08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Júlíus Havsteen:

Jeg sje að jeg hef verið fjarri góðu gamni. H. 5. kgk. hefur talað um brtill. mína, og kvað hafa kallað hana „fáránlega“, en jeg get huggað hann með því, að hún er þó ekki eins fáránleg, eins og brtill. sú, sem hann kom með við 2. umr. málsins, þar sem konsúlum alment var heimilað að flytja inn svo og svo mikið af víni til heimilisþarfa sinna, að jeg ekki tali um brtill. nr. 2. á sama þgskj. 679 um undirskrift konungs á bannlögin, þegar búið væri að smella inn í þau þeirri breytingu á þeim, sem hann þegar hafði staðfest og undirskrifað.

Jeg hef þegar við 2. umr. talað um ástæðurnar fyrir þessari brtill. Það er fyrst og fremst, að það er ekki til neins að setja nýja bót á þetta ónýta fat. Ef bæta ætti bannlögin til hlýtar, þá yrði það minsta eftir af þeim; flíkin yrði ekki annað en bót við bót. í annan stað sagði h. 5. kgk. sjálfur, að það gæti verið, að yfirrjettardómurinn væri ekki rjettur, og væri þá ekki rjett að bíða þangað til dómur er fallinn í hæstarjetti í þessu máli. Það er leitt, að verða að viðurkenna, að aðalákvæði laganna hafa verið vitleysa og því þurfi að breyta því. Þessvegna álít jeg betra, að láta standa við svo búið, þangað til búið er að áfrýja málinu og sjá, hver niðurstaðan verður. Jeg vona því, að brtill. mín nái fram að ganga.