09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Einar Jónsson, framsm.:

Jeg veit ekki, hvort jeg á að taka þessi síðustu lofsamlegu orð háttv. þm. Barð. til mín, en ef svo er, þá hef jeg því miður tæpast unnið til þeirra. Að minsta kosti hef jeg ekkert gert til að afla málinu fylgis, nema að því leyti, sem jeg hef nú mælt hjer með því, og veit ekki til, að nokkuð sje fyrir fram ákveðið um örlög þess.

Girðinguna álít jeg svo sjálfsagða vegna umsækjandans sjálfs, að nefndinni datt ekki í hug að setja neitt ákvæði í þá átt í frv. Hv. þm. Barð. gat þess, að umsækjandanum mundi leika hugur á þessari landspildu vegna þess, að hann ætlaði sjer að stunda sjó. (Hákon Kristoffersson: Það sagði jeg ekki !). Jeg skildi hinn háttv. þingm. svo, að jeg hygg, að þetta sje rjett, því að vitanlega getur hann ekki lifað eingöngu á þessum litla bletti, þó að hann rækti hann vel. Hann hefur sjálfsagt valið þennan stað, af því uppsátur er í hinni víkinni, sem er rjett hjá. Jeg hef einmitt heyrt, að kaupbeiðandinn hafi verið hneigður fyrir sjó, og býst jeg því við, að þetta sje tilgangur hans.