08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Jón Jónatansson:

Jeg á hjer tvær brtill. Um þá fyrri, á þgskj. 769, þarf jeg ekki að fjölyrða, það er aðeins orðabreyting og háttv. framsögum. hefur þegar fallizt á hana. — Hin brtl. mín er á þgskj. 777. Háttv. framsm. gat þess, að nefndin viðurkendi, að fjárveitingarvaldið væri þegar komið á þá braut, að þessi brtill. væri engin fjarstæða, en hinsvegar gæti nefndin ekki aðhylzt hana, því að fyrirsjáanlegt væri, að viðlagasjóður mundi ekki hafa fje til þeirrar lánveitingar; sem brtill. fer fram á. Í öðru lagi gat hann þess, að nefndinni væri ekki kunnugt um, hvort undirbúningur málsins væri kominn svo langt, að tími væri kominn til þess, að fara að lána fje til fyrirtækisins. Ef háttv. deild hefði viljað, hefði hún getað fengið allar upplýsingar um það atriði hjá mjer. Það er satt, að ennþá er ekki komið svo langt, að byrjað sje á verkinu, en rannsókn hefur verið gerð og áætlun um, hvað verkið muni kosta. Þar eystra hafa menn hugsað mikið um þetta mál undanfarið. Fyrst vakti það helzt fyrir mönnum að nota vatnsafl, en seinna hurfu menn frá því, og nú hugsa menn eingöngu til að nota annaðhvort mótora, dieselvjelar eða þá vindinn, sem alt af er viðlátinn og aldrei bregzt. Það er alveg nýtt hjer að nota vindaflið til raflýsingar, en í Danmörku er það farið að tíðkast talsvert og er það prof. la Cour, sem hefur verið upphafsmaður að þeim tilraunum, sem þar hafa verið gerðar. Í fyrra sneru menn sjer þar austur frá til vindrafmagnsfjelagsins danska, og Ijet þá fjelagið gera áætlun um kostnaðinn við fyrirtækið. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að annaðhvort verði notað, vjelar eða vindur. Stofnkostnaðurinn verður jafn, hvort sem notað er, en reksturskostnaðurinn verður minni, ef vindurinn er notaður, og er það mikilsvarðandi atriði, þar sem þorpin eru allfjölmenn, en fólkið fátækt. — Jeg get fullyrt, að hvenær sem fje verður fyrir hendi, til þess að ráðast í verkið, þá verður það gert. Samskonar lánsheimildir, sem hjer er farið fram á, hafa oft staðið í fjárlögunum, þótt hæpið væri, að fje yrði til taks. Jeg get því ekki sjeð annað, en það væri meinlítið, þótt þessi brtill. væri samþykt, því að ef peningar ekki verða fyrir hendi, þá nær það auðvitað ekki lengra. — Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vona, að brtll. fái að fljóta með inn á fjárlögin.