08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

41. mál, samgöngumál

Sigurður Eggerz (frsm.):

Óhætt er að fullyrða það, að það er ekkert mál, er þjóðin fylgir með meiri athygli, en þetta mál, sem liggur nú fyrir háttv. deild.

Í æfintýrunum er talað um hamraborgir, sem að eins var hægt að opna með töfraorðum.

Inni í þeim voru geymd ógrynni öll af gulli og gimsteinum. Ef menn gleymdu orðinu, þá stóðu hamraborgirnar órjúfandi um fjársjóðina.

Í þessu landi eru faldir ótal fjársjóðir, bæði til lands og sjáfar, en ennþá höfum vjer ekki getað fundið svo öflug töfraorð, að vjer gætum notið fjársjóðanna í fullum mæli.

Eitt af þessum töfraorðum er áreiðanlega: „góðar samgöngur“.

Um leið og samgöngur vorar aukast og batna, um leið vex framleiðsla vor og alt viðskiftalíf vort þroskast og dafnar betur. Þetta er mjög eðlilegt, því eitt af aðalskilyrðunum fyrir framleiðslunni er, að auðvelt sje að gera það arðvænt, sem framleitt er.

Samgöngumál vor eiga því jafnan að standa meðal öndvegismála vorra. Menningu vorri er hætta búin, ekki aðeins af því, að afturkippir komi í samgöngurnar, heldur einnig af því, ef þær verða ekki auknar. Hver afturkippur í samgöngumálum vorum er bein árás á framleiðsluna í landinu.

Það er því bein skylda þingsins að búa svo um hnútana, að slíkir afturkippir geti ekki átt sjer stað.

Síðasta ár er nú um slíkan afturkipp að ræða. Ástæðurnar að honum eru mjög auðskildar. Vjer höfum jafnan orðið að leita til útlendra fjelaga um samgöngur vorar.

Höfum oft orðið að eiga það á hættu, að ná engum samningum, en þó slíkir samningar hafi tekizt, þá hafa þeir allajafna fremur verið sniðnir eftir hagsmunum fjelaga þeirra, sem við höfum leitað til. heldur en eftir vorum eigin hagsmunum. Síðasta þrautalendingin hefur vanalega verið sameinaða gufuskipafjelagið. Mun það nú hafa heitið stjórninni að annast strandferðir vorar næstu tvö ár, ef óskað yrði.

En nú hefir komið símskeyti frá fjelaginu til ráðherra þess efnis, að það hverfi frá samningsboðum sínum, ef alþingi styrki Eimskipafjelag Íslands með hluttöku eða á annan hátt. Þessi danski hnefi gerist því ærið nærgöngull oss Íslendingum, og mun fáa fýsa að leggja framtíð vora undir hann. En hvað á þá að gera? Einasta ráðið er að gera samgöngur vorar sem allra fyrst innlendar; þá eru þær hrifnar burt úr þeirri óvissu, sem hingað til hefur vofað yfir þeim.

Að því er nú millilandaferðirnar snertir, þá munu þær að flestra áliti arðvænlegri, en strandferðirnar.

Fyrir þeim er nú að nokkru leyti sjeð um næstu 6 ár samkvæmt samningi þeim, er gerður var við sameinaða gufuskipafjelagið 1909.

Nauðsyn er því ekki í augnablikinu eins brýn á því, að taka þessar ferðir að sjer. Og þó er nauðsynlegt, að gera þær sem allra fyrst innlendar.

Á meðan ferðir þessar eru í höndum útlendra fjelaga, þá verður hagsmuna landsins aldrei gætt eins og skyldi.

En hagsmunir landsins krefjast þess, að vjer höfum sem greiðastar samgöngur við þá staði, þar sem vjer höfum mestan hag af að kaupa varning þann, sem vjer þörfnumst og auðveldast getum selt afurðir vorar.

Alt virðist benda á, að styzta leiðin væri heppilegust. Tíðar ferðir milli Íslands og Englands mundu verða oss mjög drjúgar. Flutningsgjöldin vitanlega þeim mun minni, sem vegalengdin er minni. Nú er það að vísu svo, að skip sameinaða fjelagsins koma oft við í Englandi, en sá böggull fylgir því skammrifi, að flutningsgjöldin með þeim skipum eru nálega eins á milli Íslands og Englands og milli Íslands og Danmerkur. Hjer eru vitanlega danskir hagsmunir, sem ráða. Úr þessu verður ekki bætt á annan hátt en með því, að að gera ferðirnar innlendar.

Að því, er strandferðirnar snertir, þá eru þær vitanlega örðugasti hjallinn. En eitt virðist þó vera Ijóst, og það er, að þær eigi að geta borið sig, ef flutningsþörfin er nægileg, og þeim er hagað eftir henni að svo miklu leyti, sem hægt er. En hjer vantar með öllu nákvæmar skýrslur um flutningsþörfina, sjerstaklega hafna á milli. Eins og fylgiskj. 1 við nefndarálitið, sem jeg geri ráð fyrir að háttv. þingm. hafi kynt sjer, ber með sjer, þá er þó flutningsþörfin æði mikil, og eins er það víst, sbr. fylgiskj. 2, að skip koma oft á staði sem lítil flutningsþörf er á, en mjög sjaldan á ýmsa staði, þar sem flutningsþörfin er rík.

Þessu þarf að breyta, það þarf að nema óþarfa viðkomustaði úr ferðaáætluninni, og fækka komu strandferðaskipanna á þá staði, sem þau bersýnilega koma óþarflega oft á.

Jeg er ekki í miklum vafa um það, að ferðirnar mundu borga sig, ef þeim væri hyggilega fyrirkomið. Og ekki þarf í raun og veru að teygja sig langt til að færa sönnun fyrir þessu. Bezta sönnunin er, að útlend fjelög hafa tekið þær að sjer, vitanlega í gróðaskyni.

Í háttv. neðri deild hefur risið upp nokkur ágreiningur um, hver skýrslan mundi rjettari vera, fyrverandi eða núverandi forstöðumanna Thorefjelagsins, um rekstur strandferðaskipa fjelagsins.

Jeg ætla mjer ekki, að blanda mjer inn í þann ágreining, en eftir góðum heimildum, get jeg fullyrt, að tekjur og gjöld Austra og Vestra árið 1912 hafa verið þannig, og eru þó gjöldin fullhátt reiknuð:

Austra: gjöld . . . . kr. 80,224,29

tekjur . . . . . . . . . — 50,529,34

tekjuhalli kr. 29,694,95

Vestra: gjöld . . . . kr. 77,166,45

tekjur . . . . . . . . . . — 37,052,42

tekjuhalli kr. 40,114,03

Sjeu nú hverju skipi talin 30 þús. kr. styrkur úr landssjóði, verður hreinn ágóði af Austra kr. 305, en tekjuhalli á Vestra kr. 10,114.

Tekjur skipanna eru miðaðar við gömlu taxtana, en væru þær reiknaðar eftir nýju töxtunum, sem eru mun hærri, þá mundi verða ágóði af rekstri beggja skipanna.

Auk þess ber þess að gæta, að engin sönnun er færð fyrir því, að skipin hafi verið notuð eins arðvænlega og skyldi, er þau voru ekki í strandferðum, og alt bendir á, að „Amortisation“ sje reiknuð af of hárri upphæð.

Þá er eitt, sem skiftir mjög miklu í öllu þessu máli, og það er, að fengið sje sem bezt samband á milli millilandaferðanna og strandferðanna.

Stjórnin hefur mikið að gera, og hana vantar sjerfróða menn. Hún hefur ekki haft tækifæri til þess að rannsaka flutningsþörfina, og það, hvernig heppilegast og hagfeldast sje sambandið á milli millilanda-ferðanna og strandferðanna. Nefndin hefur því komizt að þeirri niðurstöðu, að það sje nauðsynlegt, að veita stjórninni fje til undirbúnings á þessu máli. Og nefndin lítur svo á, að það fje, er til þess er varið, muni margborga sig. En til þess að koma því til leiðar, að sambandið sje sem æskilegast, þá þurfa bæði strandferðirnar og millilandaferðirnar að vera á einni hönd. Við það sparast sjerstakt umhleðslugjald og með því vinst meira samræmi í ferðaáætlunum og flutniugsgjöldum.

Nú er verið að stofna Eimskipafjelag Íslands, og það hafa verið teknir hlutir í því bæði úr landsveitum, sjávarsveitum og kaupstöðum. Og jeg hygg, að við samanburð muni koma í ljós, að landssveitirnar hafa lagt fram meira en sjávarsveitirnar. Í einu orði: þjóðin hefur tekið fjelagið upp á arma sína, og ekkert er því eðlilegra, en að alt fyrirkomulag fjelagsins verði sem mest sniðið eftir þörfum þeirra manna, sem hluti taka í því. En þetta verður gert með því einu móti, að fjelagið taki bæði millilandaferðirnar og strandferðirnar að sjer.

Strandferðirnar standa á stefnuskrá fjelagsins. Í útboðsskjali þess er sagt, að það sjái sjer að vísu ekki fært, að taka þær strax að sjer. Þetta var eðlilegt á því tímabili, sem fjelagið var stofnað, því að þá voru engin líkindi fyrir því, að það mundi fá svo mikið fje, að það gæti tekið þær ferðir upp á sína arma. En í frv. því, er hjer liggur fyrir, er fjelaginu heitið, að landssjóður taki í því hluti fyrir 400,000 kr., eða með öðrum orðum, þingið tekur í sama streng og þjóðin. Það vill standa fast bak við fjelag þetta, en þó með því skilyrði, að fjelagið taki strandferðirnar að sjer.

Nefndinni er það ljóst, að hagur fjelagsins er hagur landssjóðs, og hagur landssjóðs hagur fjelagsins í þessu efni. Taki fjelagið allar þessar ferðir að sjer, þá er samgöngumálahnúturinn leystur, þá eru opnaðar leiðir að því, að haga strandferðum vorum og millilandaferðum eftir þörfum landsins, og þá hverfum vjer loks að þeirri sjálfstæðisviðleitni, sem oss mun reynast hollust, þeirri viðleitni, að eignast þau fyrirtæki, sem í dýpsta skilningi snerta allan efnahag landsins. Taki nú fjelagið samgöngur þessar í sínar hendur, þá er fjelagið í orðsins fylsta skilningi orðið þjóðarfyrirtæki, og um leið er þá framtíð fjelagsins orðin trygð. Landssjóður bæði getur þá verið og á að vera því öflugur bakhjall. Hafi íslenzka þjóðin ekki ráð á því, að standast kostnaðinn af samgöngum sínum, þá eru allar sjálfstæðiskröfur vorar marklaust hjal. Taki fjelagið aftur á móti strandferðirnar ekki að sjer, og landssjóður verði því að taka þær á sína arma, þá getur hann ekki styrkt fjelagið á verulegan hátt. En þegar komið er að þessari niðurstöðu, þá er ágreiningur, er risið hefur í þessu máli, lítt skiljanlegur. Þessi ágreiningur er um skilyrði þau, er setja á við 40,000 kr. fjárveiting til fjelagsins.

Um þetta, að landssjóði sje það bezt og fjelaginu sje það bezt, að það hafi bæði strandferðirnar og millilandaferðirnar, eru samgöngumálanefndir beggja deilda á eitt sáttar. Meirihluti samgöngumálanefndanna vill, að þessi fjárveiting sje bundin því skilyrði, að Eimskipafjelagið hafi tekið að sjer strandferðirnar árið 1916, og var það samþykt hjer í háttv. deild við 2. umr. fjárlaganna. Þetta vilja sumir telja árás á Eimskipafjelagið, og eitt blað hjer í bænum, hefur þar tekið í sama streng. Þetta get jeg ekki skilið. Ef það er talið bæði landssjóði og Eimskipafjelaginu hollast, að það taki að sjer strandferðirnar, þá er það skylda þingsins, að beina fjelaginu inn á þá braut. Og jeg er viss um það, að þingviljinn og þjóðarviljinn hefur aldrei staðið fastara um neitt mál en þetta. Eins og vjer þingmennirnir erum fulltrúar þjóðarinnar í þessu máli, sem öðrum hjer, og verðum því að hafa hag hennar eingöngu fyrir augum, eins verður stjórn Eimskipafjelagsins að minnast þess, að hún einnig í þessu máli fer með þjóðarinnar fje, og hefur því einnig þá skyldu, að hafa hag þjóðarinnar eingöngu fyrir augum.

En jafnframt og þingið beinir fjelaginu inn á þessa braut, verður það að standa fast bak við fjelagið. En hefur þá fjelagið nokkra tryggingu fyrir að svo verði ? Jú, þá tryggingu hefur fjelagið í hlutafje því hinu mikla, sem fjelaginu er heitið í þessu frv. Þegar landssjóður er orðinn svo mikill hluthafi, þá verður hann, þó ekki væri nema vegna sinna eigin hagsmuna, að sjá fjelaginu borgið.

Frá því nefndin gekk frá frv., var ofurlítil breyting gerð á því í h. Nd. Er stjórninni gefið meira svigrúm til samninga við fjelagið. Samkvæmt því, sem upprunalega stóð í frv., þá máttu 2 strandferðaskipin ekki vera minni að lestarúmi og farrými en “Austri„ og „Vestri“, en nú er ekkert tekið fram um þetta í frv. af þeirri ástæðu, að búizt var við, að svo gæti farið, að hentugt væri að annað skipið væri stærra, en hitt smærra, og þá vont, að stjórnin væri bundin um þessi atriði, hinsvegar nægilegt, að skipin samtals væru ekki minni ,en ofangreind skip, Vjer viljum því leggja þessi atriði á vald stjórnarinnar. Við væntum þess, að landstjórninni sje það fullljóst, og hún skilji það, að henni sje hjer falið að fara með eitt hið stærsta mál þjóðarinnar.

Þá er að lokum eitt atriði, er hefur verið hreyft. Eimskipafjelagið hefur vakið athygli á því, að ekki sæist, hversu mikið atkvæðamagn væri ætlazt til þess að fylgdi hluta landssjóðs í fyrirtækinu. En þetta áleit nefndin að ætti að vera eitt af samningsatriðunum, og mun hún skýra það nánar í framhaldsnefndarálitinu.

Jeg vænti, að h. deild taki þessu frv. vel, eins og það á skilið, og jeg vil taka það fram, að með því að svo langt er liðið á þingtímann, þá geta jafnvel smábreytingar á frv. verið hættulegar.