08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Eggerz:

Jeg á enga brtill. og get því orðið stuttorður. H. fjárlaganefnd tók svo í brtill. þær, sem jeg kom fram með við 2. umr., að jeg hef ekki treyst mjer að koma með fleiri, Eiginlega er það óþarfi af mjer, að vera að standa upp, því að h. þm. Skagaf. hefur tekið það fram, sem jeg vildi segja, því ástæðan til þess, að jeg stóð upp, voru ummæli h, þm. Ísaf. um eitt af þeim 3 skáldum okkar, sem farið er fram á að styrkurinn verði hækkaður við. Jeg lít svo á, að þau sjeu öll 3 alls góðs makleg, og það virðast allir sammála um það, að því er snertir 2 af þeim, Einar Hjörleifsson og Guðmund Magnússon, og minnist jeg sjerstaklega eins atriðis úr „Fylgsninu“, eftir hinn síðarnefnda höf., sem mjer finst vera sannkallað meistaraverk, þar sem sagt er frá för ekkjunnar á Kroppi.

Og jeg skal geta þess, að jeg dæmi skáldin ekki eftir því, hvað mikið liggur eftir þau, heldur eftir því, hvar þau komast hæzt. Að því, er snertir Þorstein Erlingsson, þá vildi h. þm. Ísaf. gera minna úr honum, og tók það fram, að sem faðir vildi hann ekki láta börnin sin lesa kvæði hans. Jeg vildi óska, að enginn faðir hjer á landi. hefði verra fyrir börnum sinum en það, sem Þorsteinn Erlingsson hefur ort. Kannast ekki allir við Sólskríkjuna, og getur nokkur bent á fegurra ættjarðarkvæði en þetta kvæði hans „Þú ert móðir vor kær“. Það mun ekki svo auðvelt að benda á kvæði, sem taka þessum fram. Þetta skáld hefur ort mörg önnur góð kvæði, en jeg ætla ekki að fara að telja þau öll upp, en vil aðeius með leyfi hv. forseta leyfa mjer að lesa upp 3 erindi, úr „Eiðnum“, sem jeg skal kenna börnum mínum fyrst af öllu, og jeg vildi vita, hvort nokkur er sá hjer inni, sem hneyxlast á þeim. Þau hljóða svo:

Vængur á víða geima;

vor og sólskin sækja þá

sunnan yfir fjöllin blá.

Einn er eftir heima.

Sumarið hans er helzt að koma og dreyma.

Þau mega singja sól á tind,

og sigla hlýjan morgunvind.

Vængur á víða geima.

Þeir mega ótal augu sjá,

upp til þeirra mæna og þrá.

Einn er eftir heima.

sumarið hans er helzt að reyna að gleyma

„Ljúfir fingur laufið það,

leggja í haust á sama stað“,

Vængur á víða geima.

„Brúðkaupsnóttin bjarma sinn

breiðir á vetrardrauminn þinn“.

Einn er eftir heima;

sumarið hans er sælt að muna og dreyma.

Ef þetta kvæði er ekki perla, þá kann jeg ekki perlur að þekkja. Og jeg er viss um það, að þótt við sjeum miklir menn, sem sitjum hjer á þingi og ráðum fjárlögunum, þá munum við fyrir löngu vera hnignir að foldu og gleymdir þegar sungið verður

Þú ert móðir vor kær

og því engum gleymt.