10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sig. Eggerz, framsögumaður:

Ýmsum af atriðum þeim, sem hefur verið hreyft hjer, hef jeg þegar svarað áður, og nægir mjer því að mestu leyti að vísa til þess, sem jeg hef tekið fram hjer á undan. H. þm. Ísaf. lagði enn mikla áherzlu á, að það skyldi ekki hafa verið tekið upp í stjórnarskrána. að innborinna. rjettur skyldi vera skilyrði fyrir embættum hjer á landi. Þartil er því að svara,. að fyrst og fremst má breyta þessu með einföldum lögum, og í öðru lagi er ekki eðlilegt að binda ofmikið við þann rjett, sem við veitum ekki sjálfir. Þá lagði hann mikla áherzlu á, að ekki er ákveðið, að sýna þurfi kunnáttu í máli landsins.

En hvaða ástæða er til að taka slíkt ákvæði upp í stjórnarskrárfrv. Það er eins sjálfsagt og mest má vera, og enginn fær embætti án þess að kunna málið. Svo sjálfsagt er þetta, að engri þjóð, sem finnur nokkuð til sin, mundi, detta í hug, að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá.

Og enn vil jeg minna hv. þm. á konungsbrjef 8. apríl 1844, þar sem það er gjört að skyldu, að embættismenn hjer á landi kunni íslenzku; það þarf því ekki' ákvæði um þetta í stjórnarskrána.

Þá mintist háttv. sami þm. á ríkisráðssetuákvæðið. Hann ljet það í ljósi í gær, að hann bæri kvíðboga fyrir, að frumvarpið yrði ekki samþykt vegna þess. En eigum við þá aldrei að breyta stjórnarskránni vegna þessarar hræðslu. Og hvaða ástæða er til að ætla, að konungsvaldið setji sig á móti jafn eðlilegum og sjálfsögðum kröfum og hjer er að ræða um.

Yfir höfuð sje jeg ekki betur, en að mótbárur háttv. þingmanns sje með öllu hraktar. (Sig. Stefánsson: Öðru nær).

Háttv. þm. (S. St.) sagðist vita, að breytingartillögur sínar yrðu ekki teknar til greina, og því hætti hann við að koma fram með þær. En úr því svo er, hvaða ástæða er þá til alls þessa hávaða og fáryrða yfir því, að málið var ekki tekið út af dagskrá í gær.

Háttv þingm. fórust orð á þá leið, að hann ljeti það ekki ráða skoðunum sínum, hvort þær öfluðu honum lýðhylli eða eigi. Um það er jeg honum sammála, að illa væri farið, ef menn hjeldu þeim einum skoðunum fram, sem menn hjeldu að mundu bergmála bezt í hvert skifti. En hinu má þá heldur ekki gleyma, að það er engin dygð að halla skoðunum sínum til eftir stjórnarhylli. (Sig . Stefánsson: Á nú að fara að bregða mjer um stjórnarfylgi ?).

Jeg er aftur samþykkur háttv. þm. Ísf. (S. St.) um fjölgun ráðherra. Jeg tel einum manni ofvaxið að hafa það starf með höndum. Afleiðingin af því verður sú, að skrifstofuvaldið verður of sterkt, og varla við því að búast, að ábyrgðarlausir menn verði ráðherra eins hollir í ráðum og þeir, sem bera ábyrgð á ráðum sínum.

Háttv. þingm. taldi það mikinn ókost á frumvarpi þessu, að mörgum ákvæðum þess mætti breyta með einföldum lögum. Um þetta er jeg honum engan veginn sammála, þvert á móti tel jeg það kost, að hægt er að breyta ýmsum atriðum, sem ekki eru kjarnaatriði í stjórnarskránni, án þess að þingrof eða nýjar kosninger þurfi. Ekki get jeg fallizt á það, að rjett sje að heimta innbarinna rjett sem skilyrði fyrir kjörgengi og læt mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hef áður sagt um þetta atriði. Vil aðeins bæta því við, að það er hart að útiloka þá menn, sem hjer hafa dvalið um lengri tíma og unnið landinu vel, frá þessum rjettindum.

Þá er háttv. 3. kgk. þm. Hann talaði um kosningarrjett kvenna og var hlyntur honum, en þótti á hinn bóginn farið oflangt í þessu frv., og yfirleitt þótti honum ákvæðin um kosningarrjettinn heldur við, einkum andæfði hann því, að veita vinnuhjúum hann. Þessu er jeg algerlega mótfallinn. Jeg tel það sjálfsagða skyldu þjóðfjelagsins að veita þennan rjett. Það er ekki rjett að hafa lögskipaðan stjettamun í landinu. Hvernig geta menn ímyndað sjer, að hægt verði að fá menn í vist, ef hjúastaðan er svo rjettlág, sem háttv. 3. kgk. þm. kýs. Það er móðgun við stjettina að neita þeim um þennan rjett. Þeim vinnumönnum hlýtur að sárna að sitja heima, er menn ríða til kosninga. Afleiðing þessarar stefnu verður sú, að stjettin hverfur.

Þá taldi háttv. 3. kgk. efri deild ekki nógu íhaldssama. Aftur hjer er jeg honum ósammála; tel það öldungis nægilegt, þar sem 6 þingmenn eru kosnir til 12 ára; þingrof nær ekki til þeirra og enginn hefur kosningarrjett til efri deildar nema hann sje 35 ára að aldri. Jeg sje ekki ástæðu til meira íhalds en þetta. Ef öll efri deild hefði verið kosin hlutfallskosningum, þá hefðu aðallega Reykvíkingar skipað hana, og þá er líklegt, að Reykjavíkur áhugamálin höfðu staðið í efri deild gegn áhugamálum landsins alment í neðri deild. Þetta tel jeg mjög óheppilegt.

Um kjördæmaskipun er þarfleysa að fjölyrða; ef hún er óheppileg, má breyta henni. Það kemur ekki þessu frv. við.

Þá þótti háttv. sama þm. ákvæðið um þjóðar atkvæðið í sambandsmálinu athugavert. Tvö þing eru henni leið til að breyta stjórnarskránni, og því skyldi þá ekki að minsta kosti jafn mikil skilyrði vera henni leið til breytinga á sambandinu milli Danmerkur og Íslands. Það er mjög varhugavert, að eitt þing geti ráðið slíku stórmáli til úrslita. Á æsingatímum getur slíkt orðið til stórtjóns og valdið þeim óþægindum, er við verðum að búa að um langan aldur. Jeg tel það liggja í hlutarins eðli, að hjer þarf að búa vel um hnútana og tryggja, að slíkt komi ekki fyrir.