09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (2319)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Stefánsson:

Háttv. frsm. byrjaði mál sitt á því, að orð mín í dag um drátt af hendi nefndarinnar, hefðu verið í bræði töluð, og mundi hann því fyrir gefa mjer þau. Jeg þakka honum mjög vel fyrir þetta, en jeg get nú samt ekki kannast við, að jeg hafi sagt neitt, sem jeg þurfi að biðja hann fyrirgefningar á. En jeg vil segja það, að jeg vorkenni þeim deildarmönnum, sem ekki vildu bíða til morguns með málið, og sýndu mjer þá ósanngirni að vilja ekki gefa mjer ráðrúm til að athuga málið, því að tíminn fyrir mig til að koma með breytingartillögur hefur verið mjög naumur; jeg var veikur á meðan málið var á döfinni í Nd. og gat því ekki fylgzt með þar, en að því er mjög mikill stuðningur, eins og allir vita. Jeg álít, að sú meðferð neðri deildar, að geyma málið von úr viti, og ætla okkur svo að eins örfáa daga til að yfirvega og afgreiða málið, óþinglega og sýna virðingarskort fyrir þessu máli.

Mjer sýnist svo, sem hin háttv. nefnd í háttv. deild hafi lítið skoðað þetta frv., en að eins hirt það eins og það kom frá háttv. neðri deild.

Jeg skal játa það, að mjer líkar betur að sumu leyti þetta frumvarp, en stjórnarskrárfrumvarp það, sem afgreitt var hjer 1911.

Sjerstaklega eru það ákvæði 10. gr., er mjer líka betur. Þessi nýju ákvæði um kosningarrjettinn koma ekki til framkvæmda strax, heldur smátt og smátt. Með þessu er mjög dregið úr því, að mikil bylting geti átt sjer stað, eins og var frá þinginu 1911. En svo eru næstum því upptaldar bæturnar, sem eru í þessu frumvarpi.

En í þessu frumvarpi eru líka alger nýmæli, sem engri stjórnarskrárnefnd hefur nokkru sinni dottið í hug að hreyfa, og það er 4. gr. stjórnarskrárinnar, sem hefur staðið óbreytt síðan 1874. Þar segir svo í fyrstu málsgrein að: „engan megi skipa embættismann á Íslandi, nema hann hafi hin almennu rjettindi innborinna manna“.

Þessu hefur engum dottið í hug að breyta, enda held jeg, að þetta sje heimtað í öllum löndum. En nú hefur nefndin í háttv. neðri deild numið þetta ákvæði burt, og nefndin hjer gleypir við þessu alveg óhugsað. Mjer er alveg ómögulegt að finna, hvaða ástæða er til, að þessu ákvæði er breytt, og vil því gera fyrirspurn um það til háttv. frsm. nefndarinnar, á hverju þetta er bygt, og hvað hafi dregið háttv. neðri deild og háttv. nefnd til þess að ganga alveg þegjandi fram hjá þessu. Hann hlýtur sem framsögumaður nefndarinnar að vera mjer fróðari um þetta, og sjerstaklega þar sem jeg var veikur, er málið var til meðferðar í háttv. neðri deild, og gat ekki fylgzt með í umræðum og meðferð málsins þar.

En auk þess er annað ákvæði í 4. gr. Þar er svo mælt fyrir, að konungur geti flutt embættismann úr einu embættinu í annað, En þessu ákvæði er líka kipt burt, og segi jeg eins um það og hið fyrra, . að jeg skil ekki ástæðuna til þess, að þessu er líka kipt í burtu.

Jeg skil ekki, því á að taka af konungi forrjettindi (prærogativa) hans, og jeg skil ekki því eftirlaunahatararnir ekki minnast á þetta, því það getur haft allmikil áhrif á eftirlaunin, ef konungur hefur leyfi til að flytja embættismenn úr einu embættinu í annað. Fyrir nokkrum árum síðan Ijet ungur maður af embætti sökum fótbilunar, og gaf læknirinn honum vottorð um, að hann gæti ekki þjónað sýslu þar sem hann þyrfti að ferðast á hestbaki, en hann gaf honum ekki vottorð um, að hann gæti ekki þjónað embætti, þar sem svo stæði á, að hann þyrfti þess ekki. Og hvað var þá betra fyrir stjórnina til þess að losna við þennan mann af eftirlaunum, en að bjóða honum sýslu þar sem fótbilun hans gat ekki bagað hann, og það hagar einmitt svo til, að hjer er til slík sýsla, og hún losnaði skömmu eftir að maðurinn var kominn á eftirlaun. Jeg miða ekki við, þó stjórnin ekki gerði það, en embættismaðurinn gat ekkert haft á móti því, þó svo hefði verið gert, og það hefði sparað landssjóði ákaflega stóra eftirlaunafúlgu, þar sem maðurinn var kornungur. En nú er þetta ómögulegt.

Eftir frv., eins og það er nú, fær maður eftirlaun, ef hann er ófær til að gegna starfi sinu í því hjeraði, þótt hann sje fullfær til að gegna öðru hjeraði. Og þetta finst mjer, að eftirlaunafjendurnir í nefndinni hefðu átt að minnast á. En auk þess þá finst mjer þetta vera ókurteisi gagnvart konungsvaldinu, eins og það gæti líka verið sparnaður að hafa þetta ákvæði. Og það gæti vel svo farið, að konungur sjálfur eða einhverjir, er honum standa nærri, ræku augun í þetta og vektu athygli hans á því, og gæti þá svo farið, að konungi þætti sjer nærri gengið.

Þá vil jeg minnast á 8. gr. frv. Jeg tel hana afturför frá því, er var samþykt hjer á þingi 1911. Þá var samþykt, að í efri deild skyldu eiga sæti 10 þingmenn kosnir með hlutbundnum kosningum til 12 ára, og jeg tel það miklu betra en þeir sjeu að eins 6, eins og hjer er gert ráð fyrir. Jeg skal fúslega játa það, og jeg tel það enga skömm, að jeg er svo „konservativ“, að jeg vil hafa meiri seglfestu í skútunni, en jeg tel að verði, ef þeir eru að eins 6, sem kosnir eru á þennan hátt, þó jeg hinsvegar játi, að það geti verið heppilegt, eins og nú horfir við í bráð. Og bót er það, að þessi aukni kosningarrjettur er meira takmarkaður, en hann þá var.

Háttv. framsm. tók það fram, að þessi breyting á frv. frá 1911 stæði að nokkru leyti í sambandi við kjördæmaskiftinguna á landinu; það þyrfti þá ekki að breyta henni. En jeg lít svo á, að þó að þeir verði ekki nema 6, er verði kosnir Iandkosningu, þá þyrfti eftir sem áður að breyta kjördæmaskiftingunni, því hún er orðin úrelt og ósanngjörn í mörgu tilliti.

Jeg skal þar til dæmis nefna höfuðstaðinn sjálfan, Reykjavík, er jeg álít að eigi rjett á að hafa fleiri þingmenn en nú er. Og jeg hygg, að háttv. alþingi hefði ekki orðið nein skotaskuld að bæta úr því, þó að ákvæði frumvarpsins frá 1911 hefðu haldizt óbreytt.

Þá mintist háttv. framsm. (S. Egg.) á ráðherrafjölgunina. Jeg tel hana bráð nauðsynlega, og frv. frá 1911 hafði þann kost, að eftir því átti hún að koma strax. Jeg tel það hafa verið til stórskaða fyrir allt stjórnarstarf og löggjafarstarf vort, að við höfum að eins haft einn mann til þess að fara með öll æðstu völd landsins. Og við erum farnir að sjá það hjer á þinginu, hversu þetta er ótækt.

Frumvörpin eru lítt undirbúin, og margt þykir fara öðru vísi en æskilegt er í umboðstjórninni, enda er það ofurefli nokkrum einum manni, og það þótt hann sje meira en meðalmaður, að annast þetta alt. Jeg verð þess vegna að leggja mikla áherzlu á þetta atriði, þó það hins vegar bæti nokkuð úr, að það má breyta þessu með einföldum lögum. Og það hefur alveg nú nýverið komið fyrir atriði, er sýnir mönnum, hversu þetta er óheppilegt. Hæstv. ráðherra þurfti að vera hjer inni í háttv. efri deild, til þess að taka þátt í meðferð þeirra mála, er hjer Iágu fyrir, en á meðan fer fram atkvæðagreiðsla í háttv. Nd., og var þar felt stjórnarfrumvarp, vegna þess að hæstv. ráðherra, sem þar á atkvæðisrjett sem þingmaður, var fjærverandi; það stjórnartrumvarpið, er jeg tel einna bezt á þessu þingi og mestan skaða að. Þetta sýnir, hversu það er erfitt fyrir ráðherra vorn nú, að taka þátt í þingstörfum, sem telja verður bráðnauðsynlegt, og ekki getur einn maður verið nema á einum stað í einu.

Þá vildi jeg aftur víkja orðum mínum að innborinna manna rjettinum.

Í háttv. neðri deild var flutt fram brtill. um að gera innborinnamannarjett að skilyrði fyrir kosningarrjetti og kjörgengi. Þegar jeg las þessa breytingartillögu uppi á spítala, þá satt að segja undraðist jeg, að þetta ákvæði skyldi ekki fyrir löngu vera komið inn í stjórnarskrá vora.

Og jeg tel þetta nauðsynlegt ákvæði nú, er útlendir menn eru að flytjast hingað. Jeg tel það rangt, að útlendingar, er gætu flykzt hingað í stórhópum, hefðu hjer hinn sama rjett og landsins börn, og jeg neita því gersamlega, þótt að þeir kynnu að vera góðir menn, að þeir hafi sama kunnleik á stjórnmálum vorum og við sjálfir. En auk þess, ef hjer færi að ryðjast inn í landið herskari slíkra manna, þá gæti eftir þessu auðveldlega svo farið, að löggjafarvaldið kæmist í þeirra hendur, meira en æskilegt væri, og það veit jeg þó að enginn muni kjósa. Það er líka svo annarstaðar, að engin þjóð hefur sjeð sjer fært, að láta þetta ákvæði vanta í stjórnarskrá sína, og hvers vegna háttv. Nd. .fellir þetta ákvæði burt er mjer hulin ráðgáta. Jeg hlýt að líta svo á, að þeir, er vilja fella burtu 4. gr. stjórnarskrárinnar, hafi ekki hugfast, að Ísland sje fyrir Íslendinga.

Ef þess væri nokkur kostur, að koma fram með breytingartillögur, og von um, að þær yrðu samþyktar vegna tímanaumleika, þá kannast jeg við, að þetta hefði verið eitthvert mesta áhugamál mitt, því jeg hálfskammast mín fyrir það, jafngamall þingmaður, að mjer skuli ekki fyr hafa dottið í hug, að setja þetta í stjórnarfrumvörpin.

Þá er enn eitt nýmæli í þessu frumvarpi, er ekki hefur sjezt í stjórnarskránni 1874 og alla leið til vorra tíma nú í ár, eða breytingarfrumvörpum við hana, og það er um að meiri hluti þingmanna hvorrar deildar geti krafizt þess, að aukaþing sje haldið.

Jeg álít, að þetta ákvæði sje mjög varhugavert, og þeim mun varhugaverðara og verra, sem minni festa er í efri deild. Og með allri virðingu fyrir háttv. alþingi, þá er jeg hræddur um, að þetta ákvæði hafi ilt í för með sjer, og það kemur oft hjer fyrir, að tilfinningar ráða of miklu.

Það kemur oft fyrir í lífinu, að tilfinningar ráða meiru en róleg skynsemi og yfirvegun; það kemur alveg eins fyrir hjá alþingismönnum eins og öðrum mönnum annarstaðar. Fyrir því er jeg hræddur um, að þetta ákvæði gæti orðið notað hvatvíslega, þegar æsingar eru uppi. En bót er það að breyta má þessu með einföldum lögum.

Jeg skal játa það, að það eru fleiri athugasemdir, er jeg vildi gera við frumv., þótt jeg geti ekki farið út í það frekar að sinni, og læt jeg mjer nægja, að skírskota þar um til ummæla minna í dag.

En lítilfjörlega vil jeg tala um þá von, er við getum haft um, að frumvarpið verði samþykt.

Við vitum, að síðustu undirtektir undir frv. voru þannig 1911, að hans hátign konungurinn vildi ekki staðfesta stjórnarskrána sökum burtfellingar ríkisráðsákvæðisins. Og jafnvel mun hans hátign konungurinn hafa haft fleiri ástæður til þessara undirtekta. En mjer skilst nú, að nefndin voni, að frv. nái staðfestingu með því að breyta þessu ákvæði svo, að það eigi að bera upp málin fyrir konungi þar sem hann ákveður.

Jeg skal ekkert um það segja, hvaða áhrif þetta hafi á vilja haus hátignar konungsins; um það getur vist enginn sagt, en jeg hygg, að það sje mjög vafasamt, að hann fallist á þessa breytingu, og tel líklegt, að undirtektirnar verði sömu og 1911. En þá er lítill árangurinn af því að samþykkja stjórnarskrána á þessu þingi, minni en við óskum. Af þessari ástæðu hefði jeg ekki viljað vera forgöngumaður að því, að hún yrði borin upp hjer á þingi í ár, þótt jeg hins vegar ekki hafi beinlinis á móti því þess vegna, að hún nái fram að ganga. Það er allt annað.

En mjer lýst svo, að sú leið, er við hefðum átt að fara í þessu efni, hefði verið sú, að fela stjórninni til næsta þings, að útvega oss vissu um það, hvernig hans. hátign konungurinn lítur á þetta, og hvort hann mundi ganga að þessari breytingu.

Ef nú svar konungsins hefði orðið hið sama og 1911, gat þjóðin ráðið það við sig, hvort hún vildi fara að leggja út í stjórnarskrárbreytingar ár eftir ár, með. lítilli von um nokkurn árangur. Jeg skal ekkert um það segja, hver vilji þjóðarinnar er í því efni, en jeg hefði þá kunnað því betur, að leggja út í þessa óvissu. Hygg jeg því, að þótt frv. þetta nái samþykki háttv. deildar, að það sje mjög mikill vafi á því, að það muni ná höfn fremur en frv. 1911. Jeg skal að vísu ekki neita því, að það sje nokkru meiri von um það, en hún er í mínum augum ekki mikil.

Jeg hef minzt á þau aðalatriði, er jeg hefði viljað gera breytingartillögur um. Mjer hefur verið brigslað um það, að jeg vildi gera breytingartillögur, að eins til þess að drepa málið.

Þetta tel jeg óheiðarlega og ósæmilega aðdróttun. En eftir því, er jeg þóttist verða vis af umræðunum í dag, þá þykist jeg skilja það, að það sje ekki til annars að koma fram með breytingartillögur, en að tefja tímann. En tíminn er dýrmætur, og ekki hvað sízt, er jafnlítið er orðið eftir af þingtímanum, svo jeg vil ekki að því stuðla. En mjer fellur það þó illa, að háttv. meðdeildarmenn mínir,. skuli hafa meinað mjer að gera breytingartillögur. En þó að frv. verði samþykt, þá get jeg ekki tekið undir ummæli háttv. framsm: (S. Egg.), að málið sje komið á góðan rekspöl, því eins og jeg tók áður fram, þá er jeg mjög efaður um framgang þess, enda ekki nema eðlilegt, meðan við höfum enga vissu, nema það sæti sömu meðferð og undirtektum og frumvarpið 1911. En hitt tel jeg víst, að hæstv. ráðherra geri alt hvað hann getur og láti ekkert undir höfuð leggjast til þess, að fullnægja vilja þingsins í þessu efni, og yfir höfuð að spara ekki neitt, er geti orðið því til fyrirgreiðslu. En jeg hefði heldur kosið, að málið hefði verið látið bíða næsta þings, til þess að fá betri vissu, og skýr yfirlýsing væri komin um það, hvort hans hátign konungurinn vildi samþykkja það eða ekki. Og mjer væri kært, ef hæstv. ráðherra vildi láta í ljósi skoðun sína á þessu máli, því jeg álít það afar mikilsvert, hver skoðun hans hjer um er. Eftir því getum við farið.

Jeg skal svo að sinni ekki þreyta háttv. deild lengur, en taka það fram enn þá, að mjer þykir það leitt, að jeg gat ekki komið fram með breytingartillögur, var meinað það. En það er ekki á minni ábyrgð, heldur hinna háttv. þingmanna, er meinuðu mjer það.