08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

21. mál, íslenskur sérfáni

Ráðherra:

Þessi dagskrártillaga, sem fram er komin, gefur mjer tilefni til að bæta nokkrum orðum við það, sem jeg sagði um málið við 2. umræðu hjer í deildinni.

Þó að jeg sje mótfallinn því, að þetta frumv., sem nú liggur fyrir, verði samþykt sem lög frá Alþingi, og verði yfir höfuð að ráða frá því, að málið sje afgreitt í frumvarpsformi frá þinginu í þetta skifti, þá er það engan veginn svo að skilja, að jeg sje andvígur því, að Ísland fái sjer löggiltan sjerstakan fána, er táknað geti stöðu þess sem sjerstakt land með sjerstakri þjóð, þegar slíkt getur orðið svo, að oss sje til nokkurs sæmdarauka.

Ástæðurnar fyrir afstöðu þeirri, sem jeg nú hef orðið að taka og verð að taka gagnvart fánafrumvarpinu, eru alt aðrar. Eins og jeg hef margsinnis tekið fram, álit jeg málið ótímabært nú, og óhyggilegt á ýmsan hátt að hreyfa fyrstu málaleitunum við konunginn um þetta mál í föstu frumvarpsformi, sem ekki má frá víkja, þótt hann hefði eitthvað að athuga. Þessu máli horfir að því leyti öðruvísi við en öðrum málum, sem þingið hefur til meðferðar, að vjer eigum hjer að etja gegn þeirri lögskýring eða stjórnmálakenning frá fornu fari, að fánamál yfirleitt, þ. e. alt er að fána lítur hjer á Iandi, sje „sameiginlegt mál“, og liggi þannig ekki undir valdsvið Alþingis, — auk þess sem málið er þess eðlis, að það tekur sjerstaklega til konungdómsins. Þegar af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að varast þær aðferðir, sem hleypt geti stífni í málið frá upphafi.

Ennfremur er frumvarpið svo stuttaralegt, óákveðið, og að sömu leyti óheppilega orðað, að jafnvel einnig af þeirri ástæðu út af fyrir sig virðist mjer það ekki til þess fallið, að verða að Iðgum. Breyting in, sem samþykt var hjer í deildinni, að hafa orðið „fána“ í stað „landsfána“, hefur ekki gert frumvarpið ákveðnara nje minkað hætturnar á ágreiningi og deilum um rjettan skilning þess. Sje það skilið eins og nefndarálit meiri hluts nefndarinnar hjer í deildinni segir að eigi að skilja það, sem sje að það geri enga breytingu á neinum núgildandi lögum, þá er hætt við, að sumum kynni að virðast nokkuð lítið á unnið við það. Jeg tel það eina afleiðinguna af því að byrjað er frumvarpsleiðina af alþingis hálfu, að ekki hefur verið talið vogandi að fara opinskátt fram á meira en hið allra minsta minimum.

Þó að það skifti litlu í samanburði við annað, má og telja það galla á frumvarpinu. hve orðalagið í 1. gr.: „Hjer á landi skal vera löggiltur fáni“ er óviðkunnanlegt, ef ekki villandi, sjerstaklega fyrir útlendinga, er lesa lögin á útlenda tungu, og sjá þau dagsett og staðsett í Danmörku, undirskrifuð af konungi á Amalienborg. Fyrir þá liggur beinast við að halda, að „Hjer á landi“ merki Danmörk en ekki Ísland. — En, sem sagt, þetta er nú smáræði.

Af þessum upptöldu ástæðum verð jeg að vera þeirrar skoðunar, að ekki sje rjett að samþykkja þetta frumvarp, heldur verði að velja aðra leið til þess að láta í ljósi vilja þingsins. í dagskrártillögunni er einmitt bent á þá leið, sem jeg álit rjettasta.

Verði tillagan samþykt, þá mun jeg telja mjer skylt að bregðast ekki því trausti, sem þar er lýst, og gera það, sem í mínu valdi stendur, til þess að fá framgengt því, er þar er farið fram á. Mun jeg skýra Hans Hátign konunginum frá óskum þingsins, bera fram fyrir hann tillögu um, að fyrir næsta alþingi verði lagt stjórnarfrumvarp um þetta efni, og leggja áherzlu á, að því verði framgengt. Ætti það frumvarp að vera í öllu falli skýrara og ákveðnara en þetta, ef til vill líka nokkru víðtækara en nefndarálit meirihlutans hjer í deildinni segir fyrir. Ef stjórnarskrárbreytingin verður samþykt hjer í deildinni, og þar af leiðandi aukaþing næsta sumar, verður biðin þá ekki löng, þangað til menn fengju að vita af eða á um þetta mál, og tækifæri til nýrra ráðstafana með nýjum kröftum, ef ekki lánast þessi tilraun.

Þetta álít jeg þá aðferð sem sje líklegust til þess að fá framgengt sjerstökum íslenzkum fána, sem einhver dálítill fengur væri í; en að samþykkja þetta frumvarp nú, álít jeg beint skaðlegt fyrir málið sjálft. því að jafnvel þótt staðfesting fengist, sem mjög verður að telja vafasamt, þá væri þar með loku skotið fyrir tilraunir til þess að fá betri, ákveðnari og ef til vill víðtækari ákvæði um þetta efni í náinni framtíð. Þeir, sem vilja fánamálinu vel, ættu því að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá.