19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (234)

61. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Eins og kunnugt er, hefir stjórnin ætið verið því hlynt, að talsímar yrðu hér sem útbreiddastir, og að sem flestum gæfist kostur á að nota þá. Eg hefi því ekkert við þetta frumv. athuga í sjálfu sér, nema hvað mér þykir frumv. koma nokkuð kynlega fram hér nú. Fyrst er nú það, að lögin, sem breyta á, eru ekki nema eins árs gömul, og virðist það því æði snemt að fara nú að breyta þeim, og í öðru lagi hefir þetta mál alls ekki verið borið undir þann mann, sem fyrst er til þess kjörinn að undirbúa slík mál, sem sé landsímastjórann. Þetta hugnast honum ekki. Hann er því vanur annarstaðar frá, að farin sé hin eðlilegasta leið með slíkt, og það er undarlegt, að koma með svona frumvarp að honum fornspurðum.

Eg er ekki kunnugur þar vestur frá, en heyrt hefi eg, að þar á milli sé mjög örðugur fjallvegur. Ef þetta er ekki rétt, þá verður það leiðrétt, en sé svo, sem eg hefi ástæðu til að ætla, þá kemur það undarlega fyrir að ákveða þar símaleið, sem enginn hefir hugmynd um, hvort hægt er að leggja síma. Að minsta kosta álítur landsímastjóri hreint óvit að samþykkja þetta án þess að rannsaka fyrst leiðina. Það eru mörg fjöll á Vesturlandi svo brött og erfið, að ókleift er að leggja síma yfir þau, og þessi fjallgarður kvað vera einn af hinum erfiðari. Enn fremur sýnist svo sem ekki hafi legið mikið á með þetta mál nú, þar sem þessi sími á að vera 4. flokks sími, og því sitja á hakanum fyrir svo mörgum, svo að þótt farið verði að semja lög um þetta nú, þá liður ef til vill langur tími, mörg ár eða áratugir, þangað til þau koma til framkvæmda. Það má rannsaka málið, en hitt er óþarfi, að fara svona fljótt að semja lög um það.

Svo er eitt enn. Frumv. sýnist koma undarlega við gagnvart 7. gr. símalaganna. Þar stendur sem sé, að þegar lokið er lagningu og kaupum á 1. og 2. flokks símum samkv. 5. gr. og tekið til að leggja 3. flokks síma, þá skuli fé til þessara framkvæmda að jafnaði veitt í fjárlögunum, en þar er engin heimild ennþá fyrir fjárveitingu til þessa. Það á með öðrum orðum að undirbúa það fyrirfram, eftir fjárhagsástæðum í hvert sinn, hvaða símalínur skuli lagðar á fjárhagstímabilinu, og í hverri röð þær skuli lagðar, og þetta er mjög eðlilegt. Bæði eg og landsímastjórinn getum því ekki litið öðruvís á, en að hér sé í raun og veru farið fram á að breyta ekki einungis 4. gr., heldur og óbeinlínis 7. gr., þar sem verið er að draga þetta út úr sérstaklega; annars virðist lítil meining vera í því, að koma með þetta frumv. nú. Háttv. flutningsm. (Sk. Th.) sagði, að við þetta mundi ekki verða neinn aukinn kostnaður, með því að vegalengdin væri in sama sama. Um það getur hann ekki sagt. Hún hefir ekki verið mæld, og málið er, sem sagt, alveg óundirbúið, sérstaklega af þeim er helzt hefði átt að gera það sérþekkingar ainnar vegna.

Eg vil þess vegna mælast til þess, ef nefnd verður kosin, að hún athugi vel, hvað hún leggur til að samþykt verði um þetta mál.