11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

109. mál, forðagæsla

Guðjón Guðlaugsson, framsögumaður:

Þetta frv hefur fengið óvenjugóða meðferð hjá Nd. Hún hefur ekkert spilt því, sem þó hefur verið venja hennar í sumar, en um breytingar þær, sem hún hefur gert á frumv., er það að segja, að engar þeirra raska gildi þess, og á stöku stað er frv. bætt. Ein höfuðbreytingin er við 1. gr. Þar er bætt inn þessu ákvæði: „Ef þeir eru fleiri en einn, getur hreppsnefnd skift hreppnum í jafnmörg forðagæzluumdæmi, og hefur þá hver forðagæzlumaður sitt svæði fyrir til umsjónar. Þetta lá nú milli línanna í frv., og úr því að það var tilætlunin, er gott, að það komi skýrt fram, svo að einn skilji það ekki svona og annar hins vegar. Jeg kann því betur við, að það sje svona, heldur en það verði misskilið. Á hinn bóginn þykir mjer það ókostur, að forðagæzluumdæmum er skift í parta, og forðagæzlumaður aðeins einn. Það hefði áreiðanlega orðið meiri árangur af að hafa þá tvo, eins og jeg hafði áður haldið fram.

Önnur breyting er við 7. gr., viðvíkjandi daglaunum forðagæzlumanna. Þau höfðu verið ákveðin 2 kr. á dag, en Nd. hefur gert þá breyting, að þau skuli vera alt að 2 kr. á dag eftir samkomulagi. Hjer kennir þess greylega smásálarskapar, sem svo oft gerir vart við sig hjer á þinginu. Það er ótrúleg fjarstæða að vera að færa niður 2 kr. dagkaup; enginn nýtur maður fæst til að vinna dagsverk fyrir minna. Þótt þetta verði samþykt hjer, þá er jeg viss um að allir hjer í deildinni eru sammála um, að daglaunin eigi aldrei að verða minni en 2 kr. — Þá er 8. gr. Í neðri deild var samþykt brtill. um að fella burtu siðari helming seinni málsgreinarinnar, en skrifstofunni hefur orðið sú vangá, að gæta þessa ekki í prentuninni. Jeg hef bent skrifstofunni á þetta, og mun það verða leiðrjett. Á 9 gr. hefur Nd. gert eina breytingu til bóta, þar sem hún hefur sett inn ákvæði um, að forðagæzlubækurnar eigi að sendast Landsskjalasafninu, þegar þær eru fullskrifaðar. Ef þessar bækur verða vel færðar, svo sem jeg óska og tel sjálfsagt, geta þær orðið til hinnar. mestu nytsemdar fyrir hagfræðinga og sagnritara. Loks vil jeg minnast á, að neðri deild hefur gert þá orðabreyting, að nefna sjóðinn bjargráðasjóð í staðinn fyrir hallærissjóð. Mörgum þykir það breyting til bóta, og jeg hef ekkert á móti henni.

Yfir höfuð hefur meðferð neðri deildar á þessu frv. verið mjög góð, miklu betri en á því frv., sem var næst á undan á dagskránni. Hvað það frv. snertir, get jeg tekið undir með háttv. þm. Ísf. að það er hart, að hvert mannsbarn eigi að komast á sveitina um leið og það fæðist.