09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Guðjón Guðlaugsson; Jeg er einn af þeim, sem naut þess heiðurs, að komast í nefnd í máli þessu, og á því minn hlut af þeim góða vitnisburði, sem h. þm. Ísaf. (S. St.) gaf nefndinni. Þó játa jeg, að jeg skrifaði undir nefndarálitið með töluverðri tregðu; og mjer þótti það súrt epli að bíta í, að verða að afgreiða málið í hasti, hafa ekki nema einn dag til umhugsunar, eftir að h. nefnd í Nd. hafði legið á málinu mest allan þingtímann. Þessu óforsvaranlega slugsi er engin bót mælandi. Það væri full ástæða, að það vekti þrjózku hjá þessari deild að verða annað hvort að samþykkja frv. upp á kommu, eins og það kemur frá h. Nd. eða að fella það:

og eiga það svo á hættu að systurdeildin svívirði þessa deild fyrir að hafa gert það. Mjer finst þetta ótilhlýðileg aðferð. Þótt h. Nd. hafi farið svona að ráði sínu, þá álit jeg þó málið ofgott til þess, að eyðileggja það, þótt það sje eingetið.

Þess er ekki að dyljast, að ýmsir gallar eru á frv., sem jeg hefði feginn viljað eiga kost á að laga. Eigi að síður er frv. þetta í ýmsu stórbætt frá frv. 1911, eins. og þingið skildi þá við það. Líka er frv. þetta stórbætt frá uppkasti því, sem lagt var fyrir þingið nú í þingbyrjun; það var hörmulega úr garði gert. Einu ákvæði, sem var kökkur í allra hálsi, ríkisráðsákvæðið, hefur h. Nd. komizt vel út úr, og hygg jeg, hún hafi ekki á annan veg getað ráðið betur fram úr því, fyrst hún á annað borð heiktist strax, og kaus ekki heldur að hinkra við um stund að jeta það ofan í sig. Jeg var ekki í vafa um, hverjar alleiðingar það mundi hafa, að stryka ríkisráðsákvæðið út. En hins vegar fanst mjer ekki svo mikið í húfi, þótt málinu hefði verið frestað til næsta þings, og biðin notuð til að leita hófanna um, hvað fáanlegt væri. Það er fallega að orði komizt, að konungur skuli ákveða, hvar íslenzk mál sjeu borin upp fyrir honum. Þó dylst það ekki, að þetta er gert til að hylja úlfinn undir gærunni. Með þessum orðum er að vísu ekki sagt blátt áfram: Vjer viljum ekki, að mál vor sjeu borin upp í ríkisráðinu, en það er sagt undir rós. En það má líka. skilja það á annan veg, þannig að vjer óskum, að málin sjeu borin upp annar staðar en í ríkisráðinu, en látum þó konung ráða því. Þetta hef jeg að athuga við 1. gr. Jeg veit, að hjer var úr vöndu að ráða; jeg lái ekki h. Nd., þótt hún reyndi að synda milli skers og báru.

Þá er sú breyting frá frv. 1911, að nú á að kjósa 34 þingmenn óhlutbundnum kosningum og 6 hlutbundnum. Jeg er á sama máli og h. þm. Ísafj.k. (S. St.), að tala þeirra þingmanna, sem kosnir eiga að vera hlutbundnum kosningum, sje of lág. Mjer finst það meiningarlítið, að eigi skuli geta verið meiri hluti þannig kosinna manna í efri deild. Jeg óska eins og h. þm. (S. St.), að barlestin væri nokkuð þyngri í þeirri deild. Jeg er eins og hann farinn að eldast og orðinn nokkuð íhaldssamur; og jeg segi það, að betur væri að menn hættu að telja það skömm að vera íhaldsmaður, því að milli íhaldsmanna og framsóknarmanna ætti baráttan um málin að vera háð. Það væri eðlileg og holl flokkaskifting, sem á þeim grundvelli væri bygð. Jeg hefði lang helzt kosið, að 10 menn væru kosnir hlutbundnum kosningum til efri deildar. En er jeg leit á, að þá hefði orðið að leggja niður 4 kjördæmi, og jafnframt athugaði, hve óhönduglega stjórninni fórst kjördæmaskiftingin, þegar hún var að fást við hana, þá sá jeg, að helzt þurfti að hafa verið ákveðið um fullkomna kjördæmaskifting um leið, og hin spurningin var útkljáð. En þetta er svo óbrotið, að hafa þá, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum jafn marga og hina konungkjörnu, og veldur engri kjördæmaröskun. Þó mundi hafa verið hægt, að fækka kjördæmunum um tvö, án þess það hefði valdið miklum vandræðum. Jeg er ekki á sama máli og h. þm. (S. St.), að það þurfi að breyta kjördæmaskiftingunni hvort sem er, og láta t. d. Reykjavík fá fleiri þingmenn en mi. Jeg álít það algerlega rangt að skifta kjördæmunum eftir höðfðatölu kjósendanna. Jeg álít, að hver fultrúi sje ekki eingöngu kosinn fyrir sitt kjördæmi, heldur fyrir landið alt, fyrir túnin, engjarnar, fjöllin, dalina, árnar og vötnin, og þar sem þetta er svo breytilegt á hinum ýmsu stóðum, þá þarf hvert hið sjerkennilega svæði að hafa sinn þingmann, og má þar alls ekki eingöngu fara eftir landstærð og fólksfjölda. Jeg man eftir, að það var lengi talað um að leggja niður Vestmannaeyjar sem sjerstakt kjördæmi. Nú er alveg hætt að tala um þetta, sjálfsagt mest af því, hvað fólkinu hefur fjölgað mikið þar; en þótt því hefði alls eigi fjölgað, þá hefði eigi að síður verið rangt að svifta þær þingmanni sínum, þær eru svo sjerstæðar í mörgu, og þurfa því að hafa sinn sjerstaka talsmann á þingi. Þá ætla jeg, að minnast ofurlítið á kjördæmaskiftinguna; ætti að fara að breyta henni, þá er jeg alveg mótfallinn tvímenningskjördæmum; öll kjördæmi ættu að vera einmenningskjördæmi, að minsta kosti meðan ekki eru hlutfallskosningar. Flokkaskifting í kjördæminu getur verið þannig háttað, að tveir menn úr öðrum hluta þess komist að, og hafa þó ekki nema eitt atkvæði hvor fram yfir keppinauta sína úr hinum hluta kjördæmisins. En ef kjördæminu er skift í tvent, þá eru meiri líkindi fyrir, að sinn maðurinn úr hvorum flokk komist að.

En nú er kjördæmaskiftingin sú, að sá sem býr öðrumegin við takmörkin, segjum lítinn læk, má kjósa 2 þingmenn, en sá sem er hinum megin aðeins einn. Þetta þyrfti að takast til athugunar, svo kendi meira jafnrjettis. Jeg vildi fyrir mitt leyti hafa hlutfallskosningu, og að öllu landinu væri skift í svo sem 5 kjördæmi. Þá er þetta atriði, Sem mest hefur verið um talað milli þinga, kosningar rjetturinn. Frv. 1911 gaf öllum jafnt kosningarrjett hjúum sem húsbændum, konum sem körlum. Mjer finst fyllsta rjettlæti í þessu, en játa jafnframt, að sú bylting, sem leitt. hefði af þessari miklu og snöggu breytingu, gat orðið þjóðinni hættuleg. En nú hefur háttv. Nd. reynt að fara bil beggja, þannig að allar konur fái atkv. sem karlar, og allir vinnumenn sem lausamenn, en hefur svo, til þess að afstýra, að öll þessi mörgu atkvæði kæmi á markaðinn í einu, sett ákvæði um, að fyrsta árið koma aðeins þeir til greina, sem eru fertugir og síðan lækkar aldursmarkið um eitt ár á ári, þar til aldur þessara nýju kjósenda mætir hinu almenna lögákveðna aldurslágmarki. Þetta er hyggilegt, en rjettlátt er það ekki. Og jeg veit ekki, hvað verður úr öllum kvenrjettindahávaðanum með þessu ákvæði, því það kemur aðallega niður á kvenþjóðinni, því vinnumenn eru svo hvarflandi, að annað árið eru þeir í lausamensku, en hitt vinnumenn.

Álít jeg, að konur eigi að hafa sama rjett og karlar, og vinnumenn sama rjett og lausamenn, ef allri sanngirni er beitt, en til þess að engi bylting hlytist af þessari snöggu atkvæðafjölgun, vildi jeg láta þá eina fá atkvæðisrjett, sem óskuðu hans. Og mjer finst eðlilegt, að þeir, sem fá rjettinn, hafi líka einhverjar skyldur, þurfi að uppfylla einhver viss skilyrði. Og hafa mjer dottið í hug til þessa tveir vegir. Sá fyrri er sá, að allir, sem fengju atkvæðisrjett, greiddu einhver ákveðin gjöld í landssjóð, t. d. 3–5 kr. í fyrsta sinn sem þeir væru settir á kjörskrá, og ef þeir ekki vildu það, þá sýndi það áhugann, og ættu þeir þá ekki fyr að fá atkv.rjettinn, en gjaldið væri af hendi int. Síðari leiðin er sú, að allir leystu af hendi próf, er þeir fyrst væru settir á kjörskrá. Þetta ætti ekki að vera nokkurs konar barnapróf, heldur ættu þeir að gjöra grein fyrir stjórnarfari landsins, og ætti prófið að gefa þeim aðgang að kosningunum. Hef jeg hugsað mjer, að samin væri lítil kenslubók, líkt og gamla kverið hans Jóns Hjaltalíns, „Hvernig er oss stjórnað?“ Það er leiðinlegt, þegar þeir menn kjósa til þings, sem geta ekki greint umboðsvald frá dómsvaldi. Þetta ættu menn alment að geta greint sundur og eins að vita um skipun læknastjettarinnar. Eða þegar menn komast á þing, — og sjest mun það hafa hjer á þingi, — sem vissu ekki, að hreppstjórar hafa ekki sveitarstjórnarvald heldur lögregluvald. Þetta ættu allir að geta lært á einni viku, en margir vita það. En jeg get hugsað mjer, að konur, sem aldrei hafa sjeð heiðan himininn nema gegnum eldhússstrompinn, ljetu vera að kynna sjer þetta, en ef þær á annað borð hefðu nokkurn snefil af áhuga, mundu þær læra það í fljótu bragði. Jeg get ekki látið hjá liða að minnast á þetta, og koma með þessar uppástungur, þótt ekki komi jeg með neinar brtill., en það er einungis vegna þess, hve tíminn er naumur til að afgreiða þetta mál. En það var ein breyting, sem jeg sjerstaklega hefði viljað láta komast að, viðvíkjandi kvennþjóðinni, og hún er sú, að allar ekkjur og ógiftar konur, sem standa fyrir búi, fengju strax kosningarrjettinn, ef þær uppfylla aldursskilyrðið. Og það hefði aðeins verið til að bæta ofurlitið fyrir gamalt misrjetti. Jeg þekki konu, sem verið hefur ekkja í 30 ár, sjálf stjórnað búi sínu og alið upp 3 sonu, sem nú eru allir gildir bændur; hún hefur bygt steinhús á jörð sinni, og jeg hef ekki sjeð fallegri fjárhóp á einu býli en þar. Hún hefur um þetta 30 ára skeið goldið öll gjöld, sem gjalda ber, borið allar hinar borgaralegu byrðar, eins og hver annar búandi maður með hennar ástæðum, goldið tekjuskatt og yfir höfuð alla þá skatta, sem geta náð til gilds bónda, og að hugsa sjer, að nú, fyrst nú á þessu herrans ári 1913 á loks að veita henni rjett til að kjósa fulltrúa til alþingis með karlmönnunum. En hvað er gjört jafnframt ? Setjum svo, að þessi kona hafi 6 eða 7 vinnuhjú á heimili sinu, þá er henni ætlað að drasla með sjö anda sjer verri á kjörfundinn, til þess kannske að láta þau bera sig ofurliða við kosninguna. Þetta álít jeg ranglátt. Að vísu getur verið, að eitthvert þeirra verði yngra en fertugt, þegar til kosninganna kemur, en á gömlu og góðu heimili er ekki oft skift um þjónustufólk, og má þá búast við, að það sje þar flest fullveðja. Þetta kalla jeg hneykslanlega meðferð á svona konu, að hún skuli ekki hafa haft atkvæðisrjett, og hún verður stöðugt að hugsa til þess, að hvaða labbakútur sem er, ef einungis hægt er að pína út úr honum 4 kr. í útsvar, á að ráða yfir öllu, sem hún leggur fram.

11. gr. eru 2 ákvæði, sem jeg hefði ekki viljað skrifa undir, og eru um heimilisfestuna. Það virðist stríða á móti þessari frelsisöldu, sem nú gengur yfir, að vera um leið að setja kjósendum stólinn fyrir dyrnar, að þeir megi ekki kjósa þann mann, sem þeir álita bezt hæfan, ef hann á heima fyrir utan landssteinana. Ef við nú settum annan Jón Sigurðsson niður í Kaupmannahöfn, mundi þetta ákvæði aldrei hafa komizt inn, en það gæti svo farið, að við eignuðumst hann, og jeg vildi óska, að svo yrði. Og hvaða meining er í því, að meina kjósendum að kjósa þann mann, sem til þingsetu er hæfur, ef hann er búsettur erlendis, en leyfa, að þeir kjósi hvaða arlaka, sem er, ef hann er hjer heimilisfastur.

Þá er ákvæðið um dómarana. Ef svo er, sem jeg efast ekki um, að nauðsynlegt sje, að dómarar blandi sjer ekki mikið í pólitík, þá ætti ekki að þurfa að girða fyrir það í stjórnarskránni, því að kjósendur ættu að sjá það sjálfir. Og þegar verið er að rýmka um kosningarrjett og mannfrelsi yfirleitt, þá kann jeg því illa, að tekið sje aftur með annari hendinni það, sem gefið er með hinni.

Þá kann jeg afarilla við ákvæðið í 18. gr. um gjaldskyldu þeirra manna til háskólans íslenzka, sem ekki tilheyra neinum viðurkendum trúarbragðaflokki. Þetta finst mjer athugavert og illa tilfallið. Það geta verið svo fámennir trúarbragða eða kirkjuflokkar, að þeir myndi ekki neinn sjerstakan söfnuð, og vil jeg þá ekki láta neyða þá til gjalda til háskólans eða annara stofnana, sem þeim eru óviðkomandi, heldur væri eðlilegast, ef þeir endilega þyrftu að inna einhver gjöld af hendi, að þau gangi í sjóð til að styðja að trúmálaskoðunum þeirra.

Þá verð jeg að vera á sama máli sem hv. þm. Ísf. um, að ákvæðið um aukaþingkröfuna sje ekki heppilegt, og álít betur farið, að það hefði ekki komizt inn í stjórnarskrána. En svo kemur endahnúturinn á þessu öllu saman. Ef einhverntíma skyldi að því koma, að alþingi samþykti frumvarp um sambandslög milli Danmerkur og Íslands, þá á að leggja það frumvarp undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu. En jeg vil segja, að umboð fulltrúa þjóðarinnar verður þá ekki á marga fiska, ef kippa má því af þeim, og leggja það undir sjálfa umbjóðendurna, sem geta verið uppæstir af viltum „agitationum“, og það kanske í því máli, sem mest er virði og kjósendur hafa minst vit á. Þótt alt annað væri gott í frumvarpinu, þá er þetta stór ókostur. Það kunna margir að undrast, að jeg hef skrifað undir þetta nefndarálit fyrirvaralaust Jeg ætlaði að skrifa undir það með fyrirvara, en það varð ekki af því, og jeg álit rjettast, að það komi til þjóðarinnar og hún skeri úr við nýjar kosningar, hvort hún vill taka frumvarpinu eins og það er.

Þjóðin á nú að kjósa nýja fulltrúa, með þetta fyrir augum, og þarf þetta mál ekki að kosta neitt aukaþing, þó því verði breytt, og mjer finst, þegar litið er á þessa mislitu þingmannaflokka, — á hið pólitíska ásigkomulag þingsins, að nýjar kosningar sjeu mjög svo heppilegar, og álít því, að frumvarpið eigi að ganga gegnum þingið, þó ekki væri nema fyrir þá sök eina. En þar að auki hefur það tekið nokkrum bótum frá því, sem áður var.