12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Eiríkur Briem, framsm.:

Háttv. 3. kgk. mintist fyrst á hina „solidarísku“ ábyrgð, sem lög þessi byggjast á. Eins og hann tók fram, var mikið um það mál rætt í nefndinni. Jeg get ekki ímyndað mjer, að mönnum muni standa svo mikill stuggur af þessari „solidarísku“ ábyrgð, að þeir þess vegna fælist frá að taka lán í veðdeildinni. Þegar menn athuga, hvað miklu meiri tekjur varasjóður þessarar deildar á að hafa, heldur en varasjóður hinna deildanna, — og þó hafa varasjóðár þeirra vaxið — þá skil jeg ekki annað, en menn sjái, að hjer er ólíklegt, að hætta sje á ferðum. Aftur á móti munu menn á útlöndum álita hina „solidarísku“ ábyrgð mjög mikils virði, og getur það haft mikil áhrif á söluverð brjefanna. Hinn háttv. þm. gat þess, að neðri deild hefði þó í ýmsum greinum gengið til móts við Ed., en vildi gera fremur lítið úr því. En Nd. hefur þó slakað til í mjög svo verulegum atriðum. Hún hefur fært upphæðina í 1. gr. niður um 1 miljón kr. í 10. gr. hefur hún fallizt á, að stjórnarráðið samþykki söluverð bankavaxtabrjefanna. Þá hefur neðri deild og gengið inn á, að eigi skuli greiða nema 1% í varasjóð, þegar eigenda skifti verða að fasteign, sem er veðsett veðdeildinni, og hefur þar að auki undanþegið lífserfingja, sem fá fasteign í arf, því gjaldi. Svo að það er ekki hægt að segja, að Nd. hafi ekki sýnt nokkra tilhliðrunarsemi. Auðvitað er mjer erfitt að mæla á móti því, sem jeg áður hef mælt fram með fyrir nefndarinnar hönd. En það er alveg tilgangslaust að fara nú að breyta frv. hjer, því að eins og það nú liggur fyrir, hefur það slíkt fylgi í Nd., að Ed. mundi ekki geta komið sínu máli fram, þó að frv. kæmi í sameinað þing. — Háttv. 3. kgk. tók það fram, að í hans augum væri upphæðin, sem gefa mætti út bankavaxtabrjef fyrir, ekkert meginatriði. Það væru tvö önnur atriði, sem hann einkum áleit varhugaverð. Viðvíkjandi ákvæðum 10. gr. hjelt hann því fram, að bankastjórarnir gætu sjálfir ákveðið verð. ið á veðdeildarbrjefunum. En það er alls ekki rjett. Ef lántakandinn t. d. gæti vísað á kaupanda, sem vildi gefa sæmilegt verð, þá hlyti bankastjórnin að taka það til greina.

Hann tók til dæmis, að það mundi verða illa þokkað, ef bankastjórnin seldi brjef fyrir 94%, sem seinna væri hægt að koma út fyrir 98%. Jeg teldi líka óálitlegt að selja fyrir 94%, En þess er að gæta, að í slíkum efnum er altaf teflt á tvær hættur. Kaupandinn ímyndar sjer auðvitað, að brjefin muni hækka í verði, seljandinn að þau muni lækka, og tíminn einn getur skorið úr, hvor rjettara hefur. Slíkt fer eftir vöxtunum á heimsmarkaðinum, sem enginn getur haft hugmynd um hvernig verða muni.

Það er mikið rjett, sem háttv. 3. kgk. sagði, að rentan er mjög há hjer nú. Það er orðin rík og rótgróin hugsun hjer, að 4% sje sanngjörn renta. Menn áttu líka lengi kost á að fá fje með slíkri rentu hjer, — rentan á heimsmarkaðinum var jafnvel þar fyrir neðan um tíma, — en sá tími er nú um garð genginn. Menn eru ekki sjálfráðir í slíkum efnum, menn verða að kaupa peningana því verði, sem á þeim er á heimsmarkaðinum. Rentan hefur vaxið ákaft um allan heim hin síðustu ár. Það eru ekki eingöngu stríðin og pólitískir viðburðir, sem hafa hleypt henni upp, –uppgötvanir nútímans eiga ekki hvað sizt þátt í, hvað hún er orðin há, með því að gera arðvænleg fyrirtæki, sem áður voru það ekki. Hitt atriðið, sem háttv. þm. þótti sjerstaklega varhugavert, var 1% gjaldið af lánum á veðsettum fasteignum, sem hafa eigandaskifti. Hann nefndi þetta gjald skatt, og má til sanns vegar færa að nefna það svo, en þess er að gæta, að sá skattur rennur í varasjóð veðdeildarinnar, og því meir sem hann vex, því síður þarf að taka til sameiginlegu ábyrgðarinnar.

Jeg skal að lokum taka það fram, að nefndin er sömu skoðunar og háttv. þm., að frumvarpið hafi verið betra eins og Ed. gekk frá því, en eins og jeg áður sagði, væri tilgangslaust að fara að breyta því nú hjer í deildinni.