06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sigurður Eggerz:

Mjer finst háttv. 6. kgk. leggja alt of mikla áherzlu á það, hvílík æra það sje fyrir oss, að franska þjóðin hafi snúið sjer til vor með kurleislega beiðni. Það er alkunnugt, að Frakkar eru kurteis og göfug þjóð, en hitt er líka kunnugt, að allar þjóðir bera kurteislega fram við aðrar þjóðir málaleitanir slíkar sem þessa. Það er auðvitað sjálfsagt að taka kurteisum málaleitunum á sama hátt, en þó getur kurteisin orðið of mikil, ef fyrir hennar sakir á að láta af rjettu og góðu máli. Það er næsta fróðlegt að fá að vita það, að vjer kunnum ekki að umgangast útlenda sendiræðismenn nje tala við þá, og jeg fyrir mitt leyti verð að játa, að jeg muni ekki kunna að beygja mig fyrir þeim samkvæmt siðabók háttv. 6. kgk. (G. Bj.)

En hvað sem því líður, þá getur það ekki komið til mála, að mannhelgi sje rofin á þeim eða gerð árás á persónufrelsi þeirra, þó þeir verði að beygja sig undir sömu lög sem landsins börn, og fái ekki að flytja inn í landið áfengi fremur en þau. Ef ræðismennirnir — og þeir eru margir hjer í bæ — fá heimild til að flytja inn vín og veita það gestum sínum í boðum, þá er hætt við, að afleiðingarnar verði, að vínmennina dreymi hálfa daga og heilar nætur um vínboðin hjá ræðismönnunum, og að þeir fái blátt áfram fyrir vínið mikið vald yfir þessum mönnum.

Jeg er samdóma hæztv. ráðherra um, að ef undanþágan er veitt á annað borð, þá hæfi ekki að fastsetja, hvað mikið vín ræðismennirnir megi flytja til Iandsins, og að annaðhvort eigi að veita leyfið skilyrðislaust eða neita um það. Fyrst það er svona vandasamt að umgangast þessa ræðismenn, eins og háttv. 6. kgk. fræðir oss um, að það sje, af því þeir kunni sig svo vel, þá muni ekki hætta á að þeir drekki sig fulla, því það væri dónaskapur. En þá á það ekki við af okkur, að vera að skipa fyrir, að enginn ræðismaður megi flytja inn meira á ári en 800 potta af mjög óáfengu rauðvíni, það væri vottur þess, að við treystum þeim ekki til að kunna sjer hóf í vínnautn. Háttv. 6. kgk. (G. B.) talaði um, að þeir bindindismennirnir hefðu verið taldir öfgamenn. Það er auðsjeð, að hann vill nú fara að losa þá undan því ámæli. Það var ánægja að heyra háttv. 6. kgk. fara að tala latínu, og eg held það eigi einmitt við hann og flokksbræður hans orðin, sem hann tók sjer í munn, að „exceptio confirmat regulam“.

Jeg vona, að háttv. deild greiði atkvæði með br.till. og veiti enga undanþágu sendiræðismönnunum, en samþykki að öðru leyti frv. háttv. Nd. Um hana trúi jeg því ekki, fyr en jeg reyni, að hún sje svo illa sinnuð, að hún fari að fella frv.; jeg vona þvert á móti, að hún taki því vel, þótt konsúlabrennivínið hverfi úr því.