11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

71. mál, löggilding verslunarstaðar í Karlseyjarvík

Þórarinn Jónsson:

Háttv. 3. kgk., vildi halda því fram, að þjóðjarðasalan hefði ekki bætt ræktun landsins. Um þetta má suðvitað deila, og jeg fyrir mitt leyti held, að hún hafi gert það, þar sem jeg þekki til. Um leið og menn eru sjálfir orðnir eigendur, fara menn að rækta landið, því það er mjög sterk tilhneiging hjá hverjum einum til þess, að fara betur með það, sem hann á sjálfur, heldur en það, sem honum er lánað, og lánað oft með illum eða erfiðum kjörum, sem menn finna sárt til, og dregur það æði tilfinnanlega úr framkvæmdunum. Þá var annað atriði, sem háttv. 3. kgk. bar fram, og það var, að þeim, sem hafa stundað landbúnað, hefði fækkað. En þetta kemur ekki af því, að fólkinu hafi fækkað í landinu, heldur af því, að sjávarútvegurinn hefur aukizt og dregið fólk til sín í svipinn. En hann er valtur og þolir ekki miklar misfellur. Og þá held jeg, að svo fari, að þetta fólk leiti til sveitanna aftur. Jeg held það hafi ekki verið nema þessi atriði, sem háttv. 3. kgk. bar fram og það þýðir auðvitað ekki, að deila við hann um þau. Háttv. framsögumaður hjelt því fram, að það þyrfti að gæta að fleiru en þjóðjarðasölunni, því að einnig þyrfti að hugsa um leiguábúð á jörðum einstakra manna, og það er rjett, að þau lög þarf að bæta, ef mögulegt er, en nú hefur hann strandað á agnúunum, og vildi jeg ekki láta það ógert að minna hann á það. Því hefur verið haldið fram af sumum, að rjettast væri, að Iandssjóður hefði forkaupsrjett að öllum jörðum, og þeirri stefnu fylgir hjá sumum, að nema þjóðjarðarsölulögin úr gildi. Tillaga um þetta hefur komið fram í neðri deild, en ekki hafði hún almennara fylgi en það, að henni var vísað á sinn fæðingarhrepp, vísað til þeirrar nefndar, sem hún var sprottin frá, og er það sú Iakasta útreið, sem jeg minnist að nokkur tillaga hafi fengið. Það er eins og menn sjeu farnir að athuga málið betur. Og á síðasta þingi kom fram tillaga um forkaupsrjett landssjóðs á jörðum, en þó var ætlazt til, að þjóðjarðasölulögin hjeldust í gildi, en það er það sama og að skylda landssjóð til þess að kaupa í dag og skipa honum svo að selja á morgun. Slíkt nær auðvitað engri átt.

Alt þetta bendir til þess, að öll þau úrræði, öll þau hálmstrá, sem fjandmenn þjóðjarðasölunnar hafa gripið í að þessu, hafa slitnað, reynzt ónýt og óhæf. Og þannig vænti jeg að það fari framvegis, svo að hið góða málefnið sigri.