08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Hákon Kristoffersson:

Jeg ætla ekki að vera langorður, en vildi segja nokkur orð viðvíkjandi styrknum til Sigurðar regluboða Eiríkssonar, sem h. 1. kgk. og h. þm. Ísaf. kölluðu eftirlaun. Jeg álít, að h. 1. kgk. þm. hafi um mörg ár verið dugandis embættismaður, enda nýtur hann nú þess, og er því óþarfi fyrir hann að blanda þessu saman við eftirlaun. H. frsm. kvað slíkum bitlingum fjölga með hverju þingi. Þetta er alveg rjett, og hv. fjárlaganefnd hefur jafnvel tekið þá upp í brtill. sína núna til þessarar umr. Þar sem sagt hefur verið, að reglan eigi að styrkja hann, þá er hún í stórskuldum og hefur nóg við það fje að gera, sem landssjóður leggur henni:

Þá vildi jeg segja örfá orð um brtill. h. fjárlaganefndar á þgskj. 778, um að veita fje til að brúa 2 ár nyrðra. Þegar við 2. umr. fjárlaganna var mikið talað um að brúa eina af stærstu ám landsins, en það fjekk ekki góðan byr hjá h. fjárlaganefnd, en nú kemur hún sjálf með till., sem hækka gjöldin um margar þús. kr. Eftir kostnaðinum við þessar brúargerðir hljóta þessar ár að vera smáar, en það er nóg af þeim á Vesturlandi í það minsta og viðar, sem þörf er á að brúa. Jeg vil í sambandi við þetta og fleira benda á, að þessi landsjóðsbelja, sem þingmenn hafa reynt hver í kapp við annan að hreyta sem bezt, er löngu orðin steingeld, og væri því vert, að þingmenn, hver um sig, ljetu sjer nú nægja með það, sem þeir hafa fengið.

H. þm. Hún. kvað sína sýslu setta hjá, samanborið við aðrar sýslur. Þetta álít jeg ekki rjett hjá h. þm. Þó hún (Húnvs.) hafi ekki fengið önnur eins ósköp og t. d. S.Múlasýsla, þá held jeg þm. megi vel við una, hvað hann og fleiri hafa getað aflað vel handa henni. Þess má líka geta, að það á að vera hlutverk þm. að líta á, hve brýn þörf er fyrir fje til fyrirtækisins, án tillits til þess, í hvaða sýslu það er, sem gera þarf.