08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Hákon Kristoffersson:

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær brtll., sem jeg á. — Brtll. á þgskj. 762 tek jeg aftur, en um brtll. á þgskj. 775, sem fer fram á, að styrkurinn til bátsferða um Breiðafjörð verði hækkaður uppi 9500 kr., verð jeg að fara nokkrum orðum. Jeg viðurkenni, að sú 9000 kr. styrkveiting, sem samþykt var við 2. umræðu, er til mikils gagns. En samt sem áður hef jeg farið fram á þessa hækkun, vegna þess að jeg hef fengið brjef frá útgerðarmanni mótorbáts þess, sem heldur uppi ferðum um Breiðafjörð innanverðan og vestanverðan. Þar hagar svo til, að stærri skip geta ekki gengið þar, nema hvað ætla mætti, að strandferðabátar fáist til að fara inn á Króksfjörð eftirleiðis, sem þó verður að telja fremur von en vissu. En þar sem það má teljast afar áriðandi, ekki einungis fyrir nokkurn hluta Barðastrandar eystra, heldur og fyrir vestari hluta Dalasýslu, að svo verði, vænti jeg, að háttvirt stjórn hlutist til um það, að sem haganlegastar ferðir fáist á Gilsfjörð (Króksfjarðarnes og Salthólmavík) á næsta ári. Þeir sem þekkja til í austari hluta Barðastrandarsýslu, munu geta sannfærzt nm það, að aðflutningar á landi eru þar afar erfiðir. Því verða þeir, er þar búa, að flytja sem mest að sjer á sjó; það hlýtur því að vera öllum ljóst, hve afar áríðandi er fyrir þá menn að fá sem haganlegastar mótorbátsferðir, en þær fást ekki, ef styrkurinn er aðeins 1000 kr. Því vona jeg, að hin háttv. deild, fallist á brtill. mína á þingskj. 775, því jeg treysti því, að Barðastrandarsýslubúar verði látnir njóta sömu sanngirni og menn annarsstaðar. Útgerðarmaður bátsins hafði fyrir nokkrum árum 2000 kr. úr landssjóði, en í ráðherratíð Kristjáns Jónssonar var styrkurinn færður niður í 1000 kr. Af hverjum ástæðum það hefur verið gert, veit jeg ekki, það hefur ef til vill verið af ókunnugleika og ef til vill líka af öðrum á stæðum. Á þessu fjárhagstímabili hefur báturinn ekki nema 1000 kr. Afleiðing arnar af því, hvað styrkurinn er lítill, eru fyrst og fremst þær, að ferðirnar eru nú dýrar og óhagstæðar. Nú hefur eigandi bátsins, Guðm. Bergsteinsson, mælzt til þess í brjefi til mín, að styrkurinn verði færður upp í 2000 kr. Jeg áleit, að ekki mundi hægt, að fá svo mikilli hækkun framgengt og hef því aðeins farið fram á 500 kr. hækkun. Jeg get auðvitað ekki láð hinni háttvirtu fjárlaganefnd, að hún hefur ekki viljað taka þessa brtill. til greina, þar sem hún upphaflega hafði farið fram á, að styrkurinn til bátaferða á Breiðafirði væri lækkaður til muna. En jeg vona þó, að flestir sjái, að það væri rjettlætingarvert að samþykkja þessa brtll.

Þá vil jeg minnast á þgskj. 779, sem fer fram á, að Sigurði regluboða Eiríkssyni verði veittur 300 kr. styrkur. Jeg vil mæla með þeirri brtll. Sigurður Eiríksson hefur starfað að útbreiðslu GoodTemplarareglunnar síðastliðin 15 ár og innt starf sitt vel af hendi. Hann er nú kominn á efri ár, og er orðinn óvanur erfiðisvinnu. Jeg hygg, að alþingi hafi veitt mörgum styrk, sem ekki eru betur til þess komnir. Jeg vona því, að brtll. verði vel tekið. — Þá er brtll. á þgskj. 781, um að veita 4000 kr. til þess, að gefa út bók Einars próf. Arnórssonar um rjettarstöðu Íslands, á þýzku. Eins og allir vita, reyna nú Danir að rengja sjálfstæðisrjett vorn í þýzkum blöðum og tímaritum, og sýndist því sannarlega vel til fallið. að þetta rit kæmi út á þýzku. Það gæti leitt til þess, að útlendingar fengju rjettari hugmyndir um rjettarstöðu vora. — Loks ætla jeg að minnast á brtill. frá háttv. 1. kgkj., á þgskj. 755, um að hækka skáldalaunin til Einars Hjörleifssonar, Þorsteins Erlingssonar og Guðm. Magnússonar. Mjer kom þessi brtll. talsvert á óvart, því að jeg hjelt, að sitja mætti við það, sem ofan á varð við 2. umr. Jeg vil spyrja: Því tók hv. þm, ekki Guðmund Guðmundsson með ? Þar sem jeg verð að halda því fram, að nóg sje aðgert, hvað þetta snertir, þá vil jeg lýsa því yfir, að jeg get ekki greitt brtll. þessari atkvæði mitt.

Þegar umræður höfðu staðið til kl. 3, frestaði forseti umræðum til kl. 5 síðd.

Kl. 5 síðd. hófust umræður aftur.