06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðm. Björnsson:

Það er víst bezt að fara að stytta þessar umræður. Það er auðsjeð, að þær ætla að lenda í tómum stælum um bannlögin, og hverfa frá frv. Og mjer dettur ekki í hug að auka stælurnar með því að svara svo mikið sem einu orði útúrsnúningum h. 3. kgk. (Stgr. J.) og aðdróttunum í minn garð og móðgunum; þeim erum við svo vanir, bannmennirnir. Jeg tel það víst, að nefndin taki til athugunar allar bendingar h. ráðherra.

Jeg skal geta þess, að þegar jeg talaði við franska sendiræðismanninn um þetta mál, tók hann það fram, að sjer væri það ljóst, að hvorki mætti hann selja vín nje veita gestum, þótt hann fengi leyfi til að flytja það hingað til heimilisþarfa sinna. Enda mundi hann hafa tekið til miklu meira en hann gerði, ef hann hefði ætlað gestum nokkuð af því. Jeg batt það ekki neinum takmörkum í viðræðu okkar; hann nefndi til sjálfur, hvað hann teldi sig þurfa um árið. Frá þessu vildi jeg segja.

Að lokum vildi jeg bæta því við, að þótt þetta mál virðist fljótt á litið lítilsvert, og á sama megi standa, hvernig því lyktar, þá er ekki svo, þegar betur er skoðað. Jeg vil minna á, og það í fullri alvöru, að þetta mál getur haft miklar afleiðingar. Og jeg efast um, að í sumar hafi hjer í deild verið greitt atkvæði um nokkurt annað mál, er meir hafi riðið á, að hver einstakur þm. gerði sjer sem allra ljósastar, afleiðingarnar af atkvæði sínu. Þetta vildi jeg segja, áður en til atkvæða er gengið, svo enginn gangi að því gruflandi, hvað hjer getur verið í húfi og engin geti með rjettu afsakað sig með því, að hann hafi greitt atkvæði í gáleysi.