12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sig. Eggerz:

Hv. 6. kgk. sagði, að jeg hefði ekki lesið bannlögin, og hv. 1. kgk. ekki heldur. Jeg svara fyrir mig. Hann mun svara fyrir sig. Hv. 6. kgk. hefur sjálfur ekki lesið bannlögin, eða skortir skilning á þeim. Jeg veit það, að læknar hafa leyfi til að hafa vin til lækninga, en mega ekki selja nje veita. Hjer er því ekkert „princip“-brot, eins og í þessu konsúlamáli, og þar sem að hv. 6. kgk. sagði það gengi nærri persónulegu frelsi sendiræðismanna, ef þeim væri ekki veitt þessi undanþága, þá ganga bannlögin líklega líka.

Hv. 6. kgk. talaði um, að skottulæknar gætu sezt að austur í Vík og haldið þar veizlur. Hvernig getur hann hugsað, að sýslumaðurinn í Vík liði slíkt?

Hv. 6. kgk. sagði það væri hörmulegt, að þeir menn ættu gæti hjer á þinginu, sem ekki vissu, hvað af því gæti leitt fyrir okkur, að baka okkur reiði stórþjóðanna. Jeg get ekki hugsað mjer, að eins göfug þjóð og franska þjóðin færi að troða illsakir við okkur vegna þess, að sendiræðismaður hennar hjer og fjölskylda hans fengi ekki að neyta víns. Hvernig getur hann hugsað sjer, að franska þjóðin sje svo spent fyrir, að konsúlar hennar drekki. Sendiherrarnir mótmæltu staðfestingu bannlaganna, en þau voru samt staðfest, og af því hefur lagaóhamingju leitt; allir hafa látið oss í friði. Ef vjer förum að leyfa þetta, þá koma allar aðrar þjóðir og heimta, að sjer sje veittur sami rjetturinn sem frönsku þjóðinni.