10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Jósef Björnsson:

Það gladdi mig, er jeg sá, að nefndin, sem í málið var skipuð, gat einróma ráðið til þess, að deildin samþykti frumvarpið óbreytt. Þær tillögur nefndarinnar gáfu von um, að frumv. næði fram að ganga, og jeg vona að svo verði, þótt ýmislegt hafi að frumv. verið fundið og það jafnvel af sumum nefndarmönnum, svo sem háttv, þm. Strand. (G. G.)

Eins og alkunna er, þá hefur þjóðin fyrir allmörgum árum síðan fastlega óskað eftir breytingum á hinni nú gildandi stjórnarskrá. Þessar óskir þjóðarinnar hafa ekki rjenað heldur þvert á móti eflzt ár frá ári, af því menn hafa fundið æ betur og betur til gallanna, sem lagfæra þurfti. Og í þessu hafa menn ekki skifzt mikið eftir flokkum; allir hafa viljað fá breytingu á ýmsum atriðum, svo sem því að konungkjör þingmanna legðist niður, og fjöldi manna hafa viljað auka kosningarrjettinn, að afnema mætti eftirlaun og aðskilja ríki og kirkju með einföldum lögum o. s. frv.

Stjórnarskrárhreyfingin, sem samþykt var á þinginu 1911, var framkomin fyrir þessar eindregnu óskir þjóðarinnar, og þótt mönnum líkaði þær ekki alment í öllum atriðum, þá kom það þó í ljós við kosningarnar fyrir aukaþingið 1912, að mikill meiri hluti af kjósendum landsins sættu sig við, að það frv yrði samþykt óbreytt, fremur en að málið yrði dregið eða því telft í tvísýnu. En þegar svo mikill meiri hluti þingmálafunda var því samþykkur á undan aukaþinginu 1912, að málinu skyldi frestað, þá var það aðeins vegna samkomulagstilraunanna um sambandsmálið, sem þá voru á ferðinni, en ekki vegna þess, að áhuginn á framgangi málsins hefði dofnað hjá mönnum. — Og þó að lítill áhugi á málinu virðist hafa sýnt sig á þingmálafundum í vor, þá stafar það eingöngu af, að menn voru alment hræddir um, að ríkisráðssetuákvæðið yrði sá ásteitingarsteinn, sem alt málið strandaði á, en vildu þó ekki hopa á hæl í því atriði.

Jeg lít nú svo á, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, sje að mörgu leyti betra, en frv. frá 1911. Það er víst, að margir af kjósendum Iandsins hafa ekki að öllu leyti getað sætt sig við það frv., enda hafa mótbárurnar á móti því verið allríkar, þótt þær hafi ekki verið mjög almennar.

Einna mest hafa menn haft á móti rýmkun kosningarrjettarins. Mörgum hefur vaxið í augum að auka kjósendatöluna svo mjög alt í einu, sem ráð var gjört fyrir í frv. frá 1911. En nú er bætt úr þessu á þann hátt, sem jeg hygg, að allir megi vel við una. Konur eiga nú að fá kosninnarrjett, eins og sjálfsagt er, og hjú líka, svo að þau verði ekki fyrir rjettindamissi fyrir vistarráðin. En þetta á ekki að gjörast alt í einu, heldur smám saman en þó á fáum árum og er það æskilegt fyrir þá, sem óttuðust, að ofsnöggar byltingar í þjóðlífinu mundu leiða af þessu, en hins vegar er það vel viðunanlegt fyrir fylgismenn hins almenna kosningarrjettar.

Jeg tel því þessa leið góða. Háttv. þm. Strand. nefndi við síðustu umræðu tvær aðferðir, sem hann hefði heldur viljað hafa. Það, sem hann vildi hafa, var annaðhvort kosningarskattur, — gjald fyrir að komast á kjörskrá — eða þá einskonar próf um stjórnmálaþroska.

Báðar þessar aðferðir tel jeg mjög gallaðar. Kosningarskatturinn gæti orðið greiddur af einum fyrir marga, og atkvæði kjósenda þannig keypt á sinn hátt. Að minsta kosti hefur þetta orðið reynsla manna annars staðar og eins gæti farið hjer. Og prófin hygg að mundu reynast mjöð lítilsverð. Mjér skildist, að kröfurnar við þau ættu að vera mjög litlar, eftir því sem hinn háttv. þm. hafði hugsað sjer, og þegar frá prófi liði, gæti sumum gleymzt það litið, sem þeir hefðu lært fyrir próf. — Jeg hygg því að kosningarrjettarákvæði frvs., eins og það nú liggur fyrir, sjeu miklu betri. —

Þá hafa sumir haft á móti fjölgun ráðherra nú þegar. Hafa þeir talið nóg, að hægt væri að fjölga ráðherrum með einföldum lögum og verð jeg að játa, að jeg er einn í tölu þeirra manna, sem telja þá leið betri, en að breyta frá því, sem nú er, og fastákveða tölu ráðherra í stjórnarskránni. Samkvæmt frv. verður nú altaf hægt að gjöra þessa breytingu, þegar þörf krefur, og því vel sjeð fyrir þessu atriði.

Það tel jeg og hinn mesta kost á frv., að samkvæmt því á að fara fram almenn atkvæðagreiðsla um sambandsmálið, áður en því verður ráðið til lykta. Það verður aldrei nein blessun að sambandslögum, sem þjóðin vill ekki eða er mjög óánægð með. Háttv. þm. Strand talaði um, að með þessu ákvæði væri eins og umboðinu væri svift af fulltrúum þjóðarinnar. Þetta er alveg rangt. Svo sem allir vita, eru stjórnarskrárbreytingar jafnan bornar undir kjósendur með nýjum kosningum, og hafa þjóðfulltrúarnir umboð sin óskert eigi að síður. Hjer er um aðferð að ræða, sem er mjög líkleg til þess að afla sambandsmálinu fylgis og vinsælda, ef hún kemst á, og það tel jeg mjög mikils vert.

Ríkisráðsetuákvæði frvs. verð jeg að telja allviðunandi eftir atvikum: Eins og hæstv.. ráðh, tók fram við síðustu umræðu, eru allmiklar líkur til þess, að það verði ekki frv. að falli eins og það er nú orðað. Og vjer höfum ástæðu til að vona, að þaðgeti haft líka þýðingu eins og ákvæði frvs. 1911. — Það er þó mikill galli, að þinginu hefur ekki verið útveguð nokkurveginn. vissa um þetta atriði. Stjórnin hefði átt að taka málið, — sem á þinginu 1912 var aðeins frestað, — í sína hönd, þegar hún sá, að útsjeð var um framgang sambandsmálsins í bráð. Hún hefði átt að leggja fram stjórnarfrv. um málið, og þá hefðu menn að líkindum ekki þurft að pota blint í sjóinn um þetta atriði. En stjórnin hefur ekki gjört það, og verð jeg að telja það mikla ávirðing.

En nú vænti jeg að málið gangi fram, og að þjóðin sætti sig vel við það og að frv. verði svo samþykt á næsta alþingi.

Ef það heppnast, þá tel jeg vel farið.