08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Steingrímur Jónsson, framsögum:

Jeg er svo heppinn, að þurfa ekki að þessu sinni að segja margt sem frsm. Umræðurnar hafa mest snúizt um annað en brtll. nefndarinnar, og svo hafa meðnefndarmenn mínir mikið tekið af mjer ómakið.

Nokkrar athugasemdir verð eg þó að gera; og er það þá fyrst, að eftir samráði við meðnefndarmenn mína tek jeg aftur 21. brtill. nefndarinnar við 19. gr. um endurgjaldið fyrir aukakostnað vegna Skeiðarárhlaups til Sigurðar sýslumanns Eggerz (S. E: Jeg tek hana þá upp aftur).

Þá er að minnast á ummæli h. þm. Húnv. (Þ. J.) um Svínavatnsveginn. Jeg neita því ekki, að nauðsyn bæri til að leggja til fje til þess vegar, því jeg veit að hann er vondur; en nauðsynjarnar eru margar, ekki sízt í Húnavatnssýslu. Jeg held þingið hafi tekið svo vel undir bænir Húnvetninga, að þeir hafi ekki mikla á stæðu til að kvarta, og þar er enn margt ógert, sem þinginu er enn skyldara að styðja en vegagerð þessa. Það liggur en nær að hlynna að því, að akbrautin um Húnavatnssýslu komist sem fyrst af, að Blönduósbryggjan geti orðið nothæf, og að Hvammstangaveginum sje lokið. Samanburður h. þm. (Þ. J.) á Svarfaðardalsveginum og Svínavatnsveginum var ekki allskostar rjettur. Að vísu er Svarfaðardalsvegurinn hreppsvegur, en þar stendur mjög sjerstaklega á. Vegurinn liggur eftir afarlöngum og þröngum mjög þjettbygðum dal, þar sem búa um 1000 manns. Þegar fjárveitingin til vegar þessa var fyrst samþykt, þá var málið þannig undirbúið, að Svarfdælingar höfðu heitið að leggja á sig allþungan skatt til vegagerðarinnar um 10 ár, ef þingið vildi hlaupa undir bagga með þeim, og varð þetta að einskonar samningi. Jeg hef ekki orðið var við, að Svínavatnshreppsmenn hafi farið líkt að; þó veit h. þm. (Þ. J.) það, að jeg varð ekki fyrstur til að leiða þennan asna inn í herbúðirnar. H. 1. kgk. (J. H.) hefur minzt á skáldin og er jeg honum í flestum atriðum samdóma. H. 6. kgk. talaði mikið um niðurfærsluna á styrknum til Sigfúsar Einarssonar. H. 5. kgk. (B. Þ.) hefur svarað því og skýrt frá ástæðum fyrir niðurfærslunni.

Háttv. þm. Ísafjk. (S. St.) mintist á skáldin, sjerstaklega á Þorstein Erlingsson. Jeg ætla ekki að fara að deila við háttv. þm. (S. St.); þó get jeg alls ekki verið honum samdóma, jeg get ekki gert lítið úr þeim sterku áhrifum, sem Þorsteinn hefur haft á þjóðina. En þótt þessi áhrif, sem jeg tel góð, sjeu mest frá kvæðum, sem ort hafa verið fyrir aldamótin, þá halda þó áhrifin áfram, og við erum ekki enn búnir að sjá alt, sem Þorsteinn Erlingsson hefur ort. Hann á enn mikið í fórum sínum, sem ekki hefur komið fyrir almenningssjónir. Það getur verið, að honum sje ekki orðið eins ljett um tungutak, eins og honum var, þegar jeg þekti hann fyrir 16–17 árum síðan. En jeg veit, að það liggur fyrir honum mikið starf, að fæga og setja í þann fyrirmyndarbúning, sem honum er einkennilegur, ýmislegt af því, sem hann hefur ort fyrir alllöngu síðan. Jeg get því ómögulega sætt mig við, að hann sje settur á 18. gr., því við vinir hans vonum, að hann eigi enn mikið óunnið fyrir þjóð sína, sem fram muni koma á sínum tíma. Jeg vil því styrkja hann sæmilega.

Jeg hef áður gert grein fyrir styrknum í til Þórarins Guðmundssonar, og jeg sje ekki ástæðu til að tala fleira um hann. Það hafa margir minzt á styrkiun til bifreiðarinnar austur; en mjer finst ýmsum ekki vera það Ijóst, hvað fyrir nefndinni vakti með hann, og háttv. neðri deild; það, sem fyrir oss vakti, var að gera fullkomna tilraun með það, að hverju haldi bifreiðar gætu komið til flutninga á vegum vorum; og þá má ekki nema styrkinn svo við nögl, að hann verði alls ekki eftirsóknarverður, eða tilraunin kák eitt. Við sjáum, hve oft bifreiðin, sem hefur verið hjer á ferð í sumar, hefur bilað, og vitum, að það hlýtur að hafa gengið mikið fje til viðgerða á henni.

Til þess að fullnægja skilyrði því, sem sett er, verður sá, sem styrkinn fær, að hafa í fórum sínum vöruflutningavagn, sjálfsagt nokkuð dýrari en mannflutningavagn, og varla minna en tvo mannflutningavagna; þetta alt kostar mikið fje, og allmikil áhætta því samfara, þar sem þetta er fyrsta tilraunin hjer á landi. Af þessum ástæðum, tekur nefndin aftur brtill. sína (G. G.: Jeg tek hana þá upp) Sveinn Oddsson hefur lýst því yfir við nefndina, að það væri jafn óaðgengilegt fyrir sig að byrja á fyrirtækinu, hvort sem veittar yrðu 3600 kr. eða 2000 kr. Og þá vil jeg ekki, að látið sje standa á þessum 1500 kr. um það, hvort tilraunin sje gerð eða ekki. Það er ekki hægt að segja með vissu fyrirfram, hver árangur verður af henni, en það er mikilsvert, að hún sje gerð.

Jeg hef áður tekið fram skoðun mína á brtill. háttv. þm. Árn. (J. J.) um lánveitinguna til raflýsingar á Stokkseyri og Eyrarbakka. Mjer finst það ekki rjett að vera að setja inn í fjárlögin heimildir til lánveitinga, þegar fyrirfram er vitanlegt, að eigi muni fje fyrir hendi til lánveitinganna. Hið einasta, sem af því gæti leitt, væri það, að toga mennina með tálvonum út í fyrirtækið. Það er annars undravert, hve óhugsandi mönnum finst það vera, að fá lán úr bönkum til slíkra fyrirtækja sem þetta. Mjer finst eftir upplýsingum háttv. þm. (J. J.) málið vera. komið svo skamt á veg, þar sem ekki er einu sinni ráðið, hvort nota skuli vindmótor eða olíuvjel, að það geti að skaðlausu beðið til þingsins 1915.

Jeg hef áður talað um Breiðafjarðarbátinn, og þrátt fyrir það, þótt orð háttv. þm. Barð. (H. Kr.) væru svo sanngjörn, að freisting gæti verið að ganga til móts við hann, þá getur nefndin þó ekki gert þessum bát hærra undir höfði en öllum hinum.

Þá talaði háttv. þm. Barð. (H. Kr.) um eftirlaunin til Sigurðar Eiríkssonar regluboða — því eftirlaun eru það. — Það er hægt að tala margt með þessu, og jeg er máske ekki á móti þessari tillögu, en þó verð jeg að taka í sama strenginn sem háttv. 1. kgk. (J. H.), að það er ástæða til að reyna að takmarka það, sem lendir á 18. gr. Sjerstaklega ætti það að vera athugavert fyrir þá, sem eru á móti eftirlaunum, en það er jeg ekki; — það er athugavert segi jeg, að á hverju þingi er nýjum mönnum bætt inn á þessa grein, og það ekki að tilhlutun stjórnarinnar, heldur fyrir tilstuðlun einstakra þingmanna. Það starf, sem þessi maður hefur unnið, er sjálfsagt gott og mikilsvert. En jeg skil ekki vel í, að þörf sje á að svo stöddu að setja hann á eftirlaun, því að jeg veit ekki til, að Góðtemplarafjelagið sje enn dautt. Það er satt, að bannlögin hafa gert það að verkum, að dofnað hefur yfir fjelaginu. Það var sagt, þegar bannlögin komust á, að enn ætti fjelagið mikið starf óunnið; og ef bannlögin verða upphafin, þá verður starfið margfalt meira, og jeg býst við, að alþingi mundi halda áfram að styðja þetta starf. Mjer sýndist því í raun og veru rjettast, að eftirlaunin kæmu frá Góðtemparafjelaginu. Jeg vona menn taki þó ekki orð mín svo, að jeg álíti þennan mann óverðugri eftirlauna, en ýmsa aðra, sem á 18. gr. standa, og er jeg þó ekki sjerlega ánægður með bannlagaagitationina á árunum 1907 til 1909. Jeg hef gert svo ítarlega grein fyrir ástæðum nefndarinnar fyrir því, að færa niður styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar, að jeg finn eigi ástæðu til að bæta þar við.

Finn jeg ekki þörf á að tala meira fyrir nefndarinnar hönd, en mun sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á brtill, annara háttv. þingdeildarmanna.