08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Guðm. Björnsson:

Jeg skal reyna að vera ekki langorður, og „tíminn er peningar“, og ekki sízt nú í þinglokin.

Það er 16. brtill. nefndarinnar við 15. gr. 29, sem jeg get ekki unað við. Þar er lagt til, að færa niður fjárveitinguna til Sigfúsar Einarssonar úr 1100 kr. niður í 900 kr. Segist nefndin hafa komizt að raun um, að hann hafi um 3000 kr. árstekjur. En þar hefur verið vilt um fyrir nefndinni.

Sigfús Einarsson hefur fengið 1200 kr. á ári til „eflingar og útbreiðslu sönglistar og söngþekkingar hjer á landi“ og enginn íslenzkur listamaður hefur unnið betur fyrir kaup sitt en hann. Jeg mun víkja að því síðar.

Hann er nú orðinn organisti dómkirkjunnar, og fær fyrir það 800 kr. árlega, og er það ekki nema hálft kaup, hjá því sem áður var, þar sem nú er messað tvisvar á hverjum sunnudegi. Aukatekjur hefur organistinn aðallega af jarðarförum. Þær eru hjer um bil 70 á ári í þjóðkirkjusöfnuðinum. Sjálfur verður hann að borga söngmönnum, og fær því ekki nema 3 kr. í sinn vasa fyrir hverja jarðarför, eða um 210 kr. á ári. Þá hafa organleikara jafnan verið ætlaðar á fjárlögunum 400 kr. fyrir að kenna organslátt og 100 kr. fyrir söng við opinberar guðsþjónustugerðir. Árstekjurnan eru því samtals 800 +210+400+100=1510 kr.

Nú er þess að gæta, að þó að Sigfúsi Einarssyni sjeu nú ætlaðar 1100 kr. á ári sem listamanni, þá er þar brögðum beitt, því að í þessum 1100 kr. felast nú þær 500 kr., sem honum eru ætlaðar fyrir kenslu og opinberar guðsþjónustugerðir. Hann fær því nú ekki nema 600 kr. á ári til „eflingur og útbreiðslu sönglistar“, þar sem hann áður fjekk 1200 kr. Og fastar árstekjur hans eru ekki 3000 kr., heldur um 1510 + 600 = 2110 kr.

Þar sem hann nú hefur svo mikil skyldustörf, þá er auðsætt, að hann getur ekki unnið sjer lengur mikið inn aukreitis, og mjer sárnar, að það skuli nú hjer í deildinni eiga að færa vísar tekjur hans úr 2100 kr. niður í 1800 kr., ætla listamanninum Sigfúsi Einarssyni ekki nema 300 kr. á ári !

Mjer er vel kunnugt, að Sigfús hefur altaf unnið baki brotnu, barizt með hreysti við erfið kjör. Hann er bláfátækur maður, en hefur þó helgað list sinni alla sína lífs og sálar krafta. Hann hefur samið ágætar kenslubækur, en bókagerð er arðlítil vinna hjer á landi. Hann hefur stjórnað alllengi bezta söngfjelagi landsins, og það leggur mestan hluta tekna sinna í sjóð, til að koma upp sönghúsi, svo að það er engin arðsvon fyrir Sigfús.

En þetta er þó ekki það, sem mestu varðar.

Sigfús Einarsson er skáld, hann er söngskáld.

Við eigum ágæt ljóðskáld og söguskáld. En það er óhætt að segja, að þau skara ekki að neinum mun fram úr þeim skáldum, sem á undan eru gengin.

En Sigfús Einarsson er ótvírætt langmesta söngskáldið, sem uppi er og nokkru sinni hefur uppi verið á þessu landi.

Hvað er það þá, sem Sigfús hefur fram yfir aðra sönglistarmenn vora og söngskáld? Jú — við höfum átt marga góða lagasmiði, en Sigfús er eina íslenzka söngskáldið. Við eigum urmul af þjóðlögum. En þau hafa legið á öskustóm — þau hafa öll verið talin ljót og leiðinleg. En loks kemur Sigfús til sögunnar, hann leysir þjóðlögin úr álögunum, reisir þau úr öskustónni, dustar af þeim ríkið, svo að nú sjá allir, að þarna höfðum við átt ófágaða gimsteina, dýrindisgripi, sem enginn kunni að meta, en eru nú að verða þjóðinni til yndis og ánægju — af því að Sigfús hefur fágað þá — fært þjóðlögin úr tötrunum í íslenzkan fegurðarskrúða.

Og þar að auki hefur hann ort mörg lög að nýju, sem öllum eru til ununar, af því að þau eru íslenzk, allir heyra, að þau eru íslenzk, láta þýðar í eyrum en útlendu lögin, rjett eins og móðurmálið er okkur hjartfólgnara og unaðslegra en nokkurt annað tungumál.

Við höfum nærri því skammast okkar fyrir rímnalögin („stemmurnar“). En svo kemur Sigfús Einarsson og leitar og finnur, að í þessum látlausu raustum felast undirómar af öllu því, sem er háleitast og fegurst í íslenzku hugarfari. Og þessa fögru undiróma heyrum við í mörgum nýju lögunum hans, t.d. þessum: „Yfir kaldan eyðisand“ og „Ofan gefur snjó á snjó“.

Sigfús Einarsson er einn ágætasti listamaður þjóðarinnar. Og enginn þeirra er meiri atorkumaður en hann.

Þesvegna sárnar mjer þessi tillaga nefndarinnar.

Ef jeg á að segja, hvar mjer finst mest til um af þeim listaverkum, sem við höfum eignazt á seinni árum, þá eru það sönglögin hans Sigfúsar og sögurnar hans Jóns Trausta.