09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Hákon Kristoffersson:

Frv. kann að virðast í fljótu bragði lítils virði. En ef það verður samþykt, tel jeg þá farið inn á varhugaverða braut. Hjer munu fleiri bænir á eftir fara, og getur þetta orðið til þess að hluta jörðunum sundur. En mjer er spurn: Hví er presturinn að biðja um þetta, ef landið er ekki nothæft, ef það verður ekki ræktað, og engar skepnur fá þrifizt þar? En hvar eiga skepnurnar, sem bletteigandinn á, að vera? Hljóta þær ekki að ganga í Kolfreyjustaðarlandi? Enda þótt flúðir sjeu nú við sjóinn, má ef til vill seinna gera þar uppsátur.

Háttv. framsm. skírskotaði til, að meiri hluti hjeraðsfundar hefði verið málinu fylgjandi. En með hvað miklum meiri hluta var það samþykt. Það vantar að vita það. Jeg heyrði það sagt um mál, er hjer var á ferðinni fyrir skemstu, að það hefði verið samþykt með miklum meiri hluta í hjeraði, en það var samþ. með atkvæði sýslumanns tvöföldu. Það fer fjarri því, að jeg geti ekki unt prestinum þessa bletts, en jeg óttast afleiðingar, er af þessu kunna að rísa.

Í Haga, þar sem jeg bý, er t. d. holt skamt frá bænum. Þó þar sje ekki verulegur gróður nú, vildi jeg samt ekki að það stykki yrði selt undan jörðinni.

Það er talað mjög varlega um beitina á þessum bletti, sem hjer er um að ræða. En hjer getur ýmislegt verið, sem nýtilegt er við þetta land, sem þingmönnum er ekki kunnugt um. Mjer dettur ekki í hug að ætla annað, en eitthvað sje við þennan blett, er gerir hann verðmætan.