09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Eiríkur Briem:

Það er út af orðum háttv. þm. Barðstrendinga, að jeg stend upp. Hann gat þess, að sjer væri illa við, ef nýbýli væru stofnuð í sínu landi. Því gat jeg vel trúað, ef land hans yrði fyrir ágangi af þeim sökum; en ef nýbýlislandið væri vel girt, þá þyrfti hann ekki að hafa nein óþægindi eða ónæði af því. Mjer þykir sennilegt, að prestinum á Kolfreyjustað gangi ekki hagsmunahvatir til að vilja eignast þessa landspildu. Ástæðan mun vera sú, að hann hefur verið þarna lengi og vill halda áfram að vera þar, þó að hann segi af sjer. En það sýnist mjer sjálfsagt, að landspildan verði aðeins seld með þeim skildaga, að hann afgirði hana, svo að ábúandinn á Kolfreyjustað verði ekki fyrir neinum ágangi eða óþægindum.