11.09.1913
Efri deild: 52. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

71. mál, löggilding verslunarstaðar í Karlseyjarvík

Steingrímur Jónsson:

Það er ekki til neins að deila við háttv. þm. Húnv. um áhrif þau, sem þjóðjarðasalan hefur haft á ræktun landsins. En það var eitt, sem jeg gleymdi að mótmæla áðan, og það var, að sjálfseignarjarðir væru auðþektar úr frá hinum, sem eru í leiguábúð. Þetta er rangt, að því er landssjóðsjarðir snertir. Það er langt frá því, að landssjóðsjarðirnar, þar sem rjettur ábúandans er vel trygður, sjeu ver ræktaðar en jarðir sjálfseignabænda. Ábúendur á þeim jörðum eru eins vissir um að geta setið á þeim framvegis, og látið börn sín taka við þeim, að þeim látnum, eins og sjálfseignarbændur. Og þeir hafa betri efni á að rækta jörðina, heldur en hinir hafa, oft og tíðum, því að sjálfseignarbóndinn, sem hefur lagt mikið fje í að kaupa ábýlisjörð sína eða leysa hana út frá meðörfum sínum, hefur ekki bolmagn til þess að leggja fje í ræktun lands síos. Jeg ætla ekki að fara lengra út í þetta málefni að sinni, en það var annað, sem jeg vildi mótmæla, og það er, að fækkunin í sveitunum stafi eingöngu af því, að menn hafa leitað til sjávarsveitanna. Það kemur ekki síður af því. að menn heimta meira landrými. Og mjer hefur dottið í hug, hvort þjóðjarðasalan muni ekki hafa getað stutt að því, að menn hafi flutt úr sveitunum og til sjávarins.

Jeg vjek að því áðan, að býlunum mundi geta fjölgað. Og til þess er frekar vilji hjá því opinbera en hjá einstökum mönnum. En með fjölgun býlanna held jeg að fylgja mundi aukin ræktun landsins. Jeg skal geta þess til dæmis. að á Húsavík eru nú 40 smátún og af þeim fást samtals um 1200 hestar af töðu á ári. En jeg er ekki viss um, að landið hefði verið orðið eins vel ræktað, ef það hefði verið í eign einstaks manns. En það er ekki hægt að fjölga býlum, þegar einstakir menn svæla landið undir sig og vilja hafa háltrar mílu breitt land út frá sjer, mest til þess, að búpeningur nábúans geti ekki gengið á land hans. Mjer finst vafasamt, hvort mikið hefst upp úr því, að vísa málinu til stjórnarinnar. Ábúðarlögin frá 1884 eru að mörgu leyti góð lög, en að vísu eru þau orðin úrelt að nokkru.