16.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Guðmundur Björnsson:

Jeg vil með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna jeg hef skrifað undir brtill. með h. 3. kgk. Það gladdi mig. að háttv. frsm. sagði, að hann rjeði til að samþykkja frv. að eins vegna þess, hvað það hefði mikið fylgi í Nd., en ekki af því, að hann væri ánægður með það í raun og veru. En ástæðan til þess, að jeg skrifaði undir brtill. er í stuttu máli sú, að mjer datt í hug að setja mig í spor lántakanda. Jeg hugsaði sem svo: Ef fjelaus Reykvíkingur þarf á 2000 kr. láni að halda, þá útvegar hann sjer ábyrgðarmenn, sem annarhvor bankinn tekur gilda, og síðan fær hann fjeð með þeim vöxtum, sem þá tíðkast. Bróðir hans, sem er jarðeigandi í sveit, biður nú um 2000 kr. gegn þeirri beztu tryggingu, sem til er. Hann fær ekki eins góð kjör. Hann fær ekki 2000 kr. útborgaðar, heldur það og það, sem bankastjórnin segist geta fengið fyrir veðdeildarbrjefin, ef til vill ekki nema 1800 kr. Þar að auki á hann að greiða 1% af upphæðinni í varasjóð, og loks á hann að ganga í 200 kr. ábyrgð fyrir aðra lántakendur. Ofan á alt þetta á hann svo að borga söluskatt! Jeg er sannfærður um, að jarðeigendur verða ekki svo þakklátir fyrir slíkan velgjörning, sem vænzt er eftir. Jeg er hræddur um, að þeim finnist ekki þessi okurkjör svo aðlaðandi, að þeir geri sjer oft erindi í bankann, ef nokkurs annars er kostur. Það er furðulegt, ef menn hafa í fullri alvöru gripið til slíks ráðs sem þessa bankanum til viðreisnar. Þar á við hið fornkveðna, að heggur sá, er hlífa skyldi. Það getur aldrei orðið vinsælt, að beita slíku harðrjetti gegn þeim, sem hafa beztu veðin fram að bjóða. — Jeg mun því greiða atkvæði á móti frv., ef breytingartillögur okkar verða ekki samþyktar. Málið hefur komið öllum á óvart, og væri betra, að stjórnin hefði haft það til meðferðar fyrir þing. Þá hefði það áreiðanlega orðið öðruvísi úr garði gert — eitthvað skárra.