06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Steingrímur Jónsson:

Jeg bjóst ekki við, að tala í þessu máli, því að jeg gerði ekki ráð fyrir almennum umræðum um bannmálið, en hjelt, að menn mundu halda sjer við þetta frv., sem aðeins óbeinlínis snertir bannmálið; enda mundi það hafa verið hollast bæði fyrir frv. og bannlögin sjálf. Jeg leit svo á, að þetta frv., eins og það kom frá h. Nd., væri við það miðað, að vjer gætum lifað í vináttusambandi við aðrar þjóðir, og gætum skoðað hina erlendu sendiræðismenn eins og vant er að skoða sendiherra annarsstaðar, og hegðað oss við þá samkvæmt því. Þannig leit jeg á málið, og þannig lit jeg enn á það. Jeg hafði því hugsað mjer, að greiða atkvæði með frv., eins og það kom frá h. Nd., en mun greiða atkvæði móti brtl. Svo fer það eftir því, hvað af brtl. verður samþykt, hvort jeg sje mjer fært að greiða atkvæði með frv. sjálfu eða ekki. Það var h. 5. kgk. (B. Þ.), sem knúði mig til að taka til máls, Hann hjelt því fram, að inn í landið flyttist nú eftir að aðflutningsbannið er komið á, allmikið af vínföngum í skugga Ijelegrar lögreglustjórnar, sem viða væri hjer í landi. Það er óhæfa að koma fram með slíkar staðhæfingar á þingi, nema skjallegar sannanir sjeu til fyrir því, að þær sjeu á rökum bygðar, og mótmæli jeg þeim sterklega fyrir hönd íslenzkra lögreglustjóra sem staðlausu fleipri.

Bannlögin geta ekki lagt þær kvaðir á lögreglusljórana, að ábyrgjast, að þau sjeu í engu brotin; þeim er hvorki lagt fram fje til að halda úti njósnum um það, nje heldur hafa þeir tíma til þess sjálfir. Hið eina, sem af þeim er heimtandi, er að þeir taki á móti kærum og rannsaki þær, og það er vitavert, ef þeir gera það ekki, og ef þeir skyldu ekki gera það, þá er sjálfsagt að kæra þá sjálfa. En það er nokkuð annað, sem hjer er að athuga; það vantar lögregluákvæði, er geri lögreglustjórunum mögulegt, að framfylgja þessum ströngu lögum; það litur út fyrir, að þau hafi gleymtz. Það þarf ekki að segja mjer það, að menn sjeu nú ekki farnir að sjá það og skilja, að bannlögin eru býsna gallafengin. Þau hafa t. d. drepið niður því nær alla bindindishreyfingu í landinu. Í öðru lagi hafa þau æzt drykkjuskaparfýsn og aukið drykkjuskap ungra manna til muna; og í þriðja lagi hafa þau haft skaðlegri áhrif á löghlýðni manna. og rjettarmeðvitund en nokkur önnur lög, jeg undantek ekki horfellislögin (G. B.: En æðarfuglalögin?). Það skyldu þá vera þau.

Þá þarf jeg að víkja nokkrum orðum að h. 6. kgk. (G. B.). Hann gat þess að ástæðan fyrir því, að frv. þetta hefði komið fram, væri málaleitun frá hinni merku frönsku þjóð, og til hennar yrðum vjer að taka tillit. Það getur verið meira en rjett. En svo bætti hann við, að hún styndi undir áfengisbölinu. Þetta kom dálítið undarlega fyrir, því að rjett á eftir sagði hann, að franska stjórnin hefði, snúið sjer hingað til að vernda franska mannhelgi. En fyrir hverju ? Er það fyrir því, að losast við það böl, sem hann sagði að Frakkar styndu undir ? Það lítur út fyrir, að hjer sje nokkur mótsögn. Og svo vil jeg spyrja: Gerir það ekkert til, þótt mannhelgi vor Íslendinga sje krenkt með þessum lögum.