05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Jeg hef komið með brtill. á þgsk. 728 og 731 við 15. gr. viðvíkjandi Landsbókasafninu og Landsskjalasafninu. í frv. hafa verið ætlaðar 1500 kr. hvort árið til þess að semja skrá yfir handritasafn Landsbókasafnsins og til þess að halda áfram samningu spjaldskrár. núgildandi fjárlögum hafa verið veittar 1500 kr. hvort árið til spjaldskrársamningar einnar. Nú á því að vinna fyrir sömu upphæð bæði að spjaldskránni og handritaskránni. En það er of lítið fje að veita til þess aðeins 1500 kr. Nú er búið að semja spjaldskrá yfir útlendar bækur safnsins, en íslenzka safnið er enn eftir alt, og þar að auki þarf að skrásetja þær bækur, sem árlega bætast við, og það er mikið. Þessu starfi þarf nauðsynlega að halda áfram, og flýta því svo, að því verði lokið sem fyrst. Yfir íslenzka handritasafnið hefur enn engin aðgengileg skrá verið samin. Að vísu hefur verið rituð skrá yfir handritin, hver þau eru, og mun þó ekki vera nákvæm, og eru það eitthvað 7–8 bindi í 40. En þeim er ekki ráðað til neins verulegs gagns í þeirri skrá. Er því auðsætt, hversu erfitt er að finna eitthvert handrit, ef leita skal gegnum öll þau bindi eftir því. Það hefur verið byrjað á að raða handritunum eftir efni, og voru komin þrjú bindi af því safni, er því var hætt, og er það fyrst og fremst ófullkomið, og auk þess langt of skamt á veg komið. En það vita allir, sem til þekkja, að það er með öllu ótækt, að eiga ekki til reglulega, handhæga skrá yfir safnið, svo að hver maður geti fljótt fundið það rit, sem hann ætlar að nota. Þessvegna hef jeg lagt til, að þessi styrkur verði hækkaður úr 1500 kr. upp í 2000 kr. til þess að hægt verði að vinna að því, að gera skrá yfir handritasafnið og halda áfram spjaldskrársamningunni. Þetta fje má eigi minna vera en það, sem jeg fer fram á, svo að verkinu verði lokið sem fyrst.

Önnur brtill. mín er viðvíkjandi Landsskjalasafninu, og fer hún fram á, að veittar verði 1000 kr. hvort árið til þess að skrifa og ljósmynda skjöl í ríkisskjalasafni Dana og öðrum útlendum skjalasöfnum. Eins og menn vita, er nú verið að gefa út fornbrjefasafnið, og er það nú komið ofan að 1538. Í Höfn og viðar ytra er fjöldi af skjölum, sem þarf að fá í þetta safn. Það hefur hingað til verið hægt að fá þau að láni hingað, en nú er svo komið, að ekki er hægt að fá þau lánuð framvegis, nema sjerstakar afskriftir. Það stendur einnig svo á, að margt af þeim skjólum, sem þarf að fá, er í innbundnum bókum hjer og þar innanum önnur skjöl í ríkisskjalasafni Dana, og er ekki von, að hægt verði að fá þær bækur lánaðar hingað. Einn viðburðaríkasti tíminn í sögu landsins byrjar einmitt um sama leyti, sem nú er komið fornbrjefasafninu, nefnilega siðbótatímabilið, og eru mörg skjöl ytra, sem snerta þann tíma, og sem eigi er hægt að fá hingað lánuð. Fornbrjefasafnið er, eins og jeg gat um áðan, komið til 1538, og vantar þá einmitt dóma og önnur merk skjöl, er snerta mál þeirra Ögmundar biskups og Diðriks von Minden og svo viðburði þá, sem þar fara á eftir. Eru til ytra margir dómar og skjöl frá þeim tíma, og þá er nauðsynlegt að fá. Landsbókasafnið þarf einnig að fá ýmsar afskriftir frá Höfn, og ákveður frv., að lagðar verði 1000 kr. hvort árið til að vinna að þeim afskriftum. Kynni að mega nota þessar fjárveitingar saman. Jeg get ekki betur sjeð, en að það þurfi að hafa mann ytra, til þess að rita skjöl og bækur fyrir bæði söfnin, og sami maðurinn gæti einmitt mjög vel gert það. Það er að vísu mikið verk, sem vinna þarf, bæði að afrita merk skjöl og bækur og að ganga í gegnum ríkisskjalasafnið og tína úr því það, sem við á, og til þess þarf færan mann. En ef hann hefði 2000 kr. á ári, þá gæti það þó verið bjargvænlegt. Jeg vil geta þess, að í fjárlagafrumvarpinu eru veittar 600 kr. í öðrum stað til þess að afrita skjöl og bækur handa Landsskjalasafninu, en með því er aðeins átt við skjöl og bækur hjer á landi. Það eru mörg skjöl og bækur hjer á landi, sem þarf að afrita, til þess að menn geti haft not af þeim, og upphæðin 600 kr. snertir þau handrit; en mín tillaga á við útlend skjöl. Ýmsar afskriftir þær, sem nú vantar, mega engan veginn bíða, því að nú er einmitt svo ástatt, að útgefandi fornbrjefasafnsins er staddur í miðju bindi og getur eigi haldið áfram, fyr en þær afskriftir koma, sem jeg hef nefnt. Vona jeg því, að deildin sjái, að hjer er um nauðsynjamál að ræða, og samþykki tillögu mína.

Enn hef jeg komið fram með brtill. um að taka upp aftur styrk til Guðmundar Finnbogasonar til ritstarfa um heimspekileg efni, 600 kr. hvort árið. Þessi styrkur stóð í stjórnarfrv., en var feldur burtu í Nd. Að vísu voru laun hans hækkuð um 500 kr., en þar sem þessu var kipt burtu, voru laun hans í rauninni lækkuð um 100 kr. Ef nú þingið tekur af honum þennan styrk, þá sýnist það gefa með því vottorð um, að það áliti ritstörf hans lítils virði, en jeg hygg, að rit hans þyki þó þeim, sem um kunna að dæma, mjög vel af hendi leyst, og álit. jeg því, að þingið ætti ekki að fella þennan styrk niður. Það er vitanlegt og viðurkent á þinginu, að 2000 kr. eru lítil laun, og má telja þess ýms dæmi. Það er nýbúið að samþykkja hjer í deildinni, að aðstoðarmaður við hagstofuna skuli: hafa 2500 kr. í laun, og yfirleitt má segja, að eigi þyki byrjandi á störfum fyrir landssjóðinn með minna en 2000 kr. í laun. Þessi maður hefði að vísu 2600 kr. á ári, ef mín tillaga næði fram að ganga,. en þess er líka að gæta, að hann verður þá að inna ritstörf af hendi, að minsta kosti 12 arkir, til þess að geta eignast þessar 600 kr. og það þarf ekki litla vinnu til þess. Mjer finst ekki rjett að vera að klípa af þessari upphæð, því að launin eru ekki of há, þótt þau nemi þessu, í samanburði við aðra starfsmenn þjóðarinnar. Síðasta þing hefur álitið með Hannes Þorsteinsson, að hæfilegt væri að láta hann fá 2500 kr. fyrir sinn starfa, og er því þetta einnig í samræmi við það.

Nú hefur háttv. nefnd stungið upp á því, að færa greiðsluna til Hannesar niður í 2000 kr., vegna þess að hann hefur nú fengið starfa, sem hann fær 900 kr. fyrir á ári.

Það hefur oft verið sagt, að þingið eigi að borga vel það starf, sem vel er unnið, og það vita allir, að þessi maður vinnur trúlega og með mesta dugnaði að sínu verki, og ætti að borga eftir því, sem unnið er, væri eflaust rjett, að hann hjeldi styrk sínum óskertum. Jeg vil því leggja til, að liðurinn haldist óbreyttur. Það verður víst ekki fenginn færari maður til þess starfa, sem hann hefur á hendi, enda mun hann vera með afkastamestu starfsmönnum okkar. Þá vil jeg minnast með nokkrum orðum á dr. Helga Pjeturss. Nefndin hefur lagt það til, að styrkur hans væri lækkaður úr 2000 kr. niður í 1200 kr. Jeg skal nú að vísu játa, að það er nokkur ástæða til þessa, en mjer finst, að það mundi ekki koma vel við, því eins og menn vita, hefur hann verið veikur undanfarandi, en er nú á batavegi. En hugsazt gæti, að það hefði slæm áhrif á heilsufar hans, ef styrkurinn væri lækkaður. Það efast enginn um, að hann hafi mjög góða hæfileika til síns starfa, og á meðan ekki er útsjeð um, að hann verði heilbrigður aftur, finst mjer ekki rjett að særa hann með því að lækka styrkinn. Þá hefur ennfremur verið lagt til, að styrkurinn til Eggerts og Þórarins Guðmundssona falli niður. En þótt ýmislegt mæli með því. þá þykir mjer þó leitt, að fella styrkinn alveg niður, því að þeir eru komnir vel á veg með nám sitt og eru vafalaust efnilegir menn í sinni grein. Það má að vísu segja, að um eins efnilegan mann sje að ræða, þar sem er Reynir Gíslason, sem sagður er mjög efnilegur maður í sömu list, og væri því eins rjett að veita honum námsstyrk, og kynni að vera eins rjett, að veita þeim öllum nokkurn styrk, þó að hann væri þá minni til hvers þeirra. Finst mjer öll sanngirni mæla með því, að þeim yrði að nokkru sint. Ætla jeg svo ekki að lengja umræðurnar frekar að sinni, á meðan engin mótmæli koma fram á móti tillögum mínum, og vona jeg, að háttv. deild vilji samþykkja þær.

Um aðrar fjárveitingar mun jeg sýna skoðun mína með atkvæði mínu.