09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Eggerz. framsögum:

Það gladdi mig í raun og veru, að heyra ræðu h. þm. Ísafj. (S. St.), því jeg bjóst við hörðum mótmælum frá honum, en þau reyndust ekki eins hörð og við hefði mátt búast.

Fyrst vil jeg minnast á ummæli h. þm. (S. St.) um það, að við, sem ekki vildum taka málið út af dagskrá, hefðum sýnt ófrjálslyndi. Ástæðan fyrir því, var alls ekki ófrjálslyndi, heldur eingöngu umhyggja fyrir málinu. Það er svo stutt eftir þingtímans, að á engan hátt má draga málið, ef það á að komast fram á þessu þingi. H. þm. (S. St.) brá nefndinni um, að hún hefði haldið málinu lengi. Jeg hafði þó áður bent á, að það hefði ekki verið nema einir 2 dagar, og þá hittist svo á að samtímis var 2. umræða fjárlaganna hjer í deildinni, og munu háttv. deildarm. geta nærri, hvað drjúgur sá dagur er til nefndarstarfa.

En hafi nefndin verið sein með að afgreiða málið, sem er hin mesta fjarstæða, þá má með ekki minna rjetti segja, að h. þm. (S. St.) hafi verið helzt til seinn að semja brtill. sínar og koma með þær. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja óp h. þm. (S.St.) til kjósendanna, og er ekki hræddur við að ganga til kosninga, þrátt fyrir þá ábyrgð, sem h. þm. telur að nefndin hafi bakað sjer með meðferðinni á málinu. H. þm. (S. St.) veit það, að hann getur komið með brtill. til 3. umr., ef hann vill; en við því má hann búast, að þær falli, því að sjeu þær samþyktar, þá er það að líkindum sama sem að skapa frv, aldur, svo stutt sem eftir er af þingtímanum. En vjer viljum ekkert það gera, sem stofnað geti frv. í voða, því að vjer lítum svo á, að meginatriði þess sjeu þannig, að vel megi við una, Það er hjer eins og um öll mál önnur, að ágreiningur hlýtur að verða um einstök atriði.

Næst þessu skal jeg svo athuga nokkrar mótbárur h. þm. (S. St.). Það sem sjerstaklega hneykslaði h. þm. var það, að felt skuli burt úr frv. ákvæði 4. gr. stjórnarskrárinnar um það, að engan megi skipa embættismann á Íslandi, nema hann hafi hin almennu rjettindi innborinna manna. Jeg hafði tekið eftir þessu, og nefndin tók það líka til athugunar. Það virðist spor í sjálfstæðisáttina, að veita má hverjum sem vill embætti, án þess að það sje bundið við þá eina, sem innborinnarjett hafa; einkum er svo, á meðan vjer getum ekki sjálfir veitt innborinnarjett. Jeg get líka huggað hina hreldu sál h. þm. með því, að þessu má breyta með einföldum lögum. Þá rann mikill orðastraumur frá h. þm. (S. St.) um það, hve afar óheppilegt það væri, að nú væri eftir þessu frumv. konungi óheimilt að flytja embættismenn úr einu embætti í annað. — H. þm. (S. St.) hefði sjálfsagt kallað það kosningarræðu, ef jeg hefði haldið hana. — Jeg skal segja h. þm.. að jeg er þar annarar skoðunar. Jeg tel það mjög heppilegt, að stjórnin geti ekki á pólitískum æsingatímum flutt menn að eigin geðþótta úr einu embætti í annað. Það er freisting til að vanbrúka það vald. H. þm. sagði, að afleiðingin af því, að þetta ákvæði vantar, gæti orðið sú, að ýmsir embættismenn kæmust á eftirlaun fyrir þær sakir, og að þeir, sem mótfallnir væru eftirlaunum, mundu varla vilja styðja að því. H. þm. virðist ekki hafa lesið gildandi lög um þetta. Samkv. gildandi lögum getur embættismaður kosið, hvort hann vilji heldur eftirlaun eða láta flytja sig í annað embætti. Það er því engin hætta á, að eftirlaunabyrðin vaxi við þetta. H. þm. sagði, að konungi mundi þykja súrt í broti, að vera sviftur þeim forrjettindum, að mega flytja embættismenn úr einu embætti í annað. Skelfing held jeg að honum þyki það súrt! einkum þegar þess er gætt, að þetta er gert á ábyrgð ráðherra og að hans ráðstöfun.

Þá lagði h. þm. mikla áherzlu á skipun efri deildar; honum þótti hún ekki eins „konservativ“ og æskilegt væri; og kvað hann á þessum óróatímum ekki veita af seglfestu í Ed. Um það má deila, hve mikil seglfesta eigi að vera í efri deild, en svo gæti þó farið, að ýms mikilsvarðandi mál strönduðu þar á þessu seglfestuskeri. Jeg er ekki eins hræddur við kjósendafjölgunina eins og h. þm., og lít öðrum augum á þá en hann, og er ekki hræddur við að fá þeim kosningarrjettinn, því að jeg treysti því, að vaxandi menning geri þá vel færa um að gegna starfi sínu.

Enn mintist h. þm. (S. St.) á það, að jeg teldi það einn kost við það, að skipa Ed. eins og gert er ráð fyrir í frv., að eigi þurfi að breyta kjördæmaskipun í landinu. Þetta er að nokkru leyti rjett.

Nú geta menn í bili verið lausir við að fást við þetta vandamál; þó geri jeg ráð fyrir, að breyting hljóti að koma á, áður en mjög langt um líður.

Þá hneykslar það hinn hv. þm. (S. St.), að meiri hluti hvorrar deildar skuli geta heimtað aukaþing. Jeg er ekki hræddur um, að þetta verði að tjóni; þvert á móti. En það er annað, sem ástæða er til að hræðast. Ef vjer höfum óhæfan ráðherra, þá getur hann setið óáreittur um tveggja ára tíma og þingið ekkert eftirlit haft með honum. Það er mesta trygging í því, að svo geti farið, að meiri hluti hvorrar deildar geti heimtað, að þing sje kallað saman, það mun kenna hverjum ráðherra að fara varlega með vald sitt. H. þm. sagði, að alt af væri hægt að gefa óhæfum ráðherra vantraustsyfirlýsing. En hvernig má það verða, nema þing komi saman. Það vill stundum meira að segja reynast fullörðugt, þó þing sje saman komið.

Þá mintist h. þm. (S. St.) á frv. 1911, og var hræddur um, að eins mundi fara með undirtektir konungs nú og þá. Þess er að gæta, að ekki er vist, hvernig konungur hefði snúizt við, ef ráðherra hefði fylgt málinu fast fram, og sagzt verða að sleppa ráðherradæmi, sæi konungur sjer ekki fært að staðfesta frv. Það er bezt að sleppa öllum getgátum um það, hvernig þessu frv. reiðir af, ef málið er sett á oddinn. Þó tek jeg það fram, að jeg vil ekki, að leitað sje að málum til að setja á oddinn, — en hins vegar mega menn ekki skjálfa í öllum málum af ótímabærum kviða. — En hvað sem því líður, hvernig farið hefði um frv. 1911, ef því hefði verið haldið til streitu, þá er hjer öðru máli að gegna, því nú hefur miðlunarleið verið farin, þar sem konungi er beinlínis ætlað að ákveða, hvar íslenzk mát skuli borin upp fyrir honum. Hversvegna erum við að leggja kapp á að samþykkja þetta frv.? spyr h. þm. (S. St.),. Af engu öðru en því, að þjóðin óskar eftir ýmsum breytingum á stjórnarskránni, og vjer teljum þessar breytingar nauðsynlegar. Og jeg treysti því, að þjóðin muni fallast á frv., og konungur muni sjá sjer fært að staðfesta það, þegar til kemur.

Þá kvartaði h. þm. aftur yfir því, að sjer væri gert ómögulegt að koma fram með brtill. Jeg held, að þetta kvein hans muni ekki bergmála mikið hjá þjóðinni, þegar hún veit, að hann hafði nægan tíma til þess, meira að segja, hefur enn tíma til þess; og ef h. þm. telur frv. ómögulegt, eins og það er, þá er það samvizkulaust af h. þm., að koma ekki með brtill. og það eins, þótt hann hafi litla von um að koma þeim fram. Jeg treysti því, að h. d. taki vel á móti hinum rjettmætu kröfum þjóðarinnar, sem þetta frv. hefur að geyma; og jeg er þess fullviss, að ef þingið afgreiðir málið, eins og það er nú, þá gerir það þarft verk, og aflar sjer vinsælda og lofs hjá þjóðinni fyrir það.