09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

58. mál, hvalveiðamenn

Einar Jónsson:

Það sem fyrir mjer vakti, er jeg skrifaði undir nefndarálitið og kom með brtill. mína, var það, að gera frestinn lengri fyrir hvalveiðamennina til að flytja burt, og til að fyrirbyggja það, að þeir geti krafizt skaðabóta, sem sumir óttast að þeir hafi rjett til.

Ef þingið 1915 vill annaðhvort gjöra breytingu á þessum lögum eða fella þau úr gildi, þá er þessi frestur nægur til þess. Ef fresturinn er bundinn við 1. okt. 1915, þá yrðu hvalveiðamenn að flytja burtu á því ári, og þingið 1915 gæti ekki fyrirbygt stórbótakröfur, ef til þeirra gæti komið. En ef fresturinn er settur til 1916, þá eiga þeir ver aðstöðu með að heimta skaðabæturnar, enda þá sennilegt, að flestir verði hættir veiðum, eftir því sem af þeim er látið nú. Svo gæti þar að auki þingið 1915, ef það áliti slíkar kröfur yfirvofandi, afnumið lögin, en annars ekki. Jeg fyrir mitt leyti vildi helzt bíða þings 1915 með þetta mál, svo hvalveiðamenn hefðu ekki það bak við eyrað með framhald veiðanna, að heimta skaðabætur, er lögin gengu í gildi, en litlar líkur til, að þeir sæti í þrjú ár við mikinn skaða með það fyrir augum. Þess vegna óska jeg samþ. brtill., svo að þeir hafi meira ráðrúm til að skifta um bústað.

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að hvalrekar hefðu oft orðið sjerstaklega góð og tímabær hjálp landsmönnum í ísaárum, og vildi því, að friðunin kæmist á, og er það aðalástæðan fyrir því, að jeg: fylgi þessu máli, og greiði því atkvæðið ef brtll. mín verður samþykt. Íshættan er enn eigi úr sögunni.

Hvort hvalir spilla fiskiveiðum, skal jeg ekki segja um, en eitt er víst, að ef síld kemur á firði og hvalir koma í torfuna, þá flæma þeir hana upp að löndunum, svo hægra er um vik að veiða hana úr landi fyrir þá, sem síldveiði stunda á staðnum.

Jeg álít, að þeir, sem óttast skaðabætur, geti samþ. þetta frv., ef br.till. nær samþ., því þá er fresturinn meiri.