06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra:

Jeg held, að h. þm. V.Sk. (S. E.) hafi ekki athugað mál þetta nógu vandlega, ekki athugað, að það skiftir miklu, að sendiræðismönnum annara þjóða sje sýnd full kurteisi. Það gæti komið oss sjálfum í koll, ef vjer gættum þess eigi. Sjerstaklega er oss skylt að sýna Frökkum kurteisi og tilhliðrunarsemi, því að þeir hafa oft sýnt oss kurteisi og velvild. Skal jeg þar minna á spítala þeirra hjer í landi, þar sem þeir hafa tekið á móti Íslending um með vildarkjörum.

Sendimenn erlendra ríkja eru hvervetna taldir staðgenglar þjóðar sinnar, og talið skylt að fara með þá ekki aðeins sem góða gesti, heldur jafnvel sem þátt af hinu útlenda ríki, er þeir eru fulltrúar fyrir.

Þessu megum við ekki gleyma, þegar verið er að fjalla um þetta mál. Jeg vona því, að frv. verði samþykt eins og það kom frá h. Nd., en ekki með breytingum þeim, sem h. meiri hluti leggur til að á því sjeu gerðar, því að í brtl. er óheppilegt orðalag, er raska mundi meginreglu laganna. H. 6. kgk. (G. B.) mintist á, að sendiræðismenn væru undanþegnir sköttum og tollum. Þetta er satt og rjett um skattana; en efamál er um tollana; þó hefur þeirri venju verið fylgt hjer, að undanþiggja þá líka undan þeim, þó að engin bein laga ákvæði heimili slíka undanþágu. Þetta sýnir, að þeir hafa verið skoðaðir óháðir ákvæðum tolllaganna, og að svo hefur verið litið á, að afstaða þeirra gagnvart Iandslögunum væri önnur, en annara útlendinga, sem velja sjer bústað hjer. Frv. þetta er í fullu samræmi við þessa skoðun.

Jeg skil ekki í, að þetta skuli vera skilið sem árás á bannlögin. Það er í augum uppi, að háskalegast fyrir þau lög er það, að þau sjeu svo einstrengingsleg og ómannúðleg, að þau fyrir þær sakir þyki óhafandi; því meir sem hægt er að forðast slíkt, þess meiri mögulegleikar eru fyrir því, að lögin haldist eitthvað áfram. En ef þau skapa oss óþægindi frá öðrum þjóðum, þá er hætt við, að það geti orðið eitt af því, sem þeim yrði til hnekkis í framtíð. Jeg held því, að það sje rjett hjá h. 5, kgk. (B. Þ.) að það sje misskilningur hjá bannvinum, ef þeir setja sig upp á móti frv. þessu, þeim ætti miklu fremur að vera það kærkomið.