09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

58. mál, hvalveiðamenn

Sigurður Stefánsson, framsm.:

Jeg skal ekki þreyta deildina með langri framsöguræðu. Nefndin hefur fallizt á að ráða deildinni til að samþykkja frv.

Ástæður hennar fyrir því má sjá í nefndarálitinu á þgskj. 663. Jeg býst við, að hefði þetta frv. verið borið fram fyrir nokkrum árum, þá mundi eigi hafa blásið byrlega fyrir því, því að þá hefði burtför Norðmanna haft í för með sjer mikla tekjurýrnun fyrir landssjóð og tjón fyrir einstök hjeruð. En úti eru þessar ástæður að mestu að hverfa, og verða líklega alveg horfnar, áður en lögin koma í gildi. Hvalveiðamönnunum fækkar nú stórum. Áður græddu þeir offjár á veiðum sínum hjer við land; en nú er komin stór breyting á þetta. Hvaladrápið hefur verið svo mikið, að hvölum hefur stórfækkað, og hins vegar hafa þeir líka orðið svo styggir vegna veiðanna. Það er því svo komið nú, að hvalveiðin þykir ekki borga sig fyrir hina fáu hvalveiðamenn, sem eru eftir. Og þó t. d. einn yrði eftir af þeim þrem hvalveiðamönnum, sem nú munu stunda veiði á Austfjörðum, við árslok 1915, þá álítur nefndin kosti frv. svo mikla, að ekki sje í það horfandi, þótt landssjóður misti nokkurra þúsund króna tekjur af hvalveiðunum.

Það er kunnugt, að flestar þjóðir telja þessa „Rovdrift“ — að jeg viðhafi þetta útlenda orð — hvorki heppilega nje þjóðræknislega; þykir það lítill búhnykkur, að þessum dýrum sje gereytt eða þau flæmd burt.

Ef hvalveiðarnar leggjast niður, þá má búast við, að hvölunum fjölgi að nýju, og hafið gerist aftur hvalauðugt hjer við land. Þá má búast við, að útlendingar leiti hingað til veiða, og verður þá örðugra að koma þeim burt aftur, þótt vjer vildum.

Því er nú rjett að nota tækifærið, og fyrirbyggja með higum afturkomu þeirra. Þótt ekki hjeldi nema eitt fjelag áfram veiðunum hjer, þá gæti orðið tjón að því; ekki eingöngu fyrir það, að hvalir væru drepnir, heldur engu síður af því stygð kæmi að hvölunum við veiðina, þeir mundu fælast hjeðan og hverfa algerlega.

Ýmsir sjómenn halda því fram, að hvalveiðar spilli fyrir síldveiði á fjörðum, sem víða er mikilsvirði, með því síldarskorturinn dregur aftur úr þorskveiðunum, þar sem síldin er aðalþorskbeita hjer á landi. Jeg hef ekki verið trúaður á þetta . Þó veit jeg það, að Norðmenn, sem eru manna fróðastir um fisk- og síldarveiðar og göngur þeirra fiskitegunda, hafa fyrir 10 árum bannað hvalveiðar hjá sjer af þessum ástæðum, og hef jeg heyrt, að þeir hafi í ár endurnýjað bannið og útilokað hvalveiðar hjá sjer um næstu 10 ár.

Þess er að geta, að margir innanþings og utan eru hræddir um, að þessir fáu hvalveiðamenn, sem hjer eru eftir, muni gera skaðabótakröfur, ef þeim er bönnuð veiðin, og landssjóður verða útlægur um mikið fje. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um þetta. Þó skal jeg benda á, að ekki munu hvalveiðamenn í Noregi hafa gert neinar skaðabótakröfur. þegar þeim var bönnuð veiðin þar.

Nefndin gerði það, sem hún gat, til að fá vissu um þetta. Hún reyndi fyrir milligöngu norska ræðismannsins hjer að fá símleiðis upplýsingar um það, hvort krafizt hafi verið skaðabóta, og eins um hitt, hvort málinu hafi verið skotið til dómstólanna, ef skaðabótakröfur hafi verið gerðar, og ef svo hefur verið, hvernig farið hafi. Ræðismaðurinn kveðst hafa sent skeytið, og er nú því nær mánuður liðinn síðan, en ekkert svar komið. Það má geta þess til, að norska stjórnin hafi ekki talið sig geta gefið svar, eins og hún hefði óskað landa sinna vegna, og því látið vera að svara. Þó er það nokkuð undarlegt, þar sem ræðismaður hennar var fenginn til að flytja málið, enda er þetta ekki annað en getgáta. Það hefði ef til vill verið rjettara að snúa sjer til landstjórnarinnar og biðja hana að leita upplýsinganna; en nú verður að sitja við það, sem komið er.

Jeg skal geta þess, að þegar hvalaveiðamennirnir norsku leituðu álits lögfræðisdeildarinnar við háskólann í Kristjaníu, fengu þeir það svar, að ekki væri líklegt, að þeir gætu fengið skaðabætur fyrir það, að þeim voru bannaðar hvalveiðar við Noreg. Mun þetta hafa haft þau áhrif, að þeir hafa ekki gert neinar skaðabótakröfur. Auðvitað gæti hjer ekki verið um aðrar skaðabætur að ræða en í hæsta lagi fyrir hús þau, er þeir eiga á hvalveiðastöðunum: eða öllu heldur efni þeirra. Jeg get ekki sagt, hvað mikið mundi þurfa að borga fyrir þau, enda ólíklegt að til þess komi, þótt ekki sje af öðru en því, að ólíklegt er annað, en að þeir fari bráðlega hjeðan, þar sem þeir kveina einlægt yfir tapi.

Háttv. þm. N.-Múl. (E. J.) gat ekki orðið okkur hinum nefndarmönnunum samferða. Hann vildi lengja frestinn til 1. október 1916, með því að þá væri enn meiri líkindi fyrir, að hvalveiðamennirnir væru fluttir burt, og þá kæmi ekki til neinna skaðabótakrafa. Meiri hluti nefndarinnar var ekki hræddur við þessar skaðabótakröfur, og fanst því ekki ástæða tif að hafa frestinn lengri, en hann er ákveðinn í frv.