05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Hákon Kristoffersson:

Jeg á hjer nokkrar brt., og það er mest vegna þeirra að jeg vildi segja nokkur orð. Um brtl. á þgskj. 708 vil jeg taka það fram, að jeg flyt hana vegna þess, að mjer finnst þar eigi að eiga sjer meiri jöfnuður stað en verið hefur undanfarið. En langt er frá því að mjer sje hún kappsmál, og legg jeg hana alveg á vald háttv. deildar. Í sambandi við hana vil jeg sjerstaklega benda á styrkinn til Þorst. Erlingssonar. Ef jeg verð sannfærður um það, að meira andlegt ljós hafi skinið frá Þorsteini Erlingssyni hin síðari ár, en frá Guðm. Guðmundssyni, þá væri jeg jafnvel fús á, að taka brtill. aftur.

Þá er brtill. um efnafræðinginn. Hún hefur mætt misjöfnum dómum. En jeg hef borið hana fram, af því jeg hygg, að þessi maður hafi all sæmilegt kaup, og að jeg hinsvegar tel ekki fjárhagsástæður landssjóðs góðar. Eftir því, er jeg hef fengið upplýst, þá hefur hann í kaup:

við efnafræðisstofuna . . . . 2000 kr.

— iðnskólann . . . . . . . . . . . 500 —

— háskólann . . . . . . . . . . . . 600 —

-og 25% af brúttotekjum efnafræðisstofunnar, sem nemur eftir upplýsingum frms. fjárlaganefndarinnnar (Stgr. J.) um . . . . . . . . . . . . . . 150 —

. . . . . . . . . . . . .. . Alls um 3250 kr.,

og get jeg ekki sjeð annað, en þetta sje fullsæmilegt kaup, og jeg hafi að fullu sýnt réttmæti brtl. En jeg viðurkenni, að Ásgeir Torfason muni vera mesti heiðursmaður. En þó hann sje heiðursmaður, þá hefur hann ekki þar fyrir rjett til launahækkunar. En jeg kem ekki með brtill., eftir því hvort mjer er vel eða illa við þá, er hlut eiga að máli.

Í tilefni af ummælum mínum um líkin á Langanesi gaf háttv. frmsm. (Stgr. J.) upplýsingar, og læt jeg mjer þær nægja að öllu leyti og hef því ekki frekar um það að segja.

Þá er síðasta brtl. á þskj. 709. Hún virðist hafa vakið sárastar og viðkvæmastar tilfinningar sumra hjer. Það er brtl. um að fella niður greiðslu til þeirra Guðm. sýslum. Björnssonar og Snæbjarnar hreppstjóra Kristjánssonar. Háttv. þm. Strand. (Guðjón Guðl.) sagði, að þar hyggi sá, er hlífa skyldi, en það vil jeg ekki kannast við, að jeg hafi borið vopn að þessum heiðursmönnum, en sízt vildi jeg vega að þeim hvorki í orði nje verki, þegar þeir eru ekki viðstaddir.

Reikningur sá, er þeir gáfu, nam alls um 10500 kr. Hvaða rök færir háttv. fjárlaganefnd fyrir því, að ekki sje rjett að borga nema 1000 kr. Jeg hef ekki fengið neinar upplýsingar um, hversu mikið fje þeir urðu að leggja út, en vera má, að háttv. framsm. (Steingr. J.) eða háttv. þm. Strand. G. G.) hafi fengið þær.

Það hefur verið skírskotað til þess, hversu þeir hafi verið duglegir. Það má vel vera, jeg var þar ekki á vettvangi og veit því ekki um. það. En í sambandi við það vil jeg minnast tveggja annara sýslumanna, er hafa sýnt mikinn dugnað í þessu efni. Það eru þeir Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður Ísfirðinga, nú ráðherra, og Steingrímur Jónsson, sýslumaður Þingeyinga.

Báðir þessir menn hafa sýnt sömu rögg af sjer, og báðir lögðu þeir sig í hættu ef til vill. En hvaða viðurkenningu hafa þeir fengið ? Og það er trú mín, að þeir hafi háðir borið sig skynsamlegar að en Guðmundur sýslumaður Björnsson.

Háttv. þm. Strand. (G. G.) var að tala um það, að þeir ætluðu ekki sjálfir að hafa fje þetta, heldur ætluðu þeir að gefa það sýslunni til einhverrar líknarstarfsemi, en hvað leiddi þá af því, að þessi brtill. mín yrði samþykt annað en það, að þessi líknarstarfsemi yrði að bíða þetta fjárhagstímabil.

En eigi að greiða þeim skaðabætur, þá finst mjer að þeim beri að fá meira en að eins freka 11 hluta af reikningi sínum, en út í reikning þeirra vil jeg ekkert fara, með því að hvorugur þeirra er hjer við.

Það hefur verið sagt við mig, að þetta stjórnaðist af pólitík hjá mjer. En það er langt frá því. Mjer er vel við báða mennina, en vil ekki, að þingið fari að gera sjer mannamun, því jeg efa stórlega, að svo hefði verið gert sem hjer, ef einhverjir smábændur hefðu átt hlut að máli. Þeir hefðu ekkert fengið, ekki einn pening.

Í förinni voru þeir í 16 daga, svo þeir fá þá vel borgaða, en það á víst að skoðast sem greiðsla fyrir frelsisránið? Ef þeim væri greitt með svipaðri verðskrá og þingmönnum, hefðu það átt að vera 300 krónur.

Jeg er ekki svo grunnhygginn, að jeg búist við því, að þessi brtill. verði samþykt. Forlög Kartagóborgar eru augsýn fyrirfram. En jeg vildi þar fyrir gera skyldu mína, hvað svo sem aðrir gerðu. Og þar sem fjárhagur landssjóðs er þröngur, og það svo, að lagt er til að fella niður 300 kr. greiðslu til fátækrar prestsekkju, þá finst mjer, að þessi greiðsla eigi og að falla niður.

Og svo finst mjer þetta vera skammarboð til þessara manna, að greiða þeim að eins 1000 kr. af 10500 kr. reikningi. Úr því að á að borga hann, því þá ekki að greiða reikninginn með fullri upphæð. Því hefði jeg getað verið með, þó jeg sæi mjer ekki fært að bera það fram, og jeg er alveg hissa á háttv. þm. Strand. (G. G.), er fór um þetta mjög hjartnæmum orðum, er lýstu góðu hjarta og góðu innræti, að hann skuli ekki vera svo sjálfum sjer samkvæmur í framkvæmdinni að bera þá tillögu fram. Það mundi sóma sjer vel fyrir jafn brjóstheilan mann !

Annars liggja engar sannanir fyrir um kostnað fararinnar, og ekki hefur hún verið mjög leiðinleg, því annar þeirra sagðist, eftir því, sem jeg hef heyrt, ekkert hafa á móti því að fara slíka för aftur. Ef menn efa það, munu þeir geta lesið það í enskum blöðum frá þeim tíma.

Jeg vil að endingu skjóta því til hinnar háttv. fjárlaganefndar, hvort hún sjer sjer ekki fært að hækka upphæðina til þessara heiðursmanna, svo að þeir mættu vera nokkurnveginn ánægðir, því að veita þeim rúman 11. part af kröfu þeirra, það virðist nær því fjarstæða. Með það fyrir augum, að ummæli háttv. þm. Strand. (G. G.), viðkomandi því, að fje þetta eigi að fara til einhvers líknarfyrirtækis, þá sýnist því fje vel varið, er fengið væri í hendur þessara heiðursmanna, er voru hjer á árunum teknir ránshendi.