19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (225)

59. mál, prentsmiðjur

Flutningsm. (Tryggvi Bjarnason):

Með þessu frumv. er farið fram á lítilsháttar breytingu á gildandi lögum um prentsmiðjur hér á landi. Þeim er nú skylt að láta landsbókasafninu, amtbókasöfnum og bókasafninu á Ísafirði o. s. frv. ókeypis í té eitt eintak af öllum bókum og blöðum, sem þær prenta. Hér er farið fram á að leggja ofurlítið meiri kvöð á prentsmiðjurnar, þannig, að þær láti einnig sýslubókasöfnum, einu í hverri sýslu, ókeypis í té það er þær prenta, þó með þeirri takmörkun, að landasjóður leggi til pappírinn. Það er nú kominn upp vísir til bókasafna í flestum sýslufélögum landsins og hefir þeim og lestrarfélögum í kauptúnum að undanförnu verið veittar 1500 kr. styrkur úr landssjóði. Um þennan styrk munaði mikið í fyrstu, meðan bókasöfnin voru fá, en síðan þeim fjölgaði, hefir styrkurinn til hvers einstaks bókasafns minkað að mun, og þó bætti stjórnarráðið við styrkinn 530 kr. árið 1910 og 300 kr. 1911. Þessi bókasöfn eiga erfitt uppdráttar vegna fátæktar, og þó að sýslusjóðir leggi þeim nokkurn styrk, þá hafa þeir svo mikið á sínu baki og styrkurinn því mjög takmarkaður, að söfnin munar ekki mikið um tillag þeirra. Þau hafa ekki nema 200–250 kr. til umráða á ári. Nú mun það vera viðurkent yfirleitt, að sýslubókasöfnin séu góð og nauðsynleg fyrir landsbúa og vona eg því að þetta frv. fái góðan byr hér í háttv. deild. Eg gat búist við, að sumum þætti ef til vill lögð nokkuð þung kvöð á prentsmiðjurnar með því að láta þær kosta ókeypis eintök til sýslubókasafnanna að öllu leyti, og hefi eg þess vegna lagt til, að landssjóður borgi pappírinn. Með þessu veður kvöðin ekki þung, því að það vita allir, að þegar einu sinni er búið að setja, þá munar minstu á verkinu, hvort prentað er nokkrum eintökum fleira eða færra. Það er því aðallega svertan, sem prentsmiðjurnar þurfa til að kosta. Svo er einnig sama ákvæði um afhendingu sem gilt hefir til þessa um afhendingu ókeypia eintaka til annara bókasafna.

Eg vona að frumvarpinu verði vel tekið og að það fái að ganga til 2. umr.