12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherra:

Ef um það væri að ræða, að fella þessar breytingar á vínbannslögunum inn í Iðgin sjálf, þá gæti það komið dálítið óþægilega við; þó mundi vel mega bjarga málinu við með því að skoða breytingu þá, sem þarf að gera, að eins „redaktionella“ breytingu. En nú er ekki ætlazt til, að svo sje gert, heldur verða þetta sjerstök lög. Jeg játa það, að frv. er nokkuð einkennilega orðað, en jeg vona þó, að engum detti í hug, að það skerði rjett þeirra, sem undanþágu hafa frá innflutningsbanninu samkvæmt bannlögunum sjálfum. Það er augljóst af öllum gangi málsins í þinginu og umræðunum um það, að hjer er ekki að ræða um aðra breytingu á lögunum með 2. gr. frv. en þessa undanþágu fyrir sendiræðismennina, og það er auðsætt af greininni, að stjórnarráðinu er ekki heimilt að veita fleirum hana, af þeim mönnum, sem ekki verða að teljast hafa undanþágurjett af alþjóðlegum ástæðum. Jeg hygg, að þótt þetta frv. sje samþykt, þá mundi engum detta í hug, að banna apótekurum og öðrum, sem eftir vínbannslögunum mega flytja vín inn, að gera það á sama hátt eftir sem áður.