11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

94. mál, kosningar til Alþingis

Hákon Kristoffersson, framsögum.:

Mjer komu ummæli h. þm. Ísaf (S. St.) mjög á óvart, með tilliti til fyrri framkomu hans um mál þetta. Um misfellur á atkvæðaseðlum vil jeg vísa til fyrri ummæla minna hjer í deildinni. Þó h. þm. Ísaf. hafi góða reynslu frá kjósendum sinum í því, að þeir geti kosið án þess að gallar verði á, þá er þess að gæta, að allir kjósendur landsins eru ekki í kjördæmi hans. Og reynsla mín fer í aðra átt en hans, og því er eðlilegt, að jeg æski breytinga á þessu. Jeg skal og geta þess í sambandi við þetta, að ef stjórnarskráin verður samþykt, þá bætist fjöldi nýrra kjósenda í hóp hinna gömlu kjósenda, sem eru óvanir þeirri aðferð, sem nú tíðkast. Hvað það snertir, að menn sjeu orðnir svo vanir að setja kross, að þeim þessvegna veiti erfitt að nota stimpil, þá tel jeg slíka mótbáru lítils virði og varla svaraverða, og alls eigi nægja til að fella frumvarpið, enda vænti jeg þess, að það verði samþykt.