09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Gagnvart þeirri mótbáru frá gamaldanskri hlið, að það sje nauðsynlegt vegna stöðu Íslands í ríkinu, að það standi berum orðum í stjórnarskránni, að málin skuli borin upp „í ríkisráði“, má benda á það, að það er ekki nefnt með einu orði í stjórnarskránum frá 1874 og 1903, hvar sjermálin skuli borin upp fyrir konungi. Af hverju stóð það ekki þar? Af því að það var ekki talið nauðsynlegt, þar sem ráðherann var þá, af „faktiskum“ og „praktiskum“ ástæðum, jafnframt danskur ráðgjafi, er sæti átti í ríkisráðinu, svo því þótti mega treysta, að hann færði konungi málin þar. Öðru máli var að gegna, er ráðherra fluttist heim, varð óháður dönskum stjórnarskiftum, og bar aðeins ábyrgð fyrir alþingi. Þá var talin nauðsyn að taka þetta fram, ekki eftir grundvallarlögunum, heldur af „pólitískum“ c:

„praktiskum“ ástæðum, af því nauðsyn þótti að sjá svo um, að danskir ráðgjafar vissu jafnan, hvað fram færi í löggjöf vorri, vegna þess að Danmörk ber ábyrgðina út á við. Þetta takmark getur nú náðst, eins og jeg hef bent á, eftir orðalagi þessa frumvarps. Þessvegna hef jeg fremur von um framgang þess. Það er langt frá því að vera vissa. En á þessum grundvelli mun jeg fylgja frumvarpinu fram.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði frv.

Afstaða mín gagnvart þessu máli var í fyrstu sú, að rjettast væri að samþykkja ekkert stjórnarskrárfrumvarp að þessu sinni, og olli þar mestu um yfirlýsing konungs um, að ekki væri hægt að samþykkja stjórnarskrárfrv. síðasta þings án ríkisráðsákvæðisins, meðan óútkljáð væri um sambandsmálið. Taldi jeg ófært að ganga að svo stöddu, áður en útsjeð er um það mál, í berhögg við konung um þetta, en hinsvegar leitt fyrir alþingi, að víkja alveg frá kröfu sinni um úrfellinguna. En nú er sú aðalástæða fyrir frestuninni fallin burtu, þar sem náðst hefur þetta samkomulag hjer á þinginu. Við atkvæðagreiðslu í Nd. hef jeg fylgt meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar að málum. Jeg álít frv. að mörgu, leyti betra nú en 1911; mótbárur h. þm. Ísaf. tel jeg ekki mikilsverðar. Flutningur á embættismönnum úr einu embætti í annað, samkv. 4. gr. stjórnarskrárinnar, hefur lítið verið notaður, enda mega embættismenn kjósa um, hvort þeir vilja heldur lausn frá embætti með eftirlaunum eða flutninginn. Þetta má og ákveða um með einföldum lögum. Til þess þarf ekki stjórnarskrárákvæði. Um innborinna rjettinn sem skilyrði fyrir embættaveitingu má segja líkt og flutninginn á embættismönnum.

Jeg hefði kosið, að fleiri þm. Ed. væru kosnir hlutfallskosningum um land alt, en þar sem það tókst ekki að koma sliku ákvæði í frv., tel jeg rjettast, að sætta sig við þetta. Sjerstaklega er það bót í máli, að eftir þessu frv. má kjósa hina 8 úr sameinuðu þingi með hlutfallskosningu, sem hingað til hefur verið fyrirmunað.

Með þessu móti er von um að sporna megi við flokksofbeldi við þá kosning upp í Ed., svo að einn flokkur verði þar síður einráður um alt. Þetta gerir frv. stórum betra í mínum augum, og jeg get því sætt mig við, að það nái fram að ganga.