skotið því undir dóm tveggja h. þingdm., hvort lýsing mín sje ekki rjett. H. þm. Strand. og h. þm. Árn. hafa báðir róið í Bolungungarvík, og hygg jeg, að þeir muni geta staðfest alt það, sem jeg nú hef sagt.

Loks vil jeg geta þess, að það er ekki hægt að segja, að Ísfirðingar hafi hingað til verið frekir til fjár landssjóðs. Úr þeirri sýslu hefur þó jafnan dropið drjúgt í landssjóð. Það mun eingöngu vera Reykjavík, sem meira hefur lagt af mörkum, og nú á síðari tímum ef til vill Eyjafjarðarsýsla. En þó hefur venjulegast borið einna minst á Ísafjarðarsýslu í gjaldadálkum fjárlaganna. Jeg ætla mjer ekki að fara að þylja hjer neinar eftirtölur fyrir hönd Ísfirðinga, en mjer finst, þegar þeir loks leita til landssjóðs í slíku nauðsynjamáli og þessu, þá ætti ekki alþingi að brynja sig hinum ströngustu meginreglum, áður en það svarar þeim. Ef fjárveiting Nd. fær að standa óhögguð, þá verður hægt að vinna fullan helming verksins næstu 2 ár, og væri það til ómetanlegs gagns. Jeg vil enda mál mitt með því, að láta þá ósk í ljósi, að menn hugsi sig um, áður en þeir greiða atkvæði móti þessum fjárstyrk. Hjer getur alþingi gert sitt til að afstýra manntjóni og eignatjóni og atvinnutjóni. Jeg vona, að h. Ed. sitji sig ekki úr færi um að vinna slíkt nytsemdarverk.