08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Sigurður Stefánsson:

Tveir háttv. þm. hafa andmælt ummælum mínum um Þorstein Erlingsson, en það hefur ekki breytt skoðun minni, enda hafa þeir alveg gengið fram hjá aðalástæðu minni. En mjer dettur ekki í hug að kappræða þetta mál við háttv. þm., því það er alt af óviðkunnanlegt að deila um fjarverandi menn. En mjer getur ekki dulizt það, að þessi maður er ekki jafn maklegur þeim skáldunum Guðm. Magnússyni og Einari Hjörleifssyni. Þeir hafa sýnt, að skáldgyðjan býr enn hjá þeim, og þeir hafa síðustu ár sent út skáldrit, er hafa verið bæði þeim og þjóðinni til sóma.

En Þorsteinn Erlingsson hefur verið þögull söngfugl nær alla tíð síðan hann komst á landssjóðinn. Jeg hef aldrei sagt, að hann hafi aldrei ort falleg kvæði, eða að jeg vildi fela þau öll, en jeg sagði, að þau væru mörg kvæðin hans, er jeg teldi ekki holl fyrir æskulýðinn og vildi ekki? ráða æskulýðnum að lesa.

Jeg get ekki sjeð, að þessi heiðursmaður vinni nú jafnmikið fyrir þeim launum, er hann hefur, og hin tvö skáldin, Einar Hjörleifsson og Guðmundur Magnússon. Ljóðadísin er farin að slá slöku við hann.

Úr því jeg stóð upp, vildi jeg minnast á brtill. háttv. þm. Barð. (H. K.) um að gefa út á þýzku bók Einars prófessors Arnórssonar um rjettarstöðu Íslands. Jeg hef að vísu ekki lesið þessa bók, og þó svo væri, brestur mig þekkingu til þess að dæma hana, en hitt vildi jeg taka fram, að verðlaunanefnd Jóns Sigurðssonar sjóðsins hefur sæmt hana verðlaunum, og í þeirri nefnd sitja fullfærir menn í þeim efnum, og vil jeg þar sjerstaklega nefnd prófessor Björn M. Olsen, sem sjerstaklega hefur lagt stund á þau fræði, er að þessu efni lúta, og legg jeg mjög mikið upp úr hans dómi, eins og jeg líka met mikils dóm hinna, sem báðir eru merkir og fróðir menn, og jeg veit að hafa líka grandskoðað bókina. En ytra veit jeg ekki til, að neinn hafi ritað um bókina, nema Nic. Gjelsvík, og staðfesta þau ummæli fyllilega dóm verðlaunanefndarinnar. Hann segir meðal annars í brjefi til höfundarins á þá leið, að örðugt muni vera að hrekja þau rök, er Einar færir fyrir því, að Ísland sje að lögum sjálfstætt ríki.

Þetta eru ummæli þessa manns, er allir verða að taka mikið tillit til. En hversu mikils virði væri þá ekki að fá bókina á önnur mál, einkum þegar einn mikilsvirtur danskur vísindamaður er alt af að prjedika fyrir heiminum, að Ísland eigi engan slíkan rjett. Mjer finst þá ekki nema rjett, að aðrar þjóðir fái að sjá þessa bók, svo þær geti skoðað málið frá fleiri en einni hlið. Það er skylda vor að styðja að því, að mentaþjóðir heimsins geti kynt sjer bókina, og þetta sje ekki annað, en að styðja rjett vorn og skoðun vora og efla fróðleik annara þjóða á oss, En þær geta ekki kynt sjer bókina, ef hún að eins er á íslenzku. Jeg mun því greiða atkv. með þessari brtill.

Þá hefur háttv. þm. Barð. (Hák. Kr.) komið fram með aðra brtill. um að veita Sigurði regluboða Eiríkssyni ellistyrk. Jeg kannast fúslega við það, að Sigurður Eiríksson á alt gott skilið fyrir að útbreiða bindindi, og Góðtemplarareglan hefur gert mikið gagn, svo Góðtemparareglan ætti að styrkja hann eftirleiðis. En nú víkur því svo við, að Góðtemplarareglan hefur í gert það að verkum, að bannlög komast á, og þá er verkahringur hennar bráðum úti, og hún hefur ekki neitt að gera lengur. Góðtemplarareglan hefur því í raun og veru kipt með því undan sjer fótunum, enda munu tekjur hennar óðum þverra. Maðurinn er góðs maklegur fyrir bindindisstarfsemi sína, og hins vegar mun hann orðinn lítt fær til vinnu, og því hygg jeg, að það geti ekki hneyxlað neinn, þó honum verði veittur þessi litli styrkur.

Loks skal jeg minnast á styrkinn til Þórarins Guðmundssonar. Því hefur verið haldið fram, að faðir hans væri efnaður, og því óþarfi að styrkja hann. Jeg hygg það muni harla vafasamt, hvað efnaður faðir pilts þessa er. En hvað sem því líður, þá er hljóðfæralist sú, sem Þórarinn stundar, svo einstæð hjer á landi, að því mun ekki illa tekið, þótt honum sje veittur ofururlítill skyrkur, og það því fremur, sem pilturinn kvað vera óvenju efnilegur til þessa náms.